fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
Eyjan

Hið ævintýralega líf Michels Legrand

Egill Helgason
Laugardaginn 26. janúar 2019 16:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir löngu síðan, þegar ég var í Frakklandi, sá ég í sjónvarpi mann sem ég hafði ekki þekkt áður. Hann var í viðtali í skemmtiþætti, virkaði svona bráðskemmtilegur og sjarmerandi, settist svo við slaghörpu, spilaði og söng með nokkuð rámri röddu syrpu af lögum kvikmynd sem hann hafði samið.

Ég var gjörsamlega heillaður. Maðurinn var Michel Legrand og kvikmyndin var Les Parapluies de Cherbourg (Regnhlífarnar í Cherbourg). Þetta er sungin kvikmynd, í ótrúlega fallegum litum, gerð af Jacques Demy 1964 – aðalleikonan ung Catherine Deneuve. Glæsitími í franskri kvikmyndagerð. Hér er frægt lag úr myndinni.

 

 

Sjónvarpsútsendingin sem ég sá var mörgum árum síðar, þetta hefur verið svona um miðjan níunda áratuginn. Það duldist ekki hvað Legrand naut mikillar aðdáunar. Ég fór að kynna mér hann og alla tíð síðan hefur hann verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég get jafnvel sagt að ég hafi dáð hann.

Legrand var ekki bara góður lagahöfundur, afburða píanóleikari og prýðilegur tónlistarmaður á alla lund – hann var líka heppinn, kannski má segja að hann hafi verið  lukkunnar pamfíll. Hann fer mjög ungur í tónlistarnám í bestu skólum í París, pabbi hans var músíkant, pilturinn sótti  tíma hjá Nadia Boulanger í Conservatoire de Paris. Er innan við tvítugt þegar hann byrjar að starfa sem tónlistarmaður.

Hann er uppi á einstaklega spennandi tíma í tónlist og kvikmyndum – Legrand samdi tónlist við ótal kvikmyndir og vann þrenn Óskarsverðlaun. Hann var ungur þegar hóf að halda úti sínum eigin hljómsveitum, bæði stórum og litlum. Hann var aðeins 22 ára þegar hann gaf út plötu sem náði mikilli metsölu, I Love Paris hét hún.

 

 

Legrand fór til Bandaríkjanna. Þar kynntist hann stórstjörnum tuttugustu aldarinnar. Legrand var mættur á staðinn þar sem allt var að gerast. Þeir Miles Davis urðu vinir. Hann vann með Bill Evans og John Coltrane. Og svo eru það allir söngvararnir sem hann starfaði með og fluttu lög hans: Ray Charles, Ella Fitzgerald, Streisand, Sinatra, Sarah Vaughn, Aretha Franklin, Dusty Springfield. Listinn er mjög langur. En hann var svo fjölhæfur að hann hljóðritaði líka tónlist eftir klassísk tónskáld eins og Satie, Copland, Cage og Gershwin.

 

 

Það var eitthvað ómótstæðilegt við Legrand. Maður hafði á tilfinningunni að lífið léki við hann, veitti honum ómælda ánægju. Frá honum streymdi jákvæð orka, eins og það heitir núorðið. Hann starfaði í tónlistinni fram á síðustu stund. Það voru ráðgerðir tónleikar með honum í París nú í vor. Þeir verða kannski haldnir annars staðar. Maður gæti hugsað sér að Miles blési í trompetinn í því samkvæmi.

Michel Legrand fæddist í París 24. febrúar 1932. Hann andaðist í borginni sinni í dag. Hér flytur hann sjálfur eitt þekktasta lag sitt, Les moulins de mon coeur, The Windmills of my Mind heitir það á ensku og er úr kvikmyndinni The Thomas Crown Affair.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Undirrita samninga við Neos-flugfélagið um leiguflug

Undirrita samninga við Neos-flugfélagið um leiguflug
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir forsetaframboðið ekki vera viðbrögð við því að leggja eigi starfið hennar niður

Segir forsetaframboðið ekki vera viðbrögð við því að leggja eigi starfið hennar niður
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér