Í Morgunblaði gærdagsins birtist pistill skrifaður af fyrrverandi ritstjóra blaðsins, Styrmi Gunnarssyni. Í pistlinum ræðir hann um andleg veikindi og minnist á færslu Egils Helgasonar, sem vakti athygli fyrr í seinustu viku, en þar ræðir Egill um kvíða.
Sjá Einnig:Egill Helgason segir síðasta ár hafa verið erfitt: Kvíðinn er helvítis melur
Styrmir segir að Egill hafi sýnt mikið hugrekki, en veltir fyrir sér hvort að andlegir erfiðleikar muni færast í aukanna á næstu dögum.
„Það þarf mikinn kjark hjá þekktum sjónvarpsmanni, sem hefur árum saman verið reglulegur gestur á skjánum heima hjá fólki, að opinbera líðan sína með þessum hætti og skýra þar með fjarveru sína af skjánum um skeið – en um leið beinir hann athyglinni að því sem reynslan hefur kennt okkur að eru, auk annars, eins konar aukaverkanir þjóðfélagslegra sviptinga af margvíslegum toga, þótt þær eigi sér í hans tilviki lengri sögu að því er fram kemur í samtali Egils við DV.
Við höfum reynslu af því frá hruninu að andlegar þjáningar virtust aukast hjá mörgum, ekki sízt þeim sem voru veikir fyrir. Þeir sem starfa á þeim vettvangi hafa gert sér grein fyrir að það mætti búast við endurtekningu á því vegna þeirra atburða sem við upplifum nú. Og nú hafa Sameinuðu þjóðirnar varað við því sama.
Á nokkrum síðustu vikum hafa gerzt alvarlegir atburðir í lífi fólks, sem ekki hefur verið sagt frá opinberlega (það á ekki að segja frá öllu opinberlega) en staðfesta þær áhyggjur.“
Styrmir telur að aðgerðum stjórnvalda er varða geðheilbrigðismál þurfi að fylgja betur eftir. Honum grunar að góð leið væru ákveðnar skipulagsbreytingar.
„Það skortir ekkert á opnar umræður um geðheilbrigðismál nú á tímum en staðan nú ætti að verða okkur hvatning til þess að gera þær umbætur á heilbrigðiskerfinu, sem tryggi sterkari miðstýringu á aðgerðum til þess að fylgja ákvörðunum stjórnvalda eftir.
Fyrir nokkrum árum var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um geðheilbrigðismál, þar sem þingið markaði skýra stefnu og setti upp eins konar verkefnalista á því sviði. Sumt af því hefur gengið vel, annað hefur farið hægar af stað en æskilegt er, eins og gengur. En kannski er það vegna þess að þeirri stefnumörkun hefðu þurft að fylgja einhverjar skipulagsbreytingar hjá framkvæmdavaldinu.“
Hann bendir á að mikið af fólki á landinu hafi gríðarlegan áhuga á geðheilbrigðismálum. Hann segir að mörg samtök hafi sprottið upp undanfarið sem að vinni flott starf í þágu málaflokksins.
„Þetta er málaflokkur af þeirri gerð að þeir sem stjórna framkvæmdinni þurfa að hafa brennandi áhuga á umbótum á þessu sviði, annaðhvort vegna eigin kynna af þessum vandamálum eða vegna náinna ættingja eða vina. Það er nóg til af fólki á Íslandi, sem hefur slíkan brennandi áhuga á geðheilbrigðismálum, eins og sjá má af þeim fjölmörgu samtökum sem sprottið hafa upp á því sviði og vinna merkilegt starf.
Og vegna þess að við vitum að búast má við vaxandi vandamálum af þessu tagi á næstu mánuðum er tímabært að stjórnvöld grípi til róttækra skipulagsbreytinga sem tryggi þá sterku miðstýringu sem að framan var nefnd, nú á næstu vikum og mánuðum, þannig að þær verði komnar til framkvæmda með haustinu.“
Styrmir talar um að andleg veikindi séu alls ekki eina vandamálið sem blasi við Íslendingum þessa daganna, en hann nefnir líka heimilisofbeldi og alkóhólisma.
„Þessum vandamálum tengjast önnur sem upp koma í daglegu lífi fólks, og þar er heimilisofbeldi sennilega efst á blaði. Það eru vísbendingar um það nú þegar að það sé að aukast.
Egill Helgason talar um „skömmina“ sem þessum þjáningum fylgir. Það er sú „skömm“ sem gerði það að verkum fyrr á tíð að í fjölskyldum var þagað um alkóhólisma. Það var sama „skömm“ sem gerði það að verkum að ekki mátti tala um geðveiki í fjölskyldum. Það er búið að hrekja hana á brott bæði vegna alkóhólisma og geðveiki en hún er enn til staðar vegna heimilisofbeldis og barnaníðs.
Nú er lag til að gera átak í þessum efnum, sem nær til margra þátta þessara mála, vegna þess að það er orðinn svo víðtækur skilningur í samfélaginu á því hversu mikilvægt það er. Þess vegna er tímabært að þau Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setjist niður og ræði sín í milli hvaða skipulagsbreytingar þurfi að gera til þess að tryggja markvissari og skjótari framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar Alþingis, og hvaða mál það eru sem hafa komið upp eftir að sú ályktun var gerð og bregðast þarf við.“
Styrmir telur afar mikilvægt að fólk sem hefur upplifað erfiðleikanna fái að taka þátt í að móta stefnur og vinna gegn þeim. Hann segir að Egill hafi sýnt frumkvæði hvað það varðar.
„Við erum sem samfélag komin nægilega langt á þroskaferli okkar í þessum málum til þess að skilja mikilvægi þess að þeir sem hafa kynnzt þessum vandamálum á eigin skinni komi við sögu þegar kemur að því að móta og framkvæma viðbrögð samfélagsins. Með frumkvæði sínu hefur Egill Helgason varpað skýru ljósi á þennan þátt málsins. Þeir sem þekkja vandann sjálfir eru bezt færir um að takast á við hann.“
Hann segir að nú sé öldin önnur. Áður fyrr hafi andleg veikindi líkt og kvíð verið kallaður aumingjaskapur. Styrmir segir að heimsfaraldurinn geti mögulega orðið til þess að samfélagið batni, það megi allavega sjá mikla samkennd í viðbrögðum fólks við færslu Egils.
„Þeir dagar eru liðnir að þunglyndi, hvort sem það er vægt eða djúpt, flokkist undir „aumingjaskap“, en það er orðið sem notað var í gamla daga um þann sjúkdóm.
Kórónuveiran er erfið viðureignar en hún getur leitt til betra samfélags í framtíðinni vegna þess að hún varpar kastljósi samtímans á veika punkta í samfélagsgerðinni, sem hafa ekki notið nægilegrar athygli.
Og með því að taka til hendi á því sviði getum við tryggt að þrátt fyrir allt leiði hún til einhvers góðs.
Það er ekki ólíklegt að sá kvíði sem Egill Helgason lýsir sem „helvítis mel“ nái í vægri mynd til stórs hluta þjóðarinnar, þegar horft er fram á veg.
Enda má finna í viðbrögðum fólks við færslu hans bæði skilning og samkennd“