fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
Fréttir

Ekki afsaka þig í atvinnuviðtali

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 17. maí 2020 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Edda Hermannsdóttir, hagfræðingur og yfirmaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, gaf nýverið út bókina Framkoma, þar sem farið er yfir ýmis hagnýt ráð varðandi framkomu.

Eftirfarandi grein birtist í helgarblaði DV sem kom út 8. maí síðastliðinn

„Þegar ég byrjaði í fjölmiðlum fór ég að taka saman punkta sem voru að gagnast mér vel og hef undanfarin ár þjálfað starfsfólk bankans í framkomu. Ég hef leitað í erlent efni um framkomu en fannst vanta efni á íslensku og að það væri til nokkurs konar handbók með ráðum og æfingum fyrir þá sem eru að koma fram.“

Hefði viljað æfa framkomuna

Edda er hagfræðingur að mennt en fékk snemma áhuga á fjölmiðlum. 25 ára gömul endaði hún sem spyrill í spurningakeppninni Gettu betur, án nokkurrar fjölmiðlareynslu. En þarna fékk hún fjölmiðlabakteríuna og eftir Gettu betur gerðist hún blaðamaður og síðar aðstoðarritstjóri á Viðskiptablaðinu áður en hún færði sig yfir til Íslandsbanka.

Lærð eða meðfædd?

Framkoma er oft talinn einn af þessum hæfileikum sem einstaklingar eru annaðhvort fæddir með eða ekki. Edda segir það ekki svo.

„Við gefum okkur oft að þetta sé meðfæddur hæfileiki og hugsum það þegar við fylgjumst með þjóðarleiðtogum eða öflugum fyrirlesurum flytja erindi af miklu öryggi. En þar að baki eru oftast stífar æfingar, en auðvitað verðum við betri því oftar sem við komum fram. Það er hins vegar vel hægt að þjálfa upp þessa hæfileika en það krefst tíma og vinnu. Ég myndi segja að rétt blanda af æfingum og réttum þankagangi komi manni lengst. Maður þarf alltaf að muna hvers vegna við erum að segja þessa sögu og hvað við viljum skilja eftir okkur.“

Styrkleikar í atvinnuumsókn

Atvinnuleysi og uppsagnir hafa verið áberandi í samfélaginu síðustu mánuði og því líklega fleiri Íslendingar en nokkru sinni áður í virkri atvinnuleit. Í bókinni fer Edda yfir ýmis hagnýt atriði hvað varða gerð ferilskráa og hvernig skuli bera sig að í atvinnuviðtali.

„Í bókinni er farið yfir mikilvægi þess að leggja áherslu á styrkleika okkar í atvinnuumsókn og við eigum að hugsa ferilskrá á þann hátt að hún gefi skýra mynd af því sem við erum góð í. Við þurfum auðvitað að vera heiðarleg en algeng mistök eru að byrja að afsaka okkur og segja frá því sem við erum ekki nógu góð í eða gætum verið betri í.“

Edda bendir á að einnig þurfi að aðlaga ferilskrá sína því starfi sem sótt er um, og ekki sé nauðsynlegt að tína til atriði sem hafi enga þýðingu fyrir starfið. „Það getur verið að sumarstarfið fyrir 15 árum eigi mögulega alls ekki neitt sérstaklega vel við þessa atvinnuumsókn.“

Ef allt gengur vel og umsækjandi kemst í atvinnuviðtal segir Edda að gott sé að vera búin að undirbúa sig vel. „Það er gott að vera búin að skrifa niður þá þætti sem við viljum koma að og passa að hafa það ekki nema nokkur atriði. Þá hjálpar mikið að taka sértæk dæmi þar sem þessir kostir hafa komið vel að notum og fara þá líka yfir það sem hefði betur mátt gera.

 

Gott tengslanet skiptir máli

Í bókinni er einnig fjallað um mikilvægi góðs tengslanets, sem getur skipt máli bæði í leik og starfi.

„Við Eva Laufey, systir mín og fjölmiðlakona, höfum oft gert grín að því að besta leiðin til að tengjast fólki sé bara að senda því tölvupóst og segjast vera systkini þess en þannig kynntumst við á unglingsárunum. En kannski er betra að leggja það ekki of mikið í vana sinn.“

Edda bendir á að í dag er auðveldara en nokkru sinni fyrr að byggja upp tengslanet. Það þarf bara að gefa sér tíma í það. „Það hafa líklega aldrei verið til jafn margir hópar og félagasamtök fyrir þá sem hafa áhuga á slíku. Það er líka gott að gefa sér tíma til að mæta á viðburði sem tengjast áhugasviði og fagi og reyna þar að hitta og kynnast fólki. Það þarf að passa að tala ekki aðeins við þá sem maður þekkir heldur vera móttækilegur fyrir nýjum samtölum. Það góða við Ísland er líka að það er auðvelt að nálgast flesta og ef maður hefur áhuga á einhverju verkefni eða viðfangsefni sem einhver er að fást við þá á maður ekki að hika við að senda tölvupóst eða reyna að tengjast þeirri manneskju.“

Það nægir þó ekki að mynda tengslin því þeim þarf að viðhalda líka. „Við þurfum síðan að gefa okkur tíma til að rækta tengslanetið og taka frá tíma í það. Einn morgunbolli fyrir vinnu og af til, hádegismatur eða hittast eftir vinnu. Ég myndi segja að rétt blanda af því að gefa sér tíma, sýna öðrum áhuga og vera forvitin, samhliða því að vilja styðja og efla fólk í kringum sig skili góðu tengslaneti.“

Framkoma sem saga

Eddu finnst mikilvægt að hugsa um framkomu sem nokkurs konar sögu. „Við erum alltaf að segja einhverja sögu og við viljum að fólk hlusti, eða muni eftir því sem við segjum. Þá skiptir miklu máli að búa yfir sannfæringarkrafti. Í dag er mikið offramboð af efni og því er krefjandi að ná athygli fólks og það skiptir gríðarlegu máli að koma efni frá okkur á hnitmiðaðan hátt. Við verðum líka alltaf að spyrja okkur hvers vegna þetta efni skipti máli, við hverja erum við að tala og hvers vegna skiptir það máli núna?“

Með því að spyrja sig þessara spurninga er svo hægt að koma skilaboðum sínum betur til þeirra sem hlusta. „Ráðið sem ég gef öllum sem koma fram er að ákveða fyrir fram hvaða 3-4 atriði skipta mestu máli. Við viljum oft segja frá svo ofboðslega mörgu og miklu en þegar við stígum á svið eða förum í fjölmiðlaviðtal til dæmis þá gleymum við aðalatriðunum. Einblínum alltaf á það sem skiptir mestu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Segir að ekkert muni koma út úr leiðtogafundinum í Alaska

Segir að ekkert muni koma út úr leiðtogafundinum í Alaska