Gríðarlega mikilvægt er að hleðsla rafbíla sé rétt framkvæmd en svo virðist vera sem hún vefjist fyrir mörgum. Eldur sem kom upp í tveimur rafmagnsbílum og olli því að þeir eru gjörónýtir orsakaðist af því að venjuleg framlengingarsnúra var notuð við hleðslu bílanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem VÍS hefur sent frá sér, en í henni kemur fram að félaginu hafi borist margar ábendingar um þetta. Mikilvægt er að hlaða bílana á réttan hátt til að koma í veg fyrir bruna í bílnum eða því húsnæði sem raflögnin kemur fram.
Í tilkynningunni segir að hefðbundin framlengingarsnúra þoli ekki það mikla álag sem verður þegar bíll er hlaðinn og hitnar gríðarlega. Það getur endað með eldsvoða.
„Svo virðist sem nokkuð algengt sé að bílar séu hlaðnir með óöruggum hætti. Að tenglar, lagnir og öryggi í rafmagnstöflu séu ekki gerð fyrir álagið sem fylgir hleðslunni og venjulegar framlengingarsnúrur notaðar þegar hleðslusnúran sjálf er ekki nægjanlega löng. Það er mjög varasamt, sérstaklega ef framlengingarsnúrum er rúllað upp að hluta en það eykur hættuna á bruna til muna,“ segir í tilkynningu VÍS.
Þá segir að rúmlega fimmtungur nýskráðra bíla á þessu ári sé með rafhleðslutengli, en alls eru 9.400 slíkir bílar hér á landi. „Gríðarlega mikilvægt er að rétt sé staðið að hleðslu til að koma í veg fyrir bruna. Sama hvort er á heimilum, vinnustöðum, við sumarhús eða annars staðar og hvetur VÍS alla til að gæta vel að þeim málum,“ segir í tilkynningunni en í henni fylgja nokkur góð ráð sem má lesa hér að neðan.