Andri Rúnar Bjarnason framherji Vals fær gagnrýni í hlaðvarpsþættinum Dr. Football fyrir að vera ekki í góðu líkamlegu formi.
Andri Rúnar kom við sögu í sigri Vals á KA í úrslitum Lengjubikarsins. Andri er að stíga til baka eftir meiðsli og er líkamlegt atgervi hans til umræðu.
„Andri Rúnar þarf að vinna í fitnessinu hjá sér, hann hefur verið meiddur,“ sagði Jóhann Már Helgason sérfræðingur þáttarins og opnaði á umræðuna.
Hjörvar Hafliðason tók þá til máls. „Andri Rúnar hefur skorað mörg sem margir íslenskir leikmenn geta ekki skorað, þessi gaur er hulin ráðgáta. Hann er geðveikur í fótbolta en á erfitt með að vera í standi, það á að vera það auðveldasta,“ sagði Hjörvar.
„Hann kann þetta erfiða, enn að vera í toppstandi hefur reynt honum mjög erfitt.“
Albert Brynjar Ingason segir þetta ekki nógu gott. „Þetta er lágmarks krafa að vera í standi, svo reyna að standa sig á vellinum.“