fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Hvað er hvítasunna?

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 28. maí 2023 09:00

Málverkið Hvítasunna eftir Jean Restout,frá 1732

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er hvítasunnudagur og á morgun er annar í hvítasunnu. Þessi helgi er þar af leiðandi þriggja daga löng og venjulega kölluð hvítasunnuhelgin. Þetta er eitthvað sem lesendur vita mæta vel. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að einhver séu ekki alveg viss um hvað hvítasunna eiginlega er eða hvers vegna hún er haldin hátíðleg og er almennur frídagur.

Þegar leitað er í Google leitarvélinni að orðinu hvítasunna er það fyrsta sem kemur upp svar Hjalta Hugasonar, prófessors emeritus í guðfræði við Háskóla Íslands, frá 2006 við spurningunni hvers vegna hvítasunnan er haldin hátíðleg. Spurningin var lögð fram á vísindavef Háskóla Íslands.

Hjalti segir hvítasunnuna, auk páska og jóla, eina af höfuðhátíðum kristinnar kirkju. Hann segir hátíðina hafa markað upphaflega lok páskatímans sem stóð í 50 daga en síðar orðið að sjálfstæðum minningardegi um það sem sé kallað úthelling heilags anda.

Minnir Hjalti á að heilagur andi sé ásamt Guði föður og syninum Jesú Kristi grunnur hinnar heilögu þrenningar sem er lykilþáttur kristninnar (þó það eigi reyndar ekki við um sumar trúardeildir). Um hlutverk hins heilaga anda segir Hjalti:

 „Hlutverk heilags anda er aftur á móti að upplýsa sérhvern mann og endurnýja gjörvalla sköpun Guðs. Hann er því sagður vera sá umskapandi kraftur sem kemur öllu góðu til leiðar í mannlífi og náttúru. Meðal annars af þessum ástæðum er litið á hvítasunnudaginn sem stofndag kirkjunnar.“

Hjalti segir að í öðrum kapítula Postulasögu Nýja testamentisins segi að lærisveinar Krists hafi verið saman komnir og þá hafi heyrst gnýr af himni, eldtungur sest á lærisveinana og þeir farið að tala framandi tungumál sem þeir ekki kunnu. Hafi aðrir viðstaddir talið að lærisveinarnir hlytu að vera drukknir en Hjalti segir hinn hreinsandi eld og tungutalið séu tákn hins heilaga anda. Kristur hafi, eftir upprisu sína, einmitt tjáð lærisveinunum að heilagur andi myndi verða þeim að liði eftir að hann væri farinn frá þeim.

Hafa ber í huga að Kristur hélt einmitt á brott til himna á uppstigningardag sem haldinn er hátíðlegur á undan hvítasunnunni.

Þetta eru trúarlegar rætur hvítasunnunnar en Hjalti tekur þó fram að hún tengist einnig, eins og páskarnir, fornri ísraelskri og síðar gyðinglegri uppskeruhátíð.

Nafnið sjálft

Þegar kemur að sjálfu nafni hátíðarinnar, hvítasunnu, segir Hjalti:

Upphaflegt heiti hátíðarinnarpentekosté heméra eða fimmtugasti dagurinn, var tekið í arf frá grískumælandi gyðingum. Af því nafni er heiti hvítasunnunnar í ýmsum erlendum málum dregið, til dæmis pentecost á ensku og pinse á dönsku. Íslenska heitið hvítasunna á sér einnig hliðstæðu í ýmsum málum, til dæmis Whitsunday á ensku.“

Hjalti bætir því við að til forna hafi heitið hvítadagur verið venjulega notað. Það heiti hafi verið dregið af því að algengt var að skíra fólk á aðfaranótt hvítasunnu, en hún var haldin hátíðleg eins og ýmsar aðrar aðfaranætur stórhátíða. Eftir skírnina hafi þau skírðu verið færð í hvít klæði sem skírnarkjólar nútímans eigi rætur að rekja til.

Frídagurinn

Hvítasunnan hefur verið haldin hátíðleg og dagar hennar verið almennir frídagar hér á landi í að minnsta kosti hundruð ára. Auk hvítasunnudags og annars í hvítasunnu voru, áður fyrr, þriðji og fjórði dagur hvítasunnunnar einnig frídagar. Það sama gilti einnig um jól og páska. Kaþólska kirkjan felldi fjórða daginn hins vegar niður.

Eftir siðbreytinguna á Norðurlöndum, á 16. öld, vildu lútherstrúarmenn einnig fella niður þriðja daginn til að draga úr áhrifum kaþólskunnar þar sem áhersla var lögð á að hafa stórhátíðir þríheilagar. Það var loks gert hér á landi með tilskipun Danakonungs um 1770.

Þetta er ástæðan fyrir því að annar í hvítasunnu, annar í jólum og annar í páskum bera þessi heiti.

Í dag hefur hvítasunnan að mestu glatað öllum sérkennum. Haldið er upp á hana í kirkjum landsins en engir sérstakir siðir eru tengdir henni nú orðið og fyrir mörgum er hvítasunnan fyrst og fremst þriggja daga helgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna