Almenn innheimta er fyrirtæki sem sérhæfir sig í innheimtu smálána. Staðfest hefur verið að fyrirtækið braut innheimtulög. Úrskurðarnefnd lögmanna komst að þessari niðurstöðu í gær, fimm mánuðum eftir að kæra var send til nefndarinnar vegna vinnubragða Almennrar innheimtu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Neytendasamtökunum. Þar segir einnig að þrátt fyrir þetta sé engin leið til að stöðva innheimtuna. Segir að innheimta smálána sé eftirlitslaus. Í tilkynningunni segir meðal annars:
„Smálánafyrirtækin hafa komist upp með skipulagða brotastarfsemi hér á landi um langt árabil. Ein ástæðan er sú að innheimtufyrirtæki á þeirra vegum, Almenn innheimta, starfar án eftirlits og innheimtuleyfis. Nú hefur verið staðfest, í máli lántakanda sem fór fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, að Almenn innheimta hefur brotið innheimtulög. Engin leið er þó til þess að stöðva innheimtuna.
Svo undarlega sem það hljómar þá er hægt að stunda innheimtu án eftirlits á Íslandi og það hafa smálánafyrirtækin nýtt sér. Almenn innheimta virðist hafa þann eina starfa að innheimta smálán – í flestum tilfellum ólögmæt – fyrir smálánafyrirtækin. Þar sem fyrirtækið er í eigu lögmanns fellur það ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf ekki innheimtuleyfi. Um er að ræða undanþágu í innheimtulögum sem Neytendasamtökin fá ekki séð að hægt sé að réttlæta með nokkru móti.“
Neytendasamtökin staðhæfa að Almenn innheimta beiti ólöglegum aðferðum við innheimtu smálána:
„Neytendasamtökin hafa orðið þess vör í vinnu sinni fyrir neytendur að Almenn innheimta beitir ólöglegum aðferðum við innheimtu smálána. Fyrirtækið gengur hart fram í innheimtu á ólögmætum kröfum og það hefur einnig haldið lögbundnum upplýsingum frá lántökum. Lántakar hafa verið settir á vanskilaskrá þrátt fyrir að um óréttmætar kröfur sé að ræða og löginnheimta dregst svo mánuðum og árum skiptir með tilheyrandi kostnaði fyrir lántakendur.
Ekkert eftirlit er með starfseminni eins og áður segir og ekki virðist hægt að stöðva hana þótt augljóst sé að hún standist ekki lög. Eina leiðin er að einstaklingur sem telur á sér brotið sendi kæru fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og kvarti undan eiganda stofunnar persónulega. Í gær lá niðurstaða nefndarinnar fyrir í slíku máli, rúmum fimm mánuðum eftir að kæran var send.“
Neytendasamtökin fullyrða að Almenn innheimta komist hjá eftirliti Fjármálaeftirlitsins þar sem eigandinn sé lögfræðingur og starfsemin flokkist því ekki sem starfsemi fjármálafyrirtækisins. Því séu neytendur varnarlausir gagnvart ólöglegri innheimtu.