Stendur heilshugar með sjómönnum í kjarabaráttunni – „Hann hefur þurft að peppa mig upp bugaða og brotna í gegnum bjagað símasamband“
„Ég held að alltof oft geri fólk sér ekki alveg grein fyrir því hvað felst í starfi sjómannsins og hvað þeir þurfa að fórna gríðarlega miklu,“ segir Halla Guðbjörg Þórðardóttir, unnusta Sigurjóns Veigars Þórðarsonar vélstjóra í samtali við DV en hún styður sinn mann heilshugar í kjarabaráttunni. 3.500 sjómenn hyggjast leggja niður störf klukkan 23 í kvöld takist samninganefndum Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ekki að semja. Samninganefndir funda nú í húsnæði sáttasemjara og freistast þess að gera lokatilraun til að koma í veg fyrir verkfallið.
Halla og Sigurjón Veigar eru búsett í Grindavík ásamt sonum sínum og hefur Sigurjón starfað nær óslitið á sjó frá fimmtán ára aldri en hann útskrifaðist úr Vélskólanum árið 2010. Halla hefur því vanist lífinu sem grasekkja en hún segir fjölskylduna svo sannarlega hafa fengið að finna fyrir þeim fjarvistum sem sjómannstarfið krefst.
„Þessar fjarvistir bitna ekki bara á konum og börnum sjómanna. Sigurjón hefur þurft að missa af mörgum dýrmætum stundum, eins og til dæmis brúðkaupi besta vinar síns. Það eru allskonar pólar í þessu sem fólk kanski gerir sér ekki grein fyrir,“ segir hún og tekur jafnframt undir að líklega séu fáar starfsstéttir sem krefjist jafn mikillar fórnfýsi.
Halla ritaði fyrr í dag einlægan pistil sem hún birti á facebook en þar lýsir hún þeim raunveruleika sem íslenskir sjómenn og fjölskyldur þeirra búa við. Segir hún góðar undirtekir sem hún hefur fengið við pistlinum ef til vill skýrast af því að fólk fær sjaldnar að kynnast reynsluheimi þeirra sem eiga maka sem stundar sjómennsku.
„Maðurinn minn vinnur erfiða vinnu, hann er hálft árið að heiman að minnsta kosti. Hann missir af miklu í lífi okkar hér heima: fyrstu skrefunum, fyrsta brosinu, þegar strákarnir misstu sínar fyrstu tennur og svo mikið meira í lífi þeirra. Hann gat ekki stutt 100 prósent við bakið á mér, sinnar heitt elskuðu þegar ég studdi móður mína í gegnum mjög erfið veikindi sem leiddu hana að lokum til dauða, af því að hann var á sjó og varla í símasambandi.
Hann hefur alltaf gert sitt besta og verið okkur sem klettur í öllu sem gengur á. En oft þarf hann að fá fréttir um erfið mál sem og gleði fréttir lengst út á sjó. Hann hefur þurft að peppa mig upp bugaða og brotna í gegnum bjagað símasamband. Hann hefur heyrt mig skríkja af gleði og fögnuði með fréttir af sonum sínum sem hann þarf að ímynda sér því hann missti af því.
Halla segir Sigurjón hafa misst af ótal merkum viðburðum vegna vinnu sinnar og farið á mis við dýrmætar upplifanir:
„Skírnarveislur og aðrir merkir viðburðir, veislur og margt annað sem hann fær bara skoða myndir af og heyra sögur af.
Eins og til dæmis núna ,ef ekki verður verkfall er áætluð brottför hans á sama tíma og miðju barnið er að keppa í körfubolta. Hann missir þá af enn einu mótinu og við getum ekki einu sinni kvatt hann.“
Halla segir að vissulega hafi Sigurjón valið það sjálfur að sækja sjóinn og hafi unun af starfinu – en jafnframt hafi hann sótt sér viðeigandi menntun og setið á skólabekk í heil fimm ár:
„Hann er þarna úti í öllum veðrum. Ég er til dæmis búin að loka á öll svona óveðurs videó frá bátum úti á sjó, af því að mitt grasekkjuhjarta bara þolir það ekki.“
Þá bendir Halla á að á einu ári sé launatala Sigurjóns og annarra sjómanna búin að lækka um tæplega 40 prósent, á sama tíma og kjararáð ákveður að hækka laun þingmanna um álíka háa upphæð.
„Ég stend með sjómönnum og sérstaklega mínum sjómanni. Þeir eiga skilið betri kjör og kjarasamninga í gildi.“