Morgunblaðið skýrði fyrst frá þessu en málið er reifað í úrskurði kærunefndar jafnréttismála.
Eins og fyrr segir var konan ráðin til starfa í september 2020 og mánuði síðar var karlmaðurinn ráðinn til sömu starfa samkvæmt starfslýsingu. Hann fékk þá lægri laun en konan en samkvæmt samningi hans átti að endurskoða laun hans eftir fjóra mánuði.
Þá voru þau hækkuð en ekki laun konunnar. Hún var þvi með lægri laun frá því í apríl 2021 þar til í desember sama ár.
Laun hennar voru hækkuð 1. janúar 2022 þegar upp komst að munur var á launum hennar og karlsins. Hún krafðist þá afturvirkrar launaleiðréttingar en því hafnaði RKÍ.
Kærunefndin skoðaði hvort RKÍ hefði brotið gegn lögum með þessum launamismun og hvort ákvæði í ráðningarsamningi fólksins, um endurskoðun launa, bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga. RKÍ greip til varna og hélt því fram að konan hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins þar sem RKÍ hefði viðurkennt mistökin, sent henni skriflega afsökunarbeiðni og staðfest að RKÍ myndi læra af reynslunni og gera betur í framtíðinni.
Konan reyndi að ná sáttum við RKÍ eftir að málið var komið til meðferðar hjá kærunefndinni og krafðist þess að fá launamismuninn greiddan. RKÍ féllst ekki á það í upphafi en viðurkenndi í lok maí á síðasta ári að mistök hefðu verið gerð og greiddi henni launamismuninn.
Taldi kærunefndin að RKÍ hefðu ekki talið unnt að réttlæta launamuninn á hlutlægan og málefnalega hátt og að RKÍ hefði því mismunað konunni á grundvelli kyns hennar í átta mánuði.