Anna Kristjánsdóttir, yfirlýst stuðningskona núverandi forseta Guðna Th. Jóhannessonar birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni. Þar ræddi hún um skilaboð sem hún hefur verið að fá að undanförnu frá fólki sem virðist hafa það að markmiði að niðurlægja forsetann fyrir komandi forsetakosningar.
„Mér hafa borist nokkur skilaboð að undanförnu þar sem reynt er að hæðast að persónu forseta Íslands og niðurlægja hann á annan hátt. Vegna þessa lýsi ég því yfir að ég styð Guðna Th. Jóhannesson til áframhaldandi starfa sem forseti Íslands og er sú ákvörðun endanleg.“
Anna hvetur þá sem að senda henni þessi skilaboð til að unfrienda hana á Facebook, eða jafnvel blokka hana.
„Þeim ykkar sem teljið ykkur hafa einhverjar athugasemdir við þessa ákvörðun mína og viljið halda áfram að senda mér neikvæð skilaboð í garð Guðna bendi ég á að á forsíðumyndinni minni er flipi sem merktur er Friends eða Vinir. Ef þið smellið á þennan hnapp kemur upp nýr valmöguleiki þar sem neðst er hægt að velja Unfriend eða Enda vinskap. Með því að smella á þann möguleika losnið þið við mig. Þið getið svo bætt um betur með því að velja Settings (stillingar) og Blocking (Útilokanir) og þar losnið þið endanlega við bullið í mér.
En ég elska ykkur samt.
Svo er bara að vona að ræðismaður komi hingað til Tenerife svo hægt sé að greiða atkvæði utankjörstaðar í tæka tíð fyrir forsetakosningarnar 27. júní 2020.“
Svo virðist vera að þeir sem að senda Önnu umrædd skilaboð séu stuðningsmenn annars/annara frambjóðenda, sem Anna vill ekki nafngreina. Aðspurð sagðist Anna ekki vilja gefa upp nafn neinna forsetaframbjóðenda sem þetta fólk styður. Hún sagði að skilaboðin væru mörg, en vildi ekki tjá sig frekar um málið en gaf góðlátlegt leyfi fyrir því að fjallað yrði um færslu hennar.
Færslan vakti gríðarlega athygli, en hátt í 400 manns hafa lækað eða brugðist við henni. Af ummælunum sem finna má undir færslunni að dæma virðast flestir sína Önnu og Guðna stuðning.