Hendrik Björn var áður dæmdur fyrir fjárdrátt og skattsvik
Framreiðslumaðurinn Hendrik Björn Hermannsson hefur opnað veitingastaðinn 59 Bistro Bar á Grundarfirði en hann hefur staðið í ströngu frá því í byrjun mánaðarins. Hendrik, sem er sonur Hermanns Gunnarssonar heitins , Hemma Gunn, er reynslumikill í veitingahúsabransnum og lætur hvergi bugast þrátt fyrir ýmsar hindranir en hann á þónokkurn sakaferil að baki.
Hendrik, sem meðal annars hefur staðið að rekstri skemmtistaðarins Players í Kópavogi og veitingastaðarins Skólabrú, hefur áður komist í fréttir vegna veitingareksturs síns.
Hann, eins og áður segir, að baki nokkra refsidóma fyrir fjármálamisferli. Hann ræddi málin í viðtali við DV árið 2013, þegar hann var laus úr fangelsi. „Ég hef verið edrú í tvö og hálft ár og horfi allt öðrum augum á lífið.“
Fram kemur á vefsíðu Skessuhorns að ráðist hafi verið í gagngerar endurbætur á húsnæði 59 Bistro Bar frá því Hendrik tók við lyklunum í byrjun mánaðarins og að staðurinn sé glæsilegur á að líta eftir breytingarnar. Það er því ljóst að Hendrik kýs að halda ótrauður áfram þrátt fyrir ýmis skakkaföll.