fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Ritdómur um Tími til að tengja: Köflóttar jólasögur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 21. október 2019 14:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Hafþór Helgason: Tími til að tengja

Smásögur

173 bls.

Útgefandi: Veröld

 

Bjarni Hafþór Helgason er mætur maður, hæfileikaríkur og fjölhæfur. Hann var líflegur sjónvarpsfréttamaður um árabil og hefur samið fjölmörg sönglöng og nýlega gefið út heildarsafn þeirra, svo fátt sé nefnt. Bjarni er ritfær og þess sér stað í nýju smásagnasafni hans, Tími til að tengja. Því miður eru hins vegar of margar brotalamir í verkinu til heildarupplifun af því sé mjög góð. Þar er annaðhvort um að kenna slæmri ritstjórn eða vondum smekk þess er hér ritar.

Allra fyrstu kynni mín af bókinni voru sérlega slæm en fyrir tilviljun las ég síðusu söguna fyrst. Síðan byrjaði ég á fyrstu sögunni. Þetta eru stystu verk bókarinnar og báðar sögurnar enda í gróteskum hryllingi. Slík efnistök eiga sér langa hefð í smásagnagerð enda hentar hið knappa form smásögunnar vel til að miðla hinu frumstæða í manninum með óvæntum og sjokkerandi hætti. En hérna skýst gróteskan hins vegar fram eins og skrattinn úr sauðaleggnum í lokasetningu sagnanna og í engu samræmi við stemninguna sem hefur verið byggð upp að framan. Lokasetningin í báðum sögum virkar eins og misheppnaður brandari höfundar sem nennti ekki að halda áfram með söguna sína (þó að eflaust hafi það ekki verið þannig í raun).

Í viðtali við höfund hefur komið fram að báðar þessar sögur skrifaði hann á menntaskólaárum. Hvers vegna hafði hann þær með í safninu? Hvers vegna gerðu ritstjórar forlagsins ekki athugasemd við það val? Hvarflaði ekki að höfundi að sögur sem hann skrifaði á unglingsaldri væru kannski ekki nógu góðar í smásagnasafn sem hann gefur út á miðjum aldri?

Önnur verk bókarinnar eru misjöfn, sum góð. Margar sagnanna einkennast af hugmyndaflugi sem er grínakugt en oft vantar eitthvað upp á til að verkið sé eitthvað meira en brandari og það ekkert sérstakur. Til dæmis ýmsar pælingar og brandarar tengdir rafmagni. Hvað segir sagan Millistykki okkur meira en þá fyndni en að maður festist með hendurnar á lofti eftir raflost? Sagan Stefnuljós er alvarleg, en þó skopleg pæling um árátturöskun en nær ekki til mín, hugmyndin einhvern veginn of sérviskuleg og erfitt að tengja við hana.

Besta sagan að mínu mati er Lifandi jólaskraut. Frábær hugmynd og stórkostlegt grín að ofmetnaði og mannjöfnuði sumra þegar kemur að jólaskreytingunum. Í þessari sögu birtist gróteskan á miklu fágaðri og ísmeygilegri hátt en í örsögunun tveimur sem ég lastaði hér að framan – í sérstæðu sambandi pólsks jólasveins og hreindýrs.

Sagan Aðventuleikurinn er bráðskemmtileg gamansaga um árlegan knattspyrnuleik sveitamanna fyrir mörgum áratugum. Hér tekst Bjarna vel upp í lýsingu á mörgum spaugilegum karakterum og sumir þeirra lifna á síðunum, verða meira en bara fyndir kækir og tilsvör.

Sagan Jólaleikritið er önnur vel heppnuð gamansaga með svipuðum brag og Aðventuleikurinn nema að þar er viðfangsefnið leiksýning en ekki knattspyrnuleikur. Sérvitrtir þorpsbúar eru hér sýndir í spaugilegu og skemmtilegu ljósi.

Allar sögurnar í bókinni gerast í kringum jól eða áramót. Þó að höfundur hafi lýst því yfir að margar sögurnar hafi ekkert með jólahátíðina að gera vildi hann setja bókinni þennan ramma. Jólapælingar koma þó víða við sögu. Sumar þykja mér nokkuð lúnar. Þó að jólavenjur Íslendinga hafi lítið breyst undanfarin ár, jólaskreytingar haldi áfram að lýsa upp skammdegið og mikið sé að gera í verslunum fyrir jólin þá held ég að þjóðin sé ekki lengur með jólin á heilanum og við séum farin að líkjast öðrum þjóðum hvað það varðar að setja ekki allt á annan endann hjá okkur yfir jólin. Sumir nenna jafnvel ekki veseninu lengur og skreppa til Kanarí eða Tenerife á meðan æðið gengur yfir. Sífellt færri hafa áhuga á velta sér upp úr gatslitnum pælingum um tilgang og inntak jólahátíðarinnar. Mér þykir þetta ekki spennandi þema í skáldverki en það er smekksatriði.

Jólaumgerð safnsins virkar ekki sannfærandi á mig. Ég sé ekki tilganginn með henni. Í stað þess gefa verkinu heildarblæ lætur hún sögurnar verða dálítið endurtekningarsamar – þó að þær séu jafnframt nokkuð fjölbreyttar.

Það eru fínir sprettir í þessu smásagnasafni. Bókin hefði hins vegar orðið betri ef slökustu sögurnar hefðu verið teknar út og aðrar skrifaðar í staðinn. Nokkrar sögur eru stórfínar, eins og áður sagði, aðrar slarkfærar. Höfundur hefur prýðilegt hugmyndaflug, góða máltillfinningu og hefur augljóslega gaman af að velta fyrir sér skrýtnum hliðum tilverunnar. Úr þessu hráefni tekst honum misjafnlega upp við að hræra saman sögur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda