fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Arnar gerði hvað sem er fyrir næsta skammt – ,,Ég sprautaði mig mig stundum sextán sinnum á dag en það var aldrei nóg“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 9. október 2022 09:00

Arnar f. DV Guðrún Gyða

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég man lítið eftir pabba fyrstu árin, hann var alltaf að vinna, en fékk brjósklos árið 2006 og þá fór allt til andskotans. Hann drakk ekki en fylltist miklu þunglyndi og gat ekki unnið. Hann og mamma rifust mikið,” segir Arnar Jónsson, 26 ára Keflvíkingur sem á að baki mikla og erfiða sögu fíkniefnaneyslu. 

Hann vill segja sögu sína í þeirri von að hún geti orðið öðrum til hjálpar. 

Andlegt og líkamlegt ofbeldi

Arnar er fæddur og uppalinn í Keflavík, einn fjögurra systkina, og var fjölskyldulífið oft erfitt.

,,Ég ólst upp við að horfa upp á mikið andlegt og líkamlegt ofbeldi sem við eldri systir mín sluppum heldur ekki við. Mamma beitti okkur andlegu ofbeldi og pabbi átti það til að beita okkur líkamlegu ofbeldi ef við hlýddum honum ekki.”  

Faðir Arnars var óvinnufær við brjósklosið og oft var mikil fátækt á heimilinu. Þurftu foreldrar Arnars þá að leita til ættingja eftir nauðsynjum. 

,,Þegar ég varð þriggja ára var ekkert til svo ég fékk appelsínu með kerti. Ég man reyndar ekki eftir því en systir mín sagði mér frá því,” rifjar Arnar upp.  

Með haglabyssu á klósettinu

Árið 2008 læsti faðir Arnars sig inni á klósetti með haglabyssu og hótaði að fyrirfara sér. Arnar var þá tólf ára gamall. 

,,Mamma hringdi á lögguna og sérsveitin kom. Það var farið með okkur krakkana til ömmu og afar þar sem við bara biðum eftir hvort hann myndi láta verða af því.”

Arnar segist hafa fyllst ofsahræðslu. 

,,Ég náði að kíkja inn um gluggann og sá hann liggjandi á baðherbergisgólfinu með byssuna og fattaði að hann ætlaði í alvöru að gera þetta. En sem betur fer opnaði hann fyrir sérsveitinni sem fór með hann.”

Það var Arnari hvað erfiðast að fjölmiðlar voru á staðnum og náðu ljósmyndum, bæði af föður hans leiddum út í handjárnum svo og af húsinu. Skólavistin hafði ekki verið Arnari auðveld í gegnum árin, hann hafði þurft að þola stríðni vegna fátæktar fjölskyldunnar, en eftir að myndirnar birtust versnaði allt til muna. 

Arnar var lagður var í einelti fyrir að eiga ,,klikkaða fjölskyldu.” 

,,Mér var strítt og ég sleginn og barinn,” segir Arnar.  

Arnar fékk einn tíma hjá sálfræðingi eftir þennan atburð en meiri var nú aðstoðin ekki. 

Vildi deyfa tilfinningarnar

Ástandið á heimilinu var nú orðið óbærilegt. ,,Þessi atburður hafði mikil áhrif á mig. Mér leið illa heima hjá mér, var hræddur við pabba og hætti að mestu að mæta í skólann enda leið mér aldrei vel þar.”

Skömmu síðar flutti fjölskyldan til Innri-Njarðvíkur, Arnar fór þar í nýjan skóla og eignaðist vini i fyrsta skipti.

Og það var með nýju vinunum sem Arnar fór að reykja og drekka áfengi sem hann stal frá mömmu sinni. 

,,Mér fannst tilfinningin góð og ég náði að deyfa tilfinningar mínar því hausinn á mér var alltaf fastur í fortíðinni. Ég veit ekki hversu oft ég hef reynt að dópa mig til að láta minningarnar hverfa. 

Það voru auðvitað góðar stundir með mömmu og pabba en slæmu stundirnar voru miklu fleiri því heimilislífið var erfitt.”

Rifrildi foreldra Arnars stigmögnuðust og að því kom að sjúkrabílar fóru að koma reglulega að heimilinu. 

