„Þegar ég sá hvað pabba leið illa skyldi ég að þetta hefði getað farið miklu verr“
„Aldrei hefði mig grunað að þetta kæmi fyrir mig,“ segir Jana Arnarsdóttir en hún lenti í mjög alvarlegri bílveltu á Holtavörðuheiði á sunnudagskvöldið. Bíllinn er gjörónýtur og Jönu hefur verið sagt, oftar en einu sinni, að það sé kraftaverki líkast hvað hún slapp vel.
Síðastliðið sunnudagskvöld var Jana, sem er 21 árs, ásamt nokkrum vinum sínum að keyra aftur í bæinn en helginni eyddu þau á Akureyri við tökur á skólaverkefni. Þau eru öll nemendur við kvikmyndaskóla Íslands.
Hópurinn var á tveimur bílnum en þau voru nýlega lögð aftur frá Staðarskála þegar Jana missti stjórn á bílnum. Einn farþegi var með Jönu í bílnum.
„Við vorum bara að spjalla og ég var með 100 prósent fókus á veginum. Ég var ekki að horfa á Emil, ég var ekki í símanum. Allt í einu byrjaði bíllinn bara að renna.“
Jana segist hafa haldið ró sinni og reynt að rétta bílinn af. Í fyrstu virtist henni ætla að takast ætlunarverkið en þá missti hún skyndilega alla stjórn og bíllinn flaug út af veginum og fór fjórar veltur niður litla brekku. „Mér var sagt að við hefðum verið komin nokkuð langt frá veginum.“
Jana minnist þess, þegar bíllinn hafði stöðvast, að hún hafi verið pikkföst þar sem hún sat á hvolfi í niðamyrkri. „Ég fór strax að athuga með Emil og hann með mig. Hann gat alveg hreyft sig en ég var pikkföst og að drepast í hálsinum og í bakinu.“
Vinir þeirra sem þau voru í samfloti með höfðu stoppað sinn bíl og komu aðvífandi til að aðstoða þau. Ekkert þeirra var þó með síma á sér til að hringja í neyðarlínuna. Þegar einn vinur hennar ætlaði að fara að keyra og leita að síma birtist bíll. Ökumaðurinn hringdi á neyðarlínuna og kom með teppi og annað til að halda hita á Jönu þar til aðstoð bærist.
Fleiri bílar stöðvuðu og allir voru tilbúnir að gera sitt til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Jana segist gríðarlega þakklát þessu fólki sem og vini sínum Emil sem beið með henni inni í bílnum alveg þar til sjúkraflutningamenn voru búnir að losa hana.
Líkt og sjá má á myndunum er bíllinn mjög illa farinn og mikið mildi að ekki fór verr. Jana segist þó ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins fyrst um sinn þar sem áfallið var svo gríðarlega mikið.
„Sjúkraflutningamennirnir fóru rosalega varlega þegar þeir losuðu mig þar sem líkur voru á að ég væri mænusködduð. Þeir tóku engan sénsa.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og hún flutti Jönu á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún fór í sneiðmyndatöku á öllum líkamanum. „Það var ekki fyrr en þá sem læknarnir sáu að ég var ekki meira slösuð en ég er hvorki beinbrotin né með sár á líkamanum.“
Jana var lögð inn en um nóttina var hún farin að geta staðið í lappirnar. „Þegar ég vaknaði um morguninn sýndi pabbi mér myndirnar af bílnum. Þegar ég sá þær og sá hvað pabba leið illa fattaði ég hvað þetta hefði getað farið miklu verr.“ Um hádegisbil daginn eftir var hún svo útskrifuð.
Jana vill með frásögn sinni biðla til fólks að fara varlega.
„Það getur allt gerst en maður býst aldrei við því. Notið bílbelti í yfirfarið bílinn vandlega fyrir veturinn. Það gæti mögulega bjargað lífi ykkar.“