„Það var ein af okkar aðalkröfum að tryggja rétt til atvinnuleysisbóta og við hörmum að það sé ekki ein af aðgerðunum sem voru kynntar í dag,“ segir Sigrún Jónsdóttir, forseti Landsamtaka íslenskra stúdenta, í viðtali við DV.
Menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra kynntu í dag aðgerðir til atvinnusköpunar og sumarnáms fyrir námsmenn í sumar. Verulegum fjárhæðum verður varið til þessara verkefna en ekki verða greiddar atvinnuleysisbætur til stúdenta.
Sjá einnig: Ríkisstjórnin leggur 800 milljónir í sumarstörf
„Hluti af þessum aðgerðum er sköpun sumarstarfa og þetta verða alls um 3.400 sumarstörf. Það er í takt við kröfur stúdenta þar sem við höfum verið að krefjast sköpunar sumarstarfa samhliða rétti til atvinnuleysisbóta. Sköpun sumarstarfa er mikilvæg aðgerð en spurningin er hvort hún nægi,“ segir Sigrún sem er sátt við margt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar fyrir námsmenn. Hún er einnig ánægð með framlag sveitarfélaganna:
„Hluti af sumarstörfum er auglýstur fyrir 18 ára og eldri en sveitarfélögin eru að koma sterk inn sem er mjög jákvætt.“
Sigrún bendir á að námsmenn hafi lagt verulega til Atvinnuleysistryggingasjóðs með vinnuframlagi sínu:
„87% stúdenta vinna með námi að sumri til og 70% samhliða námi yfir veturinn. Hluti af launum þeirra rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð en samt eiga þeir engan rétt til sjóðsins,“ segir Sigrún og er mjög ósátt við þennan hluta málsins:
„Við erum verulega ósátt við það og það hefði þurft að grípa til þeirra aðgerða strax. Ríkisstjórnin segir að atvinnuleysisbætur til stúdenta væru neyðraúrræði og spurningin er þá hvenær rennur upp tími neyðaraðgerða ef hann er ekki kominn núna.“