fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Þórlaugur hefði ekki átt að deyja: „Réð ekkert við sjálfsvígshugsanirnar“

Kerfið brást – Sonur Elvu Rósu Helgadóttur svipti sig lífi 22. desember 2015, aðeins 18 ára gamall – Lýsti því fyrir lækni hvernig hann ætlaði að binda endi á líf sitt. – 28 dögum síðar var Þórlaugur látinn

Kristín Clausen
Föstudaginn 6. janúar 2017 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er gríðarlega stórt skref fyrir unglinga að viðurkenna vandamálið og leita sér aðstoðar. Það er því töluvert meira högg fyrir þá að koma að luktum dyrum heilbrigðiskerfisins.“ Þetta segir Elva Rósa Helgadóttir, móðir 18 ára drengs sem svipti sig lífi 22. desember 2015. Drengurinn hét Þórlaugur Ragnar Ólafsson og hafði glímt við alvarlegt þunglyndi og kvíða sem stigmagnaðist mánuðina áður en honum tókst ætlunarverkið – að fremja sjálfsvíg með því að keyra framan á trukk.

Ekki metinn í bráðri hættu

Tæpum fjórum vikum áður, þann 24. nóvember 2015, beið Þórlaugur í fimm og hálfa klukkustund á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri með það fyrir augum að leita sér aðstoðar vegna sjálfsvígshugsana. Hluta af bráðamóttökuskrá Þórlaugs frá umræddum degi má sjá á mynd.

Þegar Þórlaugur komst loks að og sagði vakthafandi lækni frá því hversu illa honum liði og að hann hefði ítrekað gælt við þá hugmynd að binda endi á líf sitt með því að keyra framan á trukk var hann ekki metinn í bráðri sjálfsvígshættu. Því var honum ekki boðin innlögn, viðtal við geðlækni eða pláss í svokölluðum HAM (hugræn atferlismeðferð) hópi.

Finnst kerfið hafa brugðist syni sínum .
Elva Rósa Helgadóttir Finnst kerfið hafa brugðist syni sínum .

Mynd: Guðrún Þórsdóttir

Þess í stað var Þórlaugur, sem var ekki endilega á því sjálfur að leggjast inn, sendur heim með þunglyndislyf og skilaboð um að sanka að sér upplýsingum um HAM á netinu. Þremur dögum síðar gerði Þórlaugur fyrstu tilraunina til að binda endi á líf sitt. 25 dögum síðar var hann látinn.

Góðhjartað ljúfmenni

Elva Rósa vill með frásögn sinni benda á það sem hún telur stóran galla í geðheilbrigðiskerfinu. Það er að sjálfsvígshugsanir sonar hennar hafi ekki verið teknar nógu alvarlega. Hún hefði viljað að Þórlaugur hefði verið lagður inn á geðdeild og honum veitt viðeigandi aðstoð þegar hann sjálfur óskaði eftir henni þar sem hann var orðinn hræddur við eigin hugsanir.

Hún segir son sinn alla tíð hafa verið hlýjan og brosmildan. Hann æfði handbolta með KA en fjölskyldan er búsett á Akureyri. Þórlaugur var enn á leikskólaaldri þegar hann bað afa sinn í fyrsta skiptið um að fara með sér í blómabúð á konudaginn þar sem hann ætlaði að kaupa rósir handa ömmu sinni, mér og frænkum sínum. Þetta lýsir honum svo vel,“

ásamt móður sinni, uppeldisföður og litla bróður sínum
Þórlaugur ásamt móður sinni, uppeldisföður og litla bróður sínum

Mynd: Úr einkasafni

segir Elva um son sinn og bætir við að Þórlaugur hafi verið góðhjartað ljúfmenni sem vildi allt fyrir alla gera. Eftir að Þórlaugur útskrifaðist úr grunnskóla vorið 2013 byrjaði móðir hans fyrst að taka eftir því að hann væri ekki alveg eins og hann átti að sér.

„Á þessu tímabili byrjaði mig að gruna að það blundaði þunglyndi í honum. Þórlaugur fór í Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) á meðan vinir hans fóru í Menntaskólann á Akureyri. Ég tók eftir því að í stað þess að hitta þá eftir skóla kom hann heim og lokaði sig inni í herbergi.“ Elva gekk á hann og spurði ítrekað hvort honum liði illa og grátbað hann um að tala við sig. Þórlaugur kaus hins vegar að ræða ekki um líðan sína og svaraði alltaf með þeim orðum að það væri ekkert að sér.

Kerfið brást ekki Þórlaugi

Erfitt að spá fyrir um sjálfsvíg ungmenna

„Ég get ekki tekið undir það að kerfið hafi brugðist Þórlaugi.“ Þetta segir Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Helgi hafði sjálfur ekki beina aðkomu að málinu en segir að almennt geti verið erfitt að spá fyrir um sjálfsvíg ungmenna. Helgi bendir á að Þórlaugi hafi verið vísað áfram til heimilislæknis og ráðlagt að leita til sálfræðings. Þá var hann settur á þunglyndislyf. Hann telur því að læknar sjúkrahússins hafi gert viðeigandi bráðamat þrátt fyrir að mál Þórlaugs hafi fengið svo hörmulegan endi.

Tilfinningalegur óstöðugleiki

„Oftast þegar ungt fólk hugsar um að svipta sig lífi er það gert í hvatvísi sem er augnabliksástand sem enginn læknir getur séð fyrir.“ Inntur svara við því hvort það hafi ekki komið óþægilega við læknana eftir að Þórlaugur svipti sig lífi á nákvæmlega sama hátt og hann sagði í viðtali tæpum fjórum vikum áður, og var ekki metinn nógu veikur til að fá innlögn eða aðra meðferð á sjúkrahúsinu, svarar Helgi: „Það sem einkennir oft geðræn vandamál ungs fólks er tilfinningalegur óstöðugleiki. Það þyrmir yfir í ákveðinn tíma og svo gengur það til baka aftur. Það er mjög algengt hjá þessum hópi að vera með sjálfsvígs- og dauðahugsanir. Það er allt annað mál að vera í sjálfsvígshættu.“ Helgi bætir við: „Sárafáir láta af þessu verða. Það er að segja reyna fyrir alvöru að svipta sig lífi. Þá getur verið erfitt að greina á milli þeirra sem raunverulega eru í sjálfsvígshættu og þeirra sem eru með sjálfsvígshugsanir. Það er vandmeðfarið og mikil kúnst að meta hverjir þurfa nauðsynlega á aðstoðinni að halda.“

Metið út frá heildinni

Helgi bendir jafnframt á að læknar sem sinna bráðaþjónustu geti aldrei vitað alla sögu sjúklinga sinna. „Maður metur út frá heildinni og því hvernig normið er.“ Hann segir enn fremur að í geðlækningum gildi meðalhófsreglan. Það er að grípa ekki meira inn í en ástæður gefa tilefni til. „Stærsta inngripið í geðlækningum er innlögn. Hundruð sjúklinga koma til okkar á hverju ári og tala um sjálfsvígshugsanir. Við gætum aldrei lagt alla sem tilheyra þessum hópi inn á sjúkrahús. Það segir sig sjálft.“

Gríðarleg vanlíðan

Í mars 2014, á vorönn fyrsta árs Þórlaugs í VMA, fóru framhaldsskólakennarar í verkfall. Í framhaldinu flosnaði hann upp úr skóla og ákvað að taka sér pásu frá námi. Þórlaugur fékk vinnu í Bónus og að sögn Elvu virtist hann mjög ánægður þar. Þórlaugur eignaðist kærustu og eyddi öllum sínum tíma með henni. Þau voru búin að vera saman í rúmt ár þegar Þórlaugur lést.

Haustið 2015 tók hún þó eftir því að Þórlaugur var orðinn leiður á vinnunni og hafði ætlað sér að byrja aftur í VMA eftir áramótin 2015/2016. Á þessum tíma var hann sömuleiðis alfarið búinn að loka á vini sína og var miður sín þegar kærastan hans vildi hitta sína vini. „Honum var farið að líða mjög illa. Það sást langar leiðir. Ég fann alveg að það var eitthvað mikið að. Eins tók ég stundum eftir því að hann hafði verið að gráta. Ég hefði kannski átt að ganga harðar á hann.“

Tíðar sjálfsvígshugsanir

Síðla kvölds í nóvember 2015 ákvað Þórlaugur að opna sig og segja sínum nánustu frá því hversu illa sér liði. Hann sagði móður sinni og ömmu hversu langt niðri hann var andlega og sagðist ekkert ráða við sjálfsvígshugsanir, kvíða og þunglyndið sem var búið að yfirtaka allt líf hans.

„Þórlaugur trúði ömmu sinni fyrir því að hann réði ekkert við sjálfsvígshugsanirnar. Þær kæmu bara allt í einu og hann ætti mjög erfitt með að bæla þær niður. Þá hafði hann sjálfur enga hugmynd um hvernig hann ætti að komast út úr þessari miklu vanlíðan sem mótaði tilveru hans allan þennan tíma.“

Elva segir að það hafi verið mikill léttir þegar hann opnaði sig loksins og hún hafi gert ráð fyrir því að hann fengi í framhaldinu viðeigandi læknisaðstoð til að koma lífi sínu í réttan farveg. En svo var ekki. Þá segist Elva hafa hvatt Þórlaug til að hafa samband við bestu vini sína og segja þeim hvernig staðan væri því það væri mikilvægt að eiga góða að við svona erfiðar aðstæður. Hann gerði það ekki.

„Eftir að Þórlaugur dó og við sögðum vinum hans frá veikindum þá komu þeir alveg af fjöllum þar sem hann virtist alltaf svo hress og kátur þegar þeir hittu hann. Það er algengt hjá fólki sem glímir við andleg veikindi þar sem það sést ekki alltaf utan á manni hvernig manni raunverulega líður.“

Upplifði mikla höfnun

Eftir að Þórlaugur játaði fyrir móður sinni og ömmu hvernig honum leið var hann sammála þeim um að hann þyrfti á utanaðkomandi aðstoð að halda. Það tók þær þó nokkra daga að sannfæra Þórlaug um að fara á bráðamóttökuna til að hitta lækni.

Þar beið Þórlaugur í fimm og hálfa klukkustund eftir læknisaðstoð. „Það er algjörlega fáránlegt að svona veikur einstaklingur sé látinn bíða svona lengi. Ef hann hefði verið með verk fyrir hjarta þá hefði hann verið tekinn strax inn. Ef hann hefði verið með krabbamein hefði allt verið gert til að hjálpa honum. En af því að hann var unglingur með sjálfsvígshugsanir þá var hann ekki metinn nægilega veikur til að fá viðeigandi aðstoð.“

Dagsett 24. nóvember 2015
Bráðamóttökuskrá Þórlaugs Dagsett 24. nóvember 2015

Mynd: Úr einkasafni

Elva segir að Þórlaugur hafi upplifað mikla höfnun eftir viðtalið sem hann fékk við unglækni. Þórlaugur var leystur út úr viðtalinu með uppáskrifuð þunglyndislyf frá geðlækni sem hann fékk þó aldrei að hitta augliti til auglits. Geðlæknir skrifaði upp á lyfin fyrir unglækninn og setti nafn sitt við bráðamóttökuskrána án þess þó að hitta Þórlaug.

Fyrsta sjálfsvígstilraunin

Nokkrum dögum eftir viðtalið reyndi Þórlaugur að svipta sig lífi. Í sjálfsvígsbréfi sem hann skrifaði til kærustunnar sinnar þann 27. nóvember sagðist hann ætla að keyra upp á Öxnadalsheiði og bíða eftir því að stór vöruflutningabíll kæmi keyrandi. Þá ætlaði hann að svipta sig lífi með því að keyra beint framan á hann.

Fyrir tilviljun fann kærasta Þórlaugs bréfið og hringdi á lögregluna áður en honum tókst ætlunarverkið. „Maðurinn minn er líka lögreglumaður og það var hringt í hann. Þeir létu staðsetja símann hans og fóru strax af stað að leita að honum. Maðurinn minn kom svo með Þórlaug heim,“ segir Elva.

Við tóku erfiðar samræður við Þórlaug um alvarleika málsins og fjölskyldan grátbað hann um að fara aftur til læknis og biðja um aðstoð. „Daginn eftir samþykkti hann loks að koma með okkur upp á bráðamóttöku. Hann var mjög ragur að koma sér af stað þar sem hann nennti ekki að bíða í marga klukkutíma og svo yrði ekkert gert.“

Hann lét þó til leiðast og fór ásamt móður sinni og stjúpföður á bráðamóttökuna þar sem vaktlæknir var kallaður til fundar við þau. „Læknirinn bað hann um að finna öryggisorð. Eitthvert orð sem hann ætti að senda okkur eða hringja og segja ef honum myndi aftur líða svona illa. Þá bað læknirinn hann um að gera þetta ekki aftur. Síðan fórum við heim.“

Aðspurð af hverju Þórlaugur hafi ekki verið lagður inn eftir þetta segir Elva: „Ég veit það ekki. Þetta var ekki talið nógu alvarlegt. Hann var ekki með neina áverka og það var enginn skaði skeður. Það sést á fólki ef það tekur inn lyf. Kannski er það ekki talið nógu alvarlegt að ætla að keyra framan á bíl.“

Kom að lokuðum dyrum

Í framhaldinu fann Elva sálfræðing fyrir Þórlaug. Eftir tvo tíma sagðist Þórlaugur ekki vilja fara lengur. „Hann sagðist ekkert hafa að gera þangað þar sem sálfræðiaðstoðin væri ekki að virka. Það stóð líka í honum hvað þetta var dýrt. Þess vegna vildi hann eiginlega ekki fara. Ég sagði honum ekki að hafa áhyggjur af því. Við myndum borga sálfræðinginn.“

Þá harðneitaði Þórlaugur að prófa annan sálfræðing. „Hann sagði bara nei, nei og að hann vildi það ekki. Mig grunar að þarna hafi hann hreinlega verið búinn að gefast upp.“

Desembermánuður reyndist Þórlaugi og hans nánustu gríðarlega erfiður. „Hann var búinn að leita sér hjálpar en fannst það ekkert gera fyrir sig. Þórlaugur sá einfaldlega enga leið út úr þessu. Hann vildi ekki lifa svona. Honum fannst hann líka vera svo mikil byrði á kærustunni og að það hlyti að vera hræðilegt fyrir hana að hafa hann svona veikan. Kvöldið áður en hann dó sagði hann við mig að eina leiðin fyrir hana til að losna við hann væri ef hann myndi deyja.“

Þá segir Elva að hún hafi reynt að telja hann ofan af því að fremja sjálfsvíg með því að keyra framan á annan bíl. Hann væri ekki eingöngu að stofna sínu lífi í hættu heldur einnig lífi fólksins í hinni bifreiðinni. Hann kvaðst skilja það en samt gerði hann það ekki.

„Þórlaugur var auðvitað bara nýorðinn 18 ára og því ekki mjög lífsreyndur.“ Hann einfaldlega gat ekki tekist á við svona stórt verkefni einsamall. Þetta kvöld bað Elva son sinn ítrekað um að koma með sér upp á sjúkrahús. Þórlaugur tók það ekki í mál þar sem hann fengi hvort eð er enga aðstoð.

22. desember 2015

Klukkan korter í fjögur síðdegis þann 22. desember 2015 hringdi Elva í Þórlaug. Hún var í klippingu en þau ætluðu í framhaldinu að hittast og kaupa jólagjafir. „Hann hljómaði ekkert öðruvísi í þessu símtali. Ég man samt að þegar hann kvaddi mig þá hljómaði orðið bless mjög langdregið. Eins og það hafi verið erfitt fyrir hann að segja það.“

5. nóvember 1997 - 22. desember 2015
Þórlaugur Ragnar 5. nóvember 1997 – 22. desember 2015

Korteri síðar, eða um klukkan fjögur, keyrði Þórlaugur framan á stóran flutningabíl á Þjóðvegi 1 norðan við Akureyri. Þórlaugur, sem var ekki í belti, lést samstundis. Tveir farþegar voru í flutningabílnum auk bílstjórans. Engan sakaði líkamlega. Þau voru hins vegar niðurbrotin andlega eftir áreksturinn.

Elva var nýbúin í klippingu þegar maðurinn hennar kom rúmlega fjögur að sækja hana á hárgreiðslustofuna.

„Hann sagði við mig að við þyrftum að fara strax upp á sjúkrahús. Þórlaugur hefði látið verða af þessu. Örvæntingin yfirtók alla skynsemi og við brunuðum af stað. Þegar við komum inn á slysadeildina var okkur samstundis vísað inn í aðstandendaherbergi. Það fyrsta sem ég sá var prestur og þá vissi ég að Þórlaugur væri dáinn. Ég gat ekkert gert nema að öskra, aftur og aftur – af hverju var honum ekki hjálpað?“

Þarna var Elva ekki að vísa til afleiðinga árekstursins heldur þess að Þórlaugur fékk ekki viðeigandi aðstoð þegar hann leitaði sér aðstoðar vegna andlegra veikinda sinna.

Ónærgætinn fréttaflutningur og kjaftasögur

Elva treysti sér fyrst til að fara á slysstaðinn fimm dögum síðar eða þann 27. desember 2015. Þá settu þau niður kross, lögðu kerti og kort á staðinn þar sem áreksturinn varð. Þá treysti Elva sér ekki til að sjá bílinn eftir áreksturinn en systir hennar sem og fleiri nánir vinir Þórlaugs og ættingjar sáu bílinn óvænt í fréttunum sama kvöld og Þórlaugur lést.

„Fréttin var einnig komin inn á einhverja netmiðla með myndum af slysstað skömmu eftir að slysið varð. Númerið sást ekki á bílnum en margir þekktu samt bílinn hans Þórlaugs. Þess vegna fréttu margir þetta á mjög slæman hátt.“

var ný orðinn 18 ára þegar hann lést
Þórlaugur Ragnar var ný orðinn 18 ára þegar hann lést

Þá fóru af stað margar ljótar kjaftasögur eftir dauða Þórlaugs. „Hann átti að hafa verið fullur, dópaður eða í símanum. Hann var ekki undir áhrifum og síminn var í vasanum á gallabuxunum hans þegar Þórlaugur fannst. Lögreglan staðfesti það. Þá vill móðir hans koma því skýrt á framfæri að Þórlaugur hvorki reykti, drakk áfengi né notaði fíkniefni.“

Þá segir Elva að það sé ekki ljóst hvort Þórlaugur hafi keyrt framan á bílinn af ásettu ráði eða hvort um raunverulegt slys hafi verið að ræða. „Við fáum aldrei að vita það. En miðað við það sem á undan gekk þá gerum við ráð fyrir því að Þórlaugur hafi svipt sig lífi með þessum hætti.“

Ekki sjálfselska

Elva segir að fyrsta hálfa árið eftir andlát Þórlaugs hafi hún flotið áfram í hálfgerðri móðu. Fleiri áföll skullu á fjölskyldunni í sumar og í haust og hún segir að það sé fyrst núna sem hún sé almennilega að átta sig á því að Þórlaugur sé dáinn og komi ekki aftur.

Alltaf jafn erfitt að heimsækja leiðið hans
Fjölskyldan minnist Þórlaugs Alltaf jafn erfitt að heimsækja leiðið hans

Mynd: Úr einkasafni

Fjölskyldan fékk fund með geðlæknunum á sjúkrahúsi Akureyrar í sumar þar sem hún hafði óskað eftir svörum frá þeim varðandi vinnulag sem og afriti af sjúkraskýrslum Þórlaugs. „Við hittum læknana tvisvar. Ég hef aldrei skilið og skil ekki enn hvernig þeir gátu metið ástand hans eftir að hafa einungis hitt hann í eitt skipti. Manneskja getur ekki ausið öllu út úr sér á klukkutíma,“ segir Elva og bætir við:

„Drengurinn minn leitaði sér hjálpar. Hann fékk ekki einu sinni að hitta geðlækninn sem ávísaði samt á hann lyfjum. Læknarnir segja að það sé viðtekin venja hjá öllum sérfræðilæknum. Kerfið brást Þórlaugi, það er engin spurning.“

Þá gagnrýnir Elva einnig orð læknanna sem sögðu henni að þunglyndi hjá fullorðnum einstaklingum og unglingum væri mjög ólíkt. Hjá unglingum kæmi það og færi en ástandið væri meira viðvarandi hjá fullorðnu fólki. Þess vegna væri erfiðara að bregðast við þegar unglingar ættu í hlut.

Elva bendir á að líkt og Þórlaugur lýsti sjálfur þá átti hann erfitt með að bæla sjálfsvígshugsanirnar niður og segir að þær minni á stundarbrjálæði. „Það að binda endi á eigið líf er neyðarúrræði. Ekki sjálfselska.“

Elva vill að lokum, fyrir hönd fjölskyldunnar, þakka öllum þeim sem sáu sér fært að styðja við bakið á þeim veraldlega og andlega. Þá vill hún beina orðum sínum til unglinga sem finna fyrir depurð, kvíða og eða þunglyndi.

„Ekki halda því inni þegar ykkur líður illa. Talið við fólkið ykkar. Það er alltof mikið í húfi. Þetta er það sem Þórlaugur minn gerði aldrei. Eða gerði ekki fyrr en það var orðið of seint.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir