Á mánudag hefjast í Barcelona-borg á Spáni réttarhöld yfir kólumbísku stórstjörnunni Shakiru vegna skattalagabrota.
Söngkonan á yfir höfði sér átta ára fangelsisdóm, og tveimur mánuðum betur, fyrir brot sín en henni er gert að sök að hafa svikist um að greiða rúmlega 2,3 milljarða króna í skatt til spænskra yfirvalda. Auk fangelsisvistarinnar gæti Shakira verið dæmd til að greiða um 3,7 milljarða króna í sekt vegna brota sinna.
Poppstjarnan hefur lýst yfir sakleysi sínu vegna málsins og hefur hafnað öllum tilboðum um að setjast að samningaborðinu við spænsk skattayfirvöld vegna málsins.
Málið snýr aðallega að búsetu söngkonunnar árin 2012 og 2014. Yfirvöld telja að söngkonan hafi verið búsett á Spáni meira en helming ársins á þessum árum og þar með væri söngkonan skattskyld þar. Shakira segist hins vegar hafa verið búsett á Bahamas-eyjum sem er þekkt skattaskjól auðkýfinga.
Búist er við að réttarhöldin standi yfir í tæpan mánuð og mun mikill fjöldi þekktra einstaklinga stíga í vitnastúku vegna málsins.