Sjúkrabílar og lögregla 

,,Pabbi var að ,,óverdósa”, hann var í pillunum en mamma í áfenginu. Ég held að sjúkrabílarnir hafi komið um það bil tíu sinnum. Ég man eftir mömmu að reyna að vekja pabba og svo voru allt í einu komnir sex lögreglumenn á staðinn. Ég vissi vel hvernig hann gat orðið þegar hann var reiður svo ég  grátbað lögregluna að fara vel að honum þegar hann vaknaði.

Ég sagði þeim að hann væri bakveikur því ég vildi ekki að þeir meiddu hann.” 

Arnar var þá barn, að reyna að rökræða við lögreglu um meðferð þeirra á föður sínum, í þeirri von um að þeir sköðuðu hann ekki. Þegar blaðamaður bendir honum á að slíkt eigi ekkert barn að þurfa að upplifa, samþykkir Arnar en segir ósköp rólega að þetta hafi bara verið hans veruleiki.

,,Annars reyndi ég að vera sem minnst heima og vera frekar með vinum mínum. Ég vildi heldur ekki koma með krakka heim því pabbi var svo oft út úr heiminum. Mínir dagar voru að fara í skólann, reyna að fara heim með vinum, og fara bara heim rétt fyrir svefninn. Það var allt svo normal heima hjá vinum mínum, engin rifrildi og enginn að brjóta húsgögn.

Mér leið öruggum þar og langaði í nýja og venjulega fjölskyldu.”

Tólf ára í áfengið

Arnar byrjaði að drekka áfengi 12 ára gamall og drakk sig meðvitundarlausan frá upphafi. Hann var fjórtán ára þegar hann byrjaði að reykja kannabis og fikta við amfetamín og þaðan lá leiðin hratt niður á við. 

,,Fljótlega var ég líka kominn í kókaín, MDMA og e-pillur. Ég tók inn allt sem var í boði og gat deyft mig niður.”  

Það leið bara eitt og hálft ár frá því að Arnar byrjaði að drekka og þar til hann var kominn í öll efni sem hann náði í. Hann var 15 ára þegar Barnavernd sendi hann í fyrstu meðferðina og þá á Vog. 

Þá var hann svo að segja hættur að mæta í skóla, og þá sjaldan sem hann mætti var hann undir áhrifum. Skólayfirvöld höfðu samband við foreldra hans sem reyndu að læsa hann inni en alltaf komst Arnar út. 

Arnar segir meðferðina á Vogi hafa gert ástandið verra. ,,Ég var ungur og heimskur og vildi ekki hætta. Það kynntist ég eldri gæjum sem höfðu prófað allt og ég var alveg til í að prófa líka.

Ég lærði af eldri fíklum svo ég fór í sýru og morfín, og bara allt sem ég komst í, þegar ég kom út. 

Ég hef prófað allt nema heróín. Og það var þá sem ég byrjaði að selja til að fjármagna neysluna.” 

64 sinnum á skrá 

Aðspurður hvort hann hafi ekki lent upp á kant við lögreglu segist Arnar einmitt nýlega búinn að gögn um sig frá sýslumanni og komi hann þar við sögu í 64 málum. 

,,Ég gat ekki keyrt út í sjoppu án þess að vera tekinn því löggan þekkti mig.” 

Mynstrið var alltaf hið sama, Arnar var handtekinn, af honum tekin skýrsla, honum síðan sleppt og send himinhá sekt upp á hundruðir þúsunda sem hann aldrei gat greitt að fullu. 

Arnar segir þetta stórhættulega heim, fullan af hættulegu fólki. ,

,Þetta er allt frá einstaklingum eins og mér sem er að reyna að að fá sinn daglega skammt og upp í ofbeldisfólk og handrukkara sem hika aldrei við að beita ofbeldi. Ég man eftir að hafa verið í partýi, kannski 17 eða 18 ára, þegar að sérsveitin braust inn, því sá sem hélt partýið var þekktur fíkniefnasali.”

Fíknin með öll völd

Arnar rifjar upp annað partý í Keflavík þar sem hann drakk afar sterkt áfengi og raðaði í sig róandi lyfjum.  ,,Ég var alveg stjórnlaus þetta kvöld og vildi slást við alla en lognaðist svo út af. Stelpan sem hélt partýið reyndi að vekja mig en gat ekki vakið mig. Ég hafði tekið of mikið af efnum og það var hringt á sjúkrabíl og lögreglan kom með.

Allir földu fíkniefnin en einn var handtekinn og allir voru mjög fúlir út í mig. 

Ég rankaði svo við mér á Landspítalanum og vissi ekkert hvað hafði gerst. Þarna hefði ég getað dáið. Reyndar hef ég ,,,óverdósað” svo illa þrisvar sinnum að ég má þakka fyrir að vera á lífi.”

Arnar rifjar upp annað skipti sem kostaði hann næstum lífið.

,,Ég var búinn að taka róandi, reykja kannabis og drekka þegar ég missti meðvitund. Ég var þá heima og orðinn blár í framan en pabbi kom að mér og hringdi á sjúkrabíl. Þá var súrefnismettunin komin niður í fimmtán og brunað með mig í bæinn til að bjarga mér. 

Ég var allur í snúrum og dóti þegar ég rankaði við mér en bilunin við fíknina er svo mikil að tveimur dögum síðar fór ég aftur í morfínið. Og það þrátt fyrir að öll fjölskyldan væri grátandi í kringum mig þar sem ég dó næstum.

Samt náði það ekki að hræða mig nóg til að halda mig frá efnunum.” 

Meðferðir á meðferðir ofan

Arnar hefur farið í fjölda meðferða. 

Sex eða sjö sinnum á geðdeild, yfir tíu sinnum á Vog, einu sinni á Staðarfell og einu sinni á Vík. ,,Mig langaði að hætta en fíknin hélt mér í heljargreipum.  Ég náði kannski þremur mánuðum hér og sex mánuðum þar en náði aldrei að vera edrú lengur.”

Arnar vann inn á milli en hélst aldrei lengi á vinnu vegna neyslunnar. Hann stundaði líka afbrot og braust inn í leit að hlutum til að fjármagna neysluna. 

Hann segir að margt klikkað hafi átt sér stað.

,,Í eitt skipti stálu strákar, sem voru félagar mínir á þeim tíma, áfengi og riffli úr einhverju húsi og báðu mig um að koma að sækja sig. Ég var til í það og svo fórum við að reykja saman. Við vorum svo dópaðir og vitlausir að vilja að prófa að skjóta úr rifflinum svo við fórum eitthvað út fyrir Sandgerði og skutum um sjötíu skotum.

Á endanum ók einhver fram hjá okkur og sá hvað gekk á og hringdi á lögregluna. Það komu strax fjórir lögreglubílar og við vorum handteknir. Ég sat í klefa í átta klukkutíma þar til einn strákanna játaði.”

Arnar bjó að hluta til hjá foreldrum sínum á þessum tíma en var annars á flakki á milli kunningja.

Sprauturnar

Og svo komu sprauturnar.

,,Ég byrjaði að sprauta mig með amfetamíni, svo kom kókaínið og svo endaði ég í morfínlyfjunum. Það var mín endastöð.” 

Arnar segir svakalegt stökk að fara frá því að gleypa dóp, svo sniffa það og enda á að sprauta sig með því. ,,Það þarf að passa hvern skammt til að ,,óverdósa” ekki, sem er erfitt þegar að dómgreindin er ekki til staðar. 

Hann segist hafa verið mjög hræddur við fyrstu sprautuna. ,,Ég var að hanga með strák sem var tíu árum eldri en ég og búinn að vera lengi í sprautum.. Hann sprautaði mig í fyrsta skipti og þá með fentanyl.

Ég vaknaði í Reykjavík tveimur dögum seinna, mundi ekkert, leið hræðilega og það var  200 þúsund kall farinn af bankareikningnum. En ég lærði síðan smám saman að sprauta mig af öðrum fíklum.”

Arnar segir það hafa dregið hann að sprautunum að víman komin komi strax. ,,Ef maður tekur til dæmis inn e-pillu tekur það 40 mínútur fyrir vímuna að kikka inn en ef henni er sprautað tekur það bara nokkrar sekúndur.”

Að sögn Arnars er hægt að sprauta sig með öllu. ,,Rítalíni, spítti, kókaíni, morfíntöflum. Öllu sem að gefur þér vímu.”

Langaði að hætta

Arnar segir að hann hafi alltaf vitað að hann væri að gera ranga hluti í lífinu. 

,,Mig langaði alltaf að hætta. Og ég vissi að að það var rangt að fara inn í hús og stela en var það djúpt sokkinn að mér var í raun sama. Ég hugsaði að ef ég myndi deyja þá yrði það bara þannig.”

Hann sá einnig marga ljóta hluti sem hann mun aldrei gleyma. ,,Einu sinni var ég í partýi þar sem stelpa tók of stóran skammt. Við náðum að endurlífga hana áður en sjúkrabíllinn kom en svona hlutir sitja alltaf í manni.” 

Það var þó fyrst eftir að Arnar lenti í afar alvarlegu bílslysi árið 2015, sem hann man lítið sem ekkert eftir, að sprautuneyslan fór á flug. 

Arnar var við stýri og enginn þeirra sem að kom, hvorki sjúkraflutningafólk né lögregla, trúði að hann hefði lifað slysið af. Hann fékk gríðarlega áverka og er með fimmtíu spor í höfði. Kærasta Arnars var með honum í bílnum en slasaðist blessunarlega lítið sem ekkert. 

Í kjölfarið var hann settur á afar sterk verkjalyf sem hann tók í það stórum skömmtum að læknar neituðu að skrifa upp á meira.

Fór þá Arnar á svarta markaðinn og keypti sterkari lyf á við oxycontin og contalgin.

Meira kikk

Smám saman bættist í en Arnari fannst hann alltaf þurfa meira. Var honum þá sagt af neyslufélögum að ef hann bryti lyfin niður, í stað þess að gleypa þau, yrði kikkið meira. Það gekk í einhvern tíma, en sem áður fóru áhrifin að minnka.

,,Maður fær aldrei nóg. Líkami okkar er svo fljótur að venjast hlutum. Ég man að í fyrstu vímunni leið mér eins og ég væri í himnaríki, það var allt geggjað og ég var alltaf að leita að þessari sömu tilfinningu.

En hún kom aldrei aftur, sama hvað ég tók mikið.”

Þótt að Arnar hefði fiktað í sprautum hafði hann ekki sprautað sig reglulega fyrr en eftir slysið.

,,Þarna byrjaði ég að sprauta mig reglulega því víman kom strax og var mun sterkari. Og ef ég sprautaði mig ekki fór ég í fráhvörf, varð mjög veikur og leið ömurlega.

Manni líður eins og maður sé að deyja í fráhvörfum og er til í að gera bókstaflega allt til að fá næsta skammt.“ 

,,Ég seldi allt sem ég átti, bara fyrir eina, tvær töflur, og var farin að sprauta mig allt upp í sextán sinnum á dag. Það var aldrei nóg. Víman dugði kannski í tvo klukkutíma og þá þurfti ég næsta skammt. Og næsta skammt og næsta skammt og næsta skammt.Æðarnar í handleggjum Arnars voru orðnar mjög illa farnar. ,,Stundum hitti ég illa og þá blæddi út um allt. Þetta var mjög subbulegt allt saman.”

Dóttirin sem öllu breytti

Dóttir Arnars fæddist 2017 og gaf hún honum nýja sýn og löngun til að breyta lífi sínu. 

,,Ég vildi ekki rústa lífi hennar eins og mínu hafði verið rústað eða þá deyja og láta hana alast upp án föður. Þetta tvennt fékk mig virkilega til að langa til að hætta. 

Arnar fór í erfiða afeitrun á Vogi og þaðan í meðferð, þá fyrstu sem sem hann tók alvarlega. ,

,Mig virkilega langaði að læra að lifa lífinu edrú og var 100% með þá hugsun að leiðarljósi að gefa dóttur minni líf með föður sem ekki væri í fíkn og veseni. En því miður tókst það ekki alltaf, ég féll öðru hvoru í nokkra daga og tók mig svo til, var edrú í einhverja mánuði, og féll aftur. Þannig flakkaði þetta í einhvern tíma.”

Arnar og barnsmóðir hans voru saman í fjögur ár, frá 2015 til 2019.

,,Hún gerði mikið til að hjálpa mér. Hún var að berjast við sitt en var aldrei nálægt því jafn slæm og ég. Hún ákvað að hætta í öllu, fór reyndar ekki í meðferð en byrjaði að stunda AA fundi og gekk mjög vel. Hún var á fullu í þessu og gerði allt rétt.

En ég náði aldrei sama árangri og hún þótt ég segði sjálfum mér að ég væri að gera sömu hluti.”

Sambandinu hrakaði, barnavernd kom inn í spilið og var Arnar látinn fara á áfangaheimili eftir að vímuefni fundust í þvagi. ,,Þar hélt ég fram hjá henni, sem ég er ekki stoltur af. Þetta var enn einn hluturinn sem særði hana, og sambandinu lauk í kjölfarið.”

Dauðinn beið

Arnar vissi að hann var kominn á endastöð og langaði að gefast upp. Þetta var orðið of mikið, hann var til skiptis í fíkniefnaneyslu og fráhvörfum, fékk ekki að hitta dóttur sína og vissi að ekkert biði hans nema dauðinn.  

,,En ég hugsaði alltaf um dóttur mína og vissi að það voru bara tveir kostir í stöðunni. Annaðhvort fyrirfæri ég mér eða kæmi mér endanlega út úr þessu. Það var ekkert þar í milli. Ég veit ekki hvað ég hef skrifað ,,hvíl í friði” á margar Facebook síður vina minna sem tóku eigið líf,  sennilega eru það um fimmtán.”

Arnar lokaði því  á öll samskipti við neyslufélaga og eyddi öllum samfélagsmiðlasíðum sem eru sölusíður fyrir dóp. 

,,Og þá byrjaði hugsun mín loksins að breytast. Ég byrjaði svo ungur í neyslu að ég kunni ekki að vera edrú.”

Í fyrsta skipti langaði Arnari í alvöru að verða edrú, tilfinning sem hann hafði aldrei almennilega fundið fyrir áður þrátt fyrir handtökur og sjúkrahúsvistir.

,,Ég vissi að það beið mín ekkert nema dauðinn. Ég hætti að svara síma og umgangast alla sem höfðu sem höfðu verið í neyslu með mér.” 

Hann segir að að sumu leyti hafi þetta verið eins og að missa fjölskyldu þar sem  allir hans vinir voru í neyslu. Aftur á móti greip hans raunverulega fjölskylda hann. 

,,Þau voru búin að vinna í sínum málum og pabbi hjálpaði mér til dæmis mjög mikið og studdi mig í verstu fráhvörfunum. Auðvitað var stundum freistandi að fá sér en ég vissi að ég var á endastöð.”

Gott að gefast upp

Arnar greindist með heilaskaða eftir bílslysið og fór á Reykjalund þar sem hann segist hafa fengið mikla hjálp fagmanna. Þar byrjaði hann til dæmis að tala reglulega við sálfræðing sem hann segir hafa verið sér alveg nýtt þar sem hann hafði  aldrei opnað sig áður. 

,,Það var mjög erfitt í byrjun en ég vissi að ég yrði að vera hreinskilin ef þetta ætti að hjálpa mér. Svo ég endaði á að galopna mig með allt. Það var svo gott að sleppa, gefast bara upp, og gefa frá sér stjórnina. En líka skrítið.”

 

Arnar er nú búinn að vera edrú í 13 mánuði.

,,Þetta er lengsti tíminn sem ég hef náð að vera edrú frá því ég var 13 ára. Og það er mér ennþá nýtt.” 

Arnar viðurkennir að hann hafi ekki raun ekki trúað að honum myndi takast þetta og er mjög stoltur af þeim árangri sem hann hefur náð.

,,Því miður ná því ekki allir og ég hef misst allt of marga. Ég er edrú í dag en það koma erfiðar stundir. Ég er að takast á við tilfinningar, og sumar mjög erfiðar, því ég hef aldrei tekist á við mínar tilfinningar áður því ég dópaði þær frá mér því ég vildi ekki finna fyrir þeim.

Lengi vel hélt ég að ég gæti bara fundið þremur tilfinningum; reiði, leiða og hamingju, sem voru þær einu sem ég fann fyrir í vímu.“

Er ekki einn

En þegar ég varð edrú blossuðu upp allar þessar tilfinningar sem ég vissi ekki að ég ætti til. Og þá hjálpaði mjög að vera hjá sálfræðingi sem útskýrði þæri og  kenndi mér að skilja og takast á við þær. Hún hefur líka hjálpað mér að takast á við áföllin og gefið mér nauðsynleg tól og skilning til þess. 

