fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Ekki lengur bændur, heldur heimsborgarar

Fókus
Föstudaginn 12. október 2018 19:00

Júlía Helgadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hefur ekki verið mikil hattamenning á Íslandi. Konur eru loks farnar að þora að ganga með hatt. Síðustu áratugina höfum við verið svo miklir bændur og ekki þorað að flíka öðruvísi klæðnaði. Síðustu ár hefur þetta verið að breytast. Nú erum við minni bændur og meiri heimsborgarar.“

Þetta segir Júlía Helgadóttir klæðskæri sem hóf störf í kvenfatabúð Kormáks og Skjaldar fyrr á árinu. Hún hefur sjálf hannað föt og rekið vefverslun. Hún settist niður með blaðamanni í versluninni til að ræða um kventískuna, rekstur í miðbænum og af hverju konur eigi að vera óhræddar við að setja upp hatt og klæða sig upp fyrir veiði eða útivistina.

Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar við Laugaveg sló í gegn fyrir margt löngu. Ákveðið var að opna útibú við Skólavörðustíg. Fyrst í stað voru fötin að mestu ætluð karlmönnum en eitthvað var til af fötum fyrir konur. Nú hefur dæmið snúist algjörlega við. Í versluninni er eingöngu að finna fatnað fyrir konur.

Skemmtilegra að vera fín í veiðinni

Júlía og Skjöldur Sigurjónsson

Í gegnum tíðina hefur þótt fínt að klæðast fatnaði frá þeim félögum Kormáki Geirharðssyni og Skildi Sigurjónssyni. Þeir hafa markaðssett sig á nokkuð snjallan hátt og staðið fyrir árlegum tískusýningum svo dæmi sé tekið. Þeir reka einnig Ölstofuna en þar er ekki spiluð tónlist og eiga þeir stóran hóp af fastakúnnum sem koma til að setjast niður og spjalla um heimsins gagn og nauðsynjar. Margir ráku upp stór augu þegar fréttist að þeir félagar hefðu opnað verslun eingöngu fyrir konur. En Júlía kann skýringu á því.

„Konurnar, þegar þær voru að velja föt á mennina sína, þá gerðist það oft að þær voru spyrja hvort ekki væri eitthvað til á þær. Skjöldur og Kormákur ákváðu því að taka áhættuna.“

Boðið er upp á vörur frá MJM, Walker Slater og Christy’s. Júlía segir að hattarnir frá Christy’s hafi rokið út. Hún segir að hattasala í þeirra búð og öðrum hafi vaxið mikið. „Konur eru orðnar djarfari í klæðaburði og hér hafa tvídhattar og barðastórir hattar rokið út. Ég held að allar verslanir sem selja hatta finni fyrir aukningu í sölu á þessari vöru. Búðin okkar er ung og ekki allir sem vita af henni, en það er ánægjulegt að fylgjast með konum þegar þær koma hér í fyrsta sinn, þegar þær átta sig á að boðið sé upp á vörur fyrir konur, í sama gæðaflokki og fyrir karlana niðri á Laugavegi.“

Þora konur að ganga í þessum fötum og er hægt að klæðast þeim dagsdaglega?

„Við bjóðum að sjálfsögðu upp á fínni föt en svo erum við með föt sem henta fullkomlega í veiði eða útivist. Það er miklu skemmtilegra að vera í smekklegum fötum í veiði. Og að vera smart í sínu daglega lífi, það erum við.“

Tilraunamennska sem var tekið fagnandi

Skjöldur SIgurjónsson

Tvíd hefur haft yfir sér yfirbragð fágunar og jafnvel kvenleika og hafa kunnáttusamir stundum parað saman tvídjakka og til dæmis gallabuxur eða bætt við höttum og treflum og fetlingum og þannig náð að fanga hversdagslegt yfirbragð.

Kormákur og Skjöldur eru í viðskiptum við Walker Slater í Skotlandi. Fyrirtækið sérhæfir sig í tvídfatnaði og sló fyrst í gegn í Skotlandi. Nú hafa þeir opnað búðir víðs vegar um Bretland, í Kanada og Japan og stefna á Bandaríkin.

„Þeir sérhæfa sig í tvídfatnaði og velja efnið vel. Það er klassískt og sniðin hafa slegið í gegn. Þeir byrjuðu úti í Skotlandi með sína línu af þeirri einföldu ástæðu að þeim þótti ekki nægilega fallegt tvíd í boði, það sem var fyrir var gamaldags og svo virtist sem enginn þorði að taka áhættu eða leika sér með formið. En tilraunamennsku þeirra var tekið fagnandi. Til dæmis hafa Emmujakkarnir, sem við bjóðum konum upp á, rokið út og við höfum ekki undan að panta. Einnig látum við sérsauma fyrir okkur, þá sauma þeir fyrir okkur en nýta okkar snið. Að auki ætla þeir að hjálpa okkur með hestalínu í vor.“

En hvernig gengur að reka búð við Skólavörðustíg? Væri ekki betra að vera við Laugaveg eða í verslunarmiðstöðvunum?

„Það væri sjálfsagt betra. En þetta hefur verið að vaxa hjá okkur. Túristarnir koma líka mikið við þegar þeir sjá útstillingarnar. En ætli þetta sé ekki svipað og með annað sem Skjöldur og Kormákur hafa tekið sér fyrir hendur. Við höfum eignast okkar fastakúnna og svo bætist smám saman við í þann hóp,“ segir Júlía og bætir við að skemmtilegast við starfið sé að ræða við kúnnana.

„Flestir frá Bandaríkjunum eru miður sín yfir Trump og gráta yfir honum hjá okkur á meðan Rússar eru flestir yfir sig stoltir af Pútín. Mórallinn fer dálítið eftir því hvað er að gerast í hverju þjóðfélagi fyrir sig. En búðin er nánast eins og félagsmiðstöð og stundum er boðið upp á kaffi. Það er ekki til skemmtilegra starf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 2 dögum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun