Að minnsta kosti fimm sjúklingar hans létust eftir að hafa tekið of stóran skammt af ópíóðalyfjum á tímabilinu mars 2015 til janúar 2016. Á sama tíma þurftu sex á aðhlynningu að halda eftir að hafa tekið of stóran skammt. Darrell þessi á 20 ára fangelsi yfir höfði sér og sekt sem nemur einni milljón dala, rúmum hundrað milljónum króna.
Darrell rak læknastofu í Columbia í Tennessee en það var fyrir tilstilli rannsóknarblaðamanna The Tennessean og The Indianapolis Star að upp komst um athæfi læknisins.
Einn þeirra sem lést var Matthew Blackburn, 27 ára faðir, sem glímt hafði við kvíða. Hann tók Zoloft og Xanax af þeim sökum. Þó að Matthew hefði sýnt merki þess að misnota lyfin þrefaldaði Darrell skammtinn hans skömmu áður en hann lést. Matthew lést þann 5. mars 2015 en krufning leiddi í ljós að hann hafði tekið morfín, oxycodone, Xanax, Zoloft og Valium áður en hann lést.
Annar sjúklingur, Ashley Marie Martin, 29 ára, fékk ávísað 30 millígrömmum af oxycodone þrisvar á dag vegna bakverkja. Það jafngildir 135 milligrömmum af morfíni sem er mun meira magn en bandarísk heilbrigðisyfirvöld mæla með. Þriðji sjúklingurinn, Ramona Diana Gill, fékk morfín og oxycodone vegna bakverkja, þó Darrell hefði aldrei framkvæmt neina skoðun á henni eða sent hana í myndatöku til að finna ástæðu verkjanna.
Alls hafa 32 læknar í Tennessee verið ákærðir á undanförnum misserum fyrir að ávísa of miklu magni af ópíóíðalyfjum.