Dýrasta áskriftarleiðin kostar aðeins 1.700 krónur
Íslendingar geta nú fengið sér áskrift að streymiþjónustu Netflix án þess að fara krókaleiðir. 130 lönd bættust í dag við þjónustu Netflix, þar á meðal Ísland.
Sam-félagið, sem rekur meðal annars Sambíóin, stendur á bak við samningana að þjónustunni hér á landi. Vinsældir Netflix hafa farið vaxandi á undanförnum árum og hafa fjölmargir Íslendingar nýtt sér þjónustuna, en hafa þurft að fara til þess krókaleiðir.
Boðið er upp á þrjú verð á streymiþjónustunni. Ódýrasta áskriftin á mánuði kostar 7,99 evrur, sem jafngildir um 1.100 íslenskum krónum. Ekki er hægt að horfa á sjónvarpsefni í háskerpu í þeirri áskriftarleið og þá er aðeins hægt að horfa á einn skjá í einu. Næst ódýrasta áskriftin kostar 9,99 evrur, eða rúmar 1.400 krónur. Í þeirri áskrift er hægt að horfa á efni í háskerpu og á tveimur skjám í einu. Dýrasta áskriftin kostar 11,99 evrur, eða 1.700 krónur. Kjósi fólk að fara þá leið er hægt að horfa á efni í Ultra HD og horfa á efnið á fjórum skjám samtímis.
Engin takmörk eru fyrir því hversu mikið efni er hægt að horfa á. Netflix býður nýjum viðskiptavinum upp á fyrsta mánuðinn endurgjaldslaust.