fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Ekki skylda að byrja í átaki í janúar

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 13. desember 2020 20:00

Ásdís Inga Haraldsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís hjálpar konum að öðlast heilbrigt samband við mat, rétta kórónuna af og lifa sínu besta lífi. Þegar kemur að því að „komast í kjólinn fyrir jólin“ segir Ásdís konum að kaupa sér kjól sem passar núna.

Ásdís Inga Haraldsdóttir hjálpar konum að öðlast heilbrigt samband og ánægjulega tengingu við hreyfingu. Hún er með bæði stutt og lengri netnámskeið tengd matarfrelsi og er einnig með hreyfingaráskoranir. Ásdís heldur úti Instagramsíðunni @healthisnotasize og vefsíðunni BreakTheCircle.is. Þar deilir hún ýmsum fróðleik og öðru tengdu líkamsvirðingu og matarfrelsi.

„Í kjólinn fyrir jólin“

Nú þegar nær dregur jólum fer maður að heyra setninguna „í kjólinn fyrir jólin“ æ oftar. Við spurðum Ásdísi hvað henni þyki um þessa hugmynd.

„Elsku þú, keyptu þér kjól sem þér finnst fallegur og passar núna. Það er að segja, ef þú vilt kaupa kjól, vertu í því sem þér finnst þægilegt og lætur þér líða vel með sjálfa þig,“ segir hún og bætir við að hún viti þó hver meiningin sé á bak við setninguna.

„Þetta á að vera hvetjandi fyrir fólk til þess að „gefa í“ og léttast fyrir jólin. Bara sömu skilaboð og við heyrum úti um allt, léttari = betri.“

Ásdís Inga Haraldsdóttir. Aðsend mynd.

Hefur ekkert með viljastyrk að gera

Ásdís segir að fólk hafi frjálsan vilja til að taka ákvarðanir fyrir sig en hennar persónulega mat sé að fólk eigi bara aldrei að fara í megrun.

„Það er algengara en ekki að því fylgi mikið niðurrif, neikvæð líkamsímynd og að fólk sveiflist upp og niður í þyngd. Við viljum halda að okkur skorti bara viljastyrk en þetta hefur ekkert með viljastyrk að gera, líkaminn okkar er ekki hrifinn af þyngdartapi sem við þvingum hann í og það fara ýmsir varnarmekanismar í gang við það. Það sem megrunarmenningin gerir hins vegar er að láta okkur halda að það sé okkur að kenna að við höldum ekki út, þegar þetta var allan tímann „megruninni“ að kenna, hún brást, ekki þú,“ segir hún.

Í megrun í 60 ár

Ásdís stofnaði Instagramsíðuna @HealthIsNotASize í apríl á þessu ári.

„Ég stofnaði síðuna með það að markmiði að hvetja fólk til þess að bæta heilsu sína óháð holdafari. Sjá töfrana sem gerast þá, hversu frábært það er að losna undan því fangelsi að líða alltaf eins og maður þurfi að breyta líkamanum sínum. Því ég get sagt þér eitt, það eru konur yfir áttrætt í megrun og hafa verið í megrun í kannski 60 ár. Ég segi pass við því fyrir mig,“ segir Ásdís.

Heitasta ósk Ásdísar er að síða hennar hjálpi allavega einni konu til að snúa við blaðinu áður en hennar megrunarvegferð gengur jafn langt og Ásdísar gerði.

„Ég er bara 28 ára en alveg fram á unglingsár var ég minnt á það hægri, vinstri að ég væri of feit og það stimplaðist mjög fljótt inn og sjálfsmyndin var eftir því. Um leið og ég gat fór ég svo að eyða öllum mínum tíma í að reyna að vera mjó, sem tókst tvisvar. En svo fór það alltaf úr böndunum og auðvitað kenndi ég mér um það allt saman. Mitt tilvik gekk alltof langt og ég þróaði með mér lotugræðgi,“ segir hún.

„Við eigum öll að vera mismunandi, sumir eru grannvaxnir frá náttúrunnar hendi en við erum það ekki öll, og okkur er ekki öllum ætlað að vera svoleiðis. Sumir hafa sagt „en ef fólk borðar hollt og hreyfir sig þá grennist það“ en það er bara ekki alltaf svoleiðis. Vissulega er stór hópur sem grennist, en það er líka mjög há prósenta sem þyngist aftur. Við tengjum heilbrigði allt of mikið við tölu á vigt, sem ég skil vel þar sem BMI er ennþá notað í heilbrigðiskerfinu okkar til þess að mæla heilsu og fólk fær ekki tryggingar vegna þyngdar sinnar. Það er búið að gera okkur svo hrædd við fitu og stimpla inn í hausinn á okkur að það að vera grannur sé best, að það er ekki nema von að fólk hristi hausinn þegar það heyrir „heilsa í öllum stærðum“. Ég dæmi ekki, ég skil það fullkomlega því það er ekkert langt síðan ég var þar sjálf,“ segir Ásdís og heldur áfram:

„Mesti misskilningurinn er þó að „heilsa í öllum stærðum“ þýði að ALLIR séu að tileinka sér heilsusamlegar venjur í öllum stærðum. Það er ekki svoleiðis. En það þýðir að þú getur ekki séð lifnaðarhætti fólks utan á því. Rannsóknir sýna fram á að það séu lifnaðarhættir en ekki talan á vigtinni sem hafa áhrif á heilsu okkar,“ segir hún og bætir við:

„Fyrir utan það að næring og hreyfing er bara lítill hluti af heilsu okkar sem heild, ersvo ótal margt annað sem spilar inn í. Svefn, andleg heilsa, félagsleg heilsa, staða í þjóðfélaginu, fjárhagur og svo margt annað. Svo eiga allir skilið virðingu, óháð stærð og heilsu.“

Ásdís Inga Haraldsdóttir. Aðsend mynd.

Lífið snýst um meira en mat

Ásdís bendir á að þegar hún var sem léttust hafi hún stundað hvað óheilbrigðustu lífshættina.

„Ég djammaði mikið og borðaði lítið sem ekkert. Ég var meira að segja hrædd við krydd. En fólk hrósaði mér í hástert hægri, vinstri fyrir hvað ég væri nú búin að ná miklum árangri og hvað það væri flott hjá mér og meinti auðvitað vel. Svo stundaði ég ofát inni á milli og ældi síðan,“ segir hún.

„Í dag snýst líf mitt um svo margt annað en bara mat, hann er bara partur af lífinu. En matur átti líf mitt frá því ég vaknaði þar til ég fór að sofa hér áður fyrr. Ég þarf ekki að troða mig út af pitsu því ég má fá mér pitsu hvenær sem er, ég þarf ekki að borða heilan seríospakka því seríos er ekki bannað. Ég næri mig með því sem mér líður vel af og ég hreyfi mig af því ég hef alltaf elskað hreyfingu.“

Matur missir mátt sinn

Aðspurð hvort hún hafi ráð fyrir fólk sem hefur áhyggjur af desembermánuði og öllum matnum og sætindunum sem eiga það til að fylgja hátíðarhöldum svarar Ásdís:

„Ef maður hefur unnið grunnvinnuna, er ekki lengur fastur í „megrunar/ofát“ vítahringnum þá missir þessi matur mátt sinn. Matur er bara matur, sama í hvaða formi. Jólin fara að snúast um meira en bara matinn, þó maturinn sé vissulega mikilvægur líka því matur er partur af hefðum okkar. Mesti „triggerinn“ er þó þetta loforð sem maður gefur sjálfum sér um nýja „átakið“ í janúar, það kveikir undir því sem ég vil kalla „síðasta kvöldmáltíðin“ þar sem þú ert að njóta þess að borða allt og mjög mikið af því, því að bráðum er það bannað. Ég upplifi sjálf mikið þakklæti í kringum jólamatinn, að ég geti gefið börnunum mínum það sem þau óska sér og átt gleðileg áhyggjulaus jól því það er ekki sjálfgefið.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna