fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Fókus

Börn Guðrúnar voru tekin með lögregluvaldi: „Í kjölfarið reyndi ég að fremja sjálfsmorð“

Fjórir fyrrverandi fíklar deila reynslusögum sínum

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 26. febrúar 2018 13:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Um sumarið missti ég stelpurnar frá mér. Stelpurnar voru teknar með lögregluvaldi. Í kjölfarið reyndi ég að fremja sjálfsmorð.“

Þetta segir Guðrún Ósk Þórudóttir, ung móðir sem hefur loks haft betur eftir erfiða baráttu við áfengi og fíkniefni. Í upphafi þessa árs var ljóst að loka þyrfti göngudeild SÁÁ á Akureyri sökum niðurskurðar. Göngudeildin á Akureyri hefur verið starfrækt frá árinu 1993 og hefur hún veitt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Mikil óánægja er ríkjandi meðal fólks vegna fyrirhugaðrar lokunar og stofnaður hefur verið undirskriftalisti sem gengur nú manna á milli í þeirri von að hætt verði við.

Guðrún hefur loks haft betur eftir erfiða baráttu við áfengi og fíkniefni

Guðrún Ósk Guðrún hefur loks haft betur eftir erfiða baráttu við áfengi og fíkniefni

Mynd: Einar Ragnar

Mikil aukning hefur orðið á aðsókn í meðferðarheimili síðastliðin ár og eru biðlistarnir langir. DV ræddi við fjóra fyrrverandi áfengis- og vímuefnasjúklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa nýtt sér þjónustu meðferðarheimila hér á landi til þess að verða edrú.

Blaðamaður ræddi við hvert og eitt þeirra um fyrri tíð og fékk góða innsýn í það hvernig líf fíkils í neyslu er.

Byrjaði í neyslu þrettán ára gömul

Guðrún Ósk Þórudóttir er fædd árið 1991 og ólst upp í Keflavík. Hún á í dag tvær ungar dætur og er um þessar mundir í endurhæfingu.

„Ég byrjaði í neyslu þrettán ára gömul. Ég var í raun undir áhrifum allt þar til ég varð ólétt að eldri stelpunni minni, daginn áður en ég varð átján ára gömul,“ segir Guðrún, sem hefur upplifað hryllilega hluti á stuttri lífsleið.

„Það var búið að reyna að senda mig á Stuðla en ég grenjaði mig þaðan út eftir nokkra daga. Barnavernd ákvað þá að senda mig í framhaldsskólann á Laugum, sem hjálpaði ekkert. Þar var meira djamm, meira frelsi og engir forráðamenn.“

Guðrún olli fjölskyldu sinni miklum áhyggjum en hún lét sig reglulega hverfa. Þegar Guðrún var fjórtán ára gömul hóf hún svo að drekka áfengi og fór strax illa með vín. Áfengið átti svo eftir að leiða hana á aðrar og harðari slóðir.

E-pillan meira spennandi en áfengi

„Mér fannst e-pillan alltaf miklu meira spennandi en áfengi, mér fannst fulla fólkið alltaf bara vera ógeðslega asnalegt,“ segir Guðrún. „Eftir að ég byrjaði að drekka fór ég að missa æskuvinkonurnar og í staðinn kom eldra fólk sem var í harðari neyslu.“

Eftir fimm ára neyslu sem hafði ágerst hratt með tímanum uppgötvaði Guðrún að hún bar barn undir belti. Þegar barnið kom í heiminn árið 2010 tók annar öldudalur við en Guðrún var greind með mikið fæðingarþunglyndi.

Ég gerði allt til þess að deyfa mig

„Ég hætti í öllum fíkniefnum á meðan ég var ólétt og ætlaði mér alls ekki að halda áfram eftir fæðinguna. Það gekk ekki eftir. Mamma sá um stelpuna mína og ég var úti að drekka og sýndi henni engan áhuga. Ári síðar kynntist ég seinni barnsföður mínum og vorum við á tímabili eingöngu að drekka saman en ekki að neyta fíkniefna. Mamma var alltaf að passa og ég gerði allt til þess að deyfa mig. Ég átti ömurlega æsku, kem úr alkóhólísku umhverfi og fékk það í arf.“

Aftur ólétt

Guðrún hafði verið í sambandi í fjóra mánuði þegar hún varð á ný ólétt. Gekk meðgangan betur í þetta skiptið.

„Meðgangan gekk rosalega vel og líka eftir að barnið kom í heiminn. Hins vegar var barnsfaðir minn alltaf í neyslu svo við hættum saman. Mér fannst ég tengjast eldri stelpunni minni miklu betur og ég gat haft þá yngri á brjósti. Ég lét alla neyslu eiga sig í um þrjá mánuði.“

Þetta var árið 2012. Guðrún var á leið til útlanda stuttu síðar og var Benidorm áfangastaðurinn. Þar tók Guðrún örlagaríka ákvörðun. Hún taldi að óhætt væri að drekka áfengi. En því hélt hún leyndu.

„Ég taldi mér trú um að ég gæti vel drukkið, en ég gæti ekki neytt fíkniefna.“

Guðrún Ósk í dag.
Guðrún Ósk í dag.

Dæturnar teknar með lögregluvaldi

Árið 2013 var Guðrún djúpt sökkin í neyslu á ný. Hún hóf samband með barnsföður sínum og neyttu þau fíkniefna saman. Það átti eftir að hafa örlagaríkar afleiðingar.

„Um sumarið missti ég stelpurnar frá mér,“ segir Guðrún. „Stelpurnar voru teknar með lögregluvaldi. Í kjölfarið reyndi ég að fremja sjálfsmorð.“

Guðrún var hætt komin og var á gjörgæslu í á annan sólarhring. Segir Guðrún að henni hafi verið vísað út og þurft á frekari aðstoð að halda en ekki fengið.

„Það endaði auðvitað á því að ég fór að drekka á ný og harðar enn áður. Í rúmlega eitt og hálft ár drakk ég rosalega illa. Ég fékk íbúð frá félagsþjónustunni og ég gjörsamlega rústaði henni. Þarna fékk ég stelpurnar aftur til mín og var með þær hjá mér í um eitt og hálft ár. Ég missti þær svo aftur árið 2015.“

Ég bjó á götunni og ég heyrði ekki í stelpunum mínum í sjö mánuði

Að horfa á eftir börnunum var botninn. Við tók tímabil sem hún lýsir sem óhugnanlegu. Guðrún varð götustelpa og börnin sá hún ekki í sjö mánuði.

„Ég gafst upp, ég var komin í andlegt þrot,“ segir Guðrún sem óskaði eftir að komast í áfengismeðferð á Vogi. „Ég var enn í sambandi með barnsföður mínum og við ákváðum að fara í meðferð saman. Við náðum að vera edrú í um það bil sex mánuði.“

Guðrún bætir við að þau hafi ekki farið eftir því sem læknarnir á Vogi höfðu ráðlagt þeim og óheiðarleikinn var allsráðandi.

„Við fórum til Spánar með fjölskyldunni og stelpurnar með okkur. Þetta átti að vera frábær fjölskylduferð fyrir börnin okkar en við duttum í það.“

Aftur tók við feluleikur og þar sem þau voru í eigin húsnæði komst neyslan ekki upp. Barnavernd var reglulega í sambandi en þau sögðu starfsfólkinu þar ítrekað ósatt.

Ætlaði að sprauta sig með of stórum skammti

Parið var í neyslu þar til í janúar 2017. Þá brotnaði Guðrún saman og opnaði sig um feluleikinn og neysluna sem hafði staðið alltof lengi yfir.

„Ég fór að grenja og öskra á barnaverndarfulltrúann minn. Ég sagði að ég gæti ekki meira. Ég var að öskra á hjálp. Ég gekk út af þessum fundi, börnin voru tekin og sett til tengdaforeldranna. Við tók rosalegt djamm í einn og hálfan mánuð. Ég man ekkert eftir þessum tíma. Á endanum langaði mig til þess að enda þetta. Ég ætlaði að læra að sprauta mig og sprauta mig með of stórum skammti, því mér leið svo illa.“

Guðrún Ósk þegar hún var í neyslu.
Guðrún Ósk þegar hún var í neyslu.

Það var svo dag einn sem amma Guðrúnar kom í heimsókn. Hún táraðist þegar hún sá hvernig komið var fyrir ömmubarninu. Þá áttaði Guðrún sig á því hvað hún var að gera sjálfri sér og börnunum.

„Amma kom þarna með tárin í augunum. Það var erfitt að sjá ömmu sína særða. Ég gat ekki horft upp á það að sjá ömmu mína gráta fyrir framan mig út af því hvernig ég var búin að fara með mig.“

Guðrún innritaði sig á Vog og við tók erfið meðferð vegna fráhvarfa. Í kjölfarið fór hún á Vík í eftirmeðferð. Með aðstoð ráðgjafa á staðnum fór henni að ganga betur. Hún tók ákvörðun um að loka á barnsföður sinn sem var þá í mikilli neyslu.

„Ég fór í AA-samtökin og fann mér sponsor. Þarna ætlaði ég að vera edrú og sagði sjálfri mér að tækist mér ekki að vera án áfengis ætti ég ekki skilið að eiga og hafa börnin hjá mér.“

Samviskubit

Guðrún finnur enn fyrir samviskubiti fyrir að hafa brugðist börnunum sínum. Þá er eldri dóttir hennar enn að vinna í því að treysta móður sinni.

„Það tók mikið á hana að missa mömmu sína hvað eftir annað. Ég var alltaf að koma og fara. Fyrstu átta mánuðina þá vakti hún alltaf þangað til að ég kom heim og þá sofnaði hún.“

Dópuð í jarðarför vinkonu sinnar

Nýlega missti Guðrún vin sinn, sem einnig var í neyslu. Á aðfangadag árið 2016 missti hún vinkonu sína.

„Ég var ekki einu sinni edrú í jarðarför vinkonu minnar. Ég fer reglulega að leiði hennar í dag og tala við hana, segi henni að ég vildi óska þess að ég hefði verið edrú í jarðarförinni og að ég hefði lært af því að hún hefði dáið úr þessu. Núna er ég þakklát fyrir að fá að fara í gegnum þetta edrú, að geta verið til staðar.“

Guðrún segist óska þess að hún gæti farið til baka í tíma og haft vit fyrir sjálfri sér, komið í veg fyrir að hún hefði tekið fyrstu e-pilluna.

„Afi minn, sem var í raun eins og pabbi minn. Hann lést þegar ég var þrettán ára og ég deyfði þá sorg með fíkniefnum. Enn þann dag í dag, þrettán árum síðar, er ég að takast á við þessa sorg. Hans ósk var alltaf að mér myndi ganga vel í lífinu og að ég myndi ekki leiðast út í vandræði, en ég gerði það samt og þar er mikil eftirsjá.“

Guðrún segist virkilega reið yfir því hversu eðlilegt það er talið í dag að reykja kannabisefni og að það skuli vera í umræðunni að lögleiða það efni.

„Þetta er mannskemmandi, alveg sama hvað fólk reynir að halda fram hinu gagnstæða. Þetta veldur geðsjúkdómum, geðhvörfum og kemur fólki á geðdeild. Það eru um 570 manns á biðlista inn á Vog og Guð má vita hversu margir af þeim munu falla frá á meðan þeir bíða. Maður er svo sár og svekktur út í þessa ríkisstjórn að setja ekki meiri peninga í þetta. Þetta er það sem heldur okkur á lífi. Þegar við erum í neyslu þá finnum við engar tilfinningar, við finnum ekkert. Hvorki sorg, samkennd né neitt, okkur er alveg sama um alla nema okkur sjálf. Í dag er ég þakklát fyrir að fá að takast á við lífið, sorgina og allt saman edrú.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hús Matthew Perry selt ári eftir andlát hans

Hús Matthew Perry selt ári eftir andlát hans
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er ekki bara kvóti á fiskinn. Það er líka kvóti á hversu miklar svívirðingar þú þolir“

„Það er ekki bara kvóti á fiskinn. Það er líka kvóti á hversu miklar svívirðingar þú þolir“