Arnar byrjaði einnig að mæta á AA fundi sem hann segir hafa gert sér gott. 

,,Núna veit ég að ég er ekki einn í þessu og það eru fleiri sem eru að takast á við það sama. Lengi vel fannst mér ég vera einn í heiminum því það skilja ekki allir fíkniefnaneyslu og kalla þetta bara aumingjaskap.

En þetta er sjúkdómur og ég held áfram að takast á við hann.”

Lærdómur á hverjum degi

Arnar  segir lífið vera gott í dag en hann sé að læra á hverjum degi. Ekki síst að njóta gleði. 

,,Ég á dóttur sem ég elska meira en allt annað í lífinu. Við vorum mjög náin og ég vonast til að fá að umgangast hana aftur. Fíknin er svo sterk að hún tekur yfir allt yfir en vonin um að fá að umgangast dóttur mína er enn sterkari.” 

Arnar er ekki í vinnu þrátt fyrir að hafa ítrekað leitað sér að starfi. 

,,Ég á brösótta atvinnusögu að baki því ég var yfirleitt rekinn fyrir neyslu og lélega mætingu. Því fékk ég orð á mig og það gerir fíkli eins og mér, sem líka á sakaskrá, næstum útilokað að fá vinnu. Ég held að ég hafi sótt um yfir hundrað störf en allir biðja um sakaskrá sem ég er núna að bíða eftir að fyrnist og það er sem betur fer ekki langt í það.

Ég vil bara vinna og myndi taka hverju sem er. 

Ég veit að það verður ákveðin áskorun að vera edrú í reglulegri vinnu, þegar ég var í neyslunni var ég á kassa á Bónus uppdópaður á á e-pillum, en ég veit að ég get þetta í dag.”

Draumarnir

Aðspurður um hvað hann stefni á í framtíðinni er Arnar fljótur til svars. 

,,Ég á mína drauma og langar í nýtt og betra líf. Mig langar að kynnast góðri konu, gifta mig, eignast fleiri börn og hús og bíl. Mig langar líka til að mennta mig, helst af öllu vill ég verða sjúkraflutningamaður, sem er svolítið sérstakt, því ég veit ekki hversu oft þeir hafa náð í mig. 

En ég hef mikin áhuga á því starfi og reyndar öllu sem tengist líkamanum og hans virkni, ekki síst heilastarfseminni.” 

Vopnaburður orðinn normal

Arnar hefur skilaboð fram að færa, jafnt til foreldra og þjóðfélagsins alls. 

,,Ástandið í fíkniefnaheiminum er sífellt að versna, ekki síst eftir að fentanylið kom til landsins, sem þúsund sinnum sterkara en morfín. Það er hægt að fá næstum hvaða efni sem er í dag, annaðhvort eru þau framleidd hér á landi eða flutt inn.

Vopnaburður er líka orðinn normal í þessum heimi og ég er algjörlega samþykkur því að lögregla fái rafbyssur. Hvað er hægt að gera þegar staðið er fyrir framan 190 sentimetra háan mann sem er 150 kíló af vöðvum, út úr heiminum af fíkniefnaneyslu og vopnaður skammbyssu? Nota kylfu?“

Arnar hristir höfuðið við tilhugsunina. 

,,En það má ekki bara tala um það sem er slæmt, því það gerir ekkert annað en að mynda reiði í samfélaginu og hún hjálpar engum. Það gerast líka góðir hlutir og fólk er stíga frá þessu eins og ég er að gera.”

Almennileg forvarnarkennsla í skólum er algjört lykilatriði og það þarf að byrja á henni nógu snemma. Krakkar sjá oft kvikmyndir þar sem er ákveðinn glamúr yfir fíkniefnaneyslu og  allt virðist voða gaman.

En það er blekking því þessi heimur er ógeðslegur og fer sífellt versnandi.” 

Ást og skilningur

Arnar vill einnig beina orðum sínum til foreldra og forráðamanna. 

,,Kynnið ykkur málin, talið við börnin ykkar, verið þeim gott fordæmi og sýnið þeim stuðning. Haldið utan um börnin ykkur og hlustið á þau í stað þess að öskra á þau og læsa þau inni. 

Ást og skilningur er lykilinn,“ segir Arnar Jónsson að lokum. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda