fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Hræðilegar frásagnir íslenskra kvenna af kynferðisofbeldi – „Hann er ennþá lögreglumaður, hann er ennþá að fá börn til sín í ökukennslu“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 21. júní 2021 20:00

Skjáskot/Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjár íslenskar konur stigu fram og opnuðu sig um kynferðislegt ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í þættinum Undir yfirborðinu sem sýndur var á Hringbraut um helgina. Frásagnir þeirra eru vægast sagt hræðilegar og sýna svart á hvítu hvaða áhrif kynferðislegt ofbeldi hefur á þá sem fyrir því verða.

Þær Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari voru viðmælendur í þættinum en þær horfðu á viðtöl sem Ásdís Olsen, umsjónarmaður þáttarins, tók við þrjár konur. Eftir að horft var á viðtöl ræddu Steinunn og Hanna við Ásdísi um upplifun kvennanna.

„Hann er ennþá lögreglumaður“

Fyrsta viðtalið var við Tönju Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttur. „Ég fékk stimpil á mig sem drusla mjög snemma án þess að hafa stundað kynlíf af því ég var með stór brjóst. Eldri strákar voru með veðmál um hver gæti afmeyjað mig en á sama tíma var ég með stimpil sem drusla,“ segir Tanja í upphafi viðtalsins en það var á þessum tíma sem hún byrjaði að efast um sjálfa sig og sitt gildi.

„Ég hef verið áreitt frá því ég man eftir mér, eftir að ég fékk brjóstin mín. Ég hef alltaf hatað brjóstin á mér því ég hélt að þau væru að láta mig bjóða upp á þetta. Ég flutti úr landi, ég flúði land. Hann er ennþá lögreglumaður, hann er ennþá að fá börn til sín í ökukennslu. Ég bara skil ekki ennþá í dag af hverju það var svona auðvelt fyrir fólk að trúa honum frekar en mér.“

Ásdís spurði þá Tönju um hvernig hún vann úr ofbeldinu sem hún varð fyrir. „Það er mjög erfitt. Ég persónulega vann ekkert rosalega mikið úr því, ég flúði bara, ég fór bara. Ég fór frá Sauðárkróki þegar ég var 16 ára og það var mikill léttir. Mér þótti vænt um helling af fólki þarna og fannst það erfitt en það var líka léttir að þurfa ekki að sitja undir öllum sögusögnunum,“ segir hún.

„En annars þá held ég að ég hafi mest bara reynt að bæla þetta niður. Þess vegna finnst mér svo ógeðslega erfitt að rifja þetta upp því þetta hafði rosalega mikil áhrif á mig sem ungling og hvernig ég skilgreindi mig, út frá einhverjum sögum sem annað fólk sagði um mig, fullorðið fólk.“

Undir lok viðtalsins spurði Ásdís hvað hún gæti sagt núna sem væri styðjandi og heilandi fyrir Tönju. „Ég veit það ekki, ég held það sé mest bara að þú trúir mér,“ segir Tanja við því og sagðist Ásdís gera það.

„Þessi útskúfun er eitthvað sem margir upplifa“

Eftir hið áframmikla viðtal kláraðist ræddu þær Ásdís, Hanna og Steinunn það í þaula. „Hugsaðu þér, þetta er ekki flóknara,“ segir Hanna um það sem hjálpaði Tönju, að henni sé trúað. „Ég held að sagan hennar sé saga margra annarra unglingsstúlkna á Íslandi,“ sagði Steinunn svo í kjölfarið og benti á þann mikla fjölda sem verður fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur hér á landi.

„Þegar við skoðum tölurnar okkar á Stígamótum um það hverjir eru að leita til okkar – við erum sem sagt úrræði fyrir fullorðið fólk, þú þarft að vera 18 ára eða eldri til að koma á Stígamót – en 70% af fólkinu sem kemur til okkar var beitt kynferðislegu ofbeldi áður en það var 18 ára. Þetta, að upplifa kynferðisofbeldi á þessum mótunarárum sem unglingsárin eru, það hefur rosalega mikil áhrif á sjálfsmyndina og líðan. Þessi útskúfun er eitthvað sem margir upplifa,“ sagði Steinunn og bætti við að útskúfunin geti  verið margs konar. Útskúfunin getur verið í fjölskyldunni, skólum, vinahópum eða jafnvel í heilum bæjarfélögum.

Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir – Skjáskot úr þættinum

„Ég var að reyna að ýta þeim í burtu til skiptis“

Næst var spilað viðtal sem Ásdís tók við Sólveigu Auðar Hauksdóttur. „Ég var ári á undan í skóla og þetta var á öðru árinu mínu í Kvennaskólanum. Ég var á menntaskólaballi og ég hafði farið fyrr um morguninn í endajaxlatöku. Partýljónið sem ég er var ekki tilbúin að sleppa ballinu um kvöldið. Ég fékk parkódín forte hjá tannlækninum og ætlaði bara að vera edrú,“ sagði Sólveig.

„Við fórum í partý hjá bekkjarsystur minni og ég ætlaði ekkert að fá mér í glas. En svo er þarna eldri bróðir hennar á staðnum og hann er með vín fyrir alla. Þegar maður er 16 ára er dómgreindin ekki alveg fullþroskuð þannig ég fékk mér 1 eða 2 bjóra eða eitthvað álíka. Það í bland við þetta Parkódín gerði það að verkum að ég man mjög lítið eftir kvöldinu. Ég man að við fórum á þetta ball og svo fór ég heim með þessum bróður bekkjarsystur minnar.“

Eftir þetta man Sólveig bara brot af því sem fór fram. „Ég man eftir sjálfri mér í rúminu með þessum strák og vini hans og ég man að ég var að reyna að ýta þeim í burtu til skiptis en þetta var allt einhver móða. Svo fór ég heim um morguninn með leigubíl og talaði aldrei um þetta aftur.“

Sólveig vann á þessum tíma á veitingastaðnum Sólon en hún segir frá því í viðtalinu þegar bróðir bekkjarsystur sinnar kom þangað eftir að hann hafði beitt hana ofbeldinu. „Ég man ekki alveg hvað okkur fór á milli en ég man að hann baðst hálfpartinn afsökunar á hegðun vinar hans, að vinur hans hefði komið til okkar. En að öðru leyti virtist honum ekki finna þetta óeðlilegt.

„Ég man bara að ég hálfpartinn fraus þegar ég sá hann og ég man að vinkona mín, systir hans, skammaði mig ógurlega mikið í skólanum fyrir að hafa farið heim með honum því hann átti kærustu og átti von á barni, sem ég hafði ekki hugmynd um. Það ýtti ennþá meira undir þessa tilfinningu, þessa skömm, þessa drusluupplifun, að þetta hafi verið mér að kenna, ég valdi að fara heim með honum, ég valdi að fá mér í glas þrátt fyrir að ég hefði kannski átt að vita betur. Ég leit aldrei á þetta sem það ofbeldi sem þetta var.“

„Þetta er bara hræðilegt“

Sólveig ræðir þá það sem gerðist eftir ofbeldið. „Í framhaldinu flosnaði ég upp úr skóla, ég verð ofsalega þunglynd, fæ mikinn kvíða, sjálfskaðandi hegðun. Bæði leita í svona samskipti, bæði stelpur og stráka, af því ég bar ekki virðingu fyrir sjálfri mér þá sótti ég í svona óeðlileg sambönd. Ég drakk of mikið og endaði í algjöru þroti og var lögð inn á geðdeild. Ég stoppaði reyndar mjög stutt við þar en fékk í framhaldinu aðstoð með minn kvíða og þunglyndi og komst á rétta braut en ég vann aldrei úr þessu. Það hefur tekið mig mörg ár, bara ein með sjálfri mér, að losa mig undan þessum druslustimpli sem ég setti á sjálfa mig.“

Í dag á Sólveig stelpu sem er að verða 16 ára gömul á árinu. Hún segir að henni finnist það hræðilegt að ímynda sér að dóttir hennar gæti orðið fyrir ofbeldi og fundist eins og hún geti ekki sagt neinum frá því.  „Það er ótrúlega skrýtin tilfinning, ég bara, þetta er bara hræðilegt. Það er hræðilegt að samfélagið okkar komi þannig fram við konur að það að lenda í svona aðstæðum, þar sem þú missir tökin, að það sé áfellisdómur á þær. Að þetta sé ekki áfellisdómur á hann, því þetta er bara eitthvað karlmannlegt eðli, en að þær sitji uppi með þessa skömm og þessa vanlíðan.“

Sólveig Auðar Hauksdóttir – Skjáskot úr þættinum

„Ég veit ekki alveg hversu mikið ég má segja“

Að lokum er spilað viðtal við Áslaugu Öddu Maríusdóttur. „Þegar þetta kom fyrir mig þá var þetta búið að koma fyrir svo mikið af vinkonum mínum að ég vissi nákvæmlega að það væri enginn tilgangur í að einu sinni reyna að segja frá,“ segir Áslaug en hikar síðan þegar hún ætlar að segja frá því sem gerðist. „Ég veit ekki alveg hversu mikið ég má segja,“ segi hún og talar svo um það sem getur gerst ef þolendur segja frá of miklu.

„Það þorir enginn að segja neitt af því að ef það er einhvern veginn mögulega hægt að ráða úr því um hvern ég er að tala, ég þori ekki að taka á móti ljótorðuðu bréfi frá Villa Vill eða Sveini Andra, sem verja alla nauðgara og ofbeldismenn sem til eru. Ég hef ekki andlega styrkinn í það að berjast á móti þessum gerendum sem eru bara, um leið og einhver opnar munninn þá er komið bréf inn um lúguna.“

„Mér finnst þetta svo lélegt“

Áslaug gagnrýnir það harðlega að þolendur séu kærðir fyrir að opna sig um ofbeldi sem þeir urðu fyrir. „Ofan á allt annað sem við erum að ganga í gegnum þá megum við ekki opna munninn án þess að þurfa að berjast gegn einhverjum kærum sem eiga engan rétt á sér,“ segir hún.

„Mér finnst þetta svo lélegt, að í fyrsta lagi þá tekurðu ekki ábyrgð á gjörðum þínum af því þú nauðgaðir einhverjum og heldur áfram með lífið þitt eins og ekkert hafi í skorist og skilur eftir þolandann í sárum, brotinn þolanda sem þarf að byggja sig aftur upp og vinna úr þessu. Það kostar pening, það kostar tíma og það er drullu erfitt, og þú, nauðgarinn, heldur áfram með lífið þitt. Svo dirfist einhver að gefa í skyn að þú hafir gert eitthvað af þér á netinu og þú ferð beint í að tala við lögfræðing og lætur senda hótandi bréf heim til manneskjunnar, að ef þetta er ekki tekið til baka þá er farið fyrir dóm og þá þarf að borga skaðabætur. Af því aumingja orðsporið þitt er brotlegt.“

Áslaug Adda Maríusdóttir – Skjáskot úr þættinum
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd