fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Fréttir

Nýtt hlutafé Heimavalla nemur 2,4 milljörðum

Lífeyrissjóðir inn í eigendahópinn – Hlutaféð aukið um 5,7 milljarða króna á einu ári

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. ágúst 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlutafé Heimavalla, leigufélags sem hefur á skömmum tíma orðið eitt umsvifamesta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu, var aukið um alls 2,4 milljarða króna á síðustu fimm mánuðum. Félagið er nú með skráð hlutafé upp á 5,8 milljarða króna en það stóð fyrir ári í 63 milljónum. Framkvæmdastjóri þess segir að hluthöfum hafi fjölgað umtalsvert með síðustu hlutafjáraukningu. Fjölskyldufyrirtækið Stálskip, tryggingafélagið Sjóvá og einkahlutafélag Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstöðumanns gjaldeyrismiðlunar Glitnis, eru enn stærstu einstöku eigendur félagsins.

„Hlutafjáraukningin núna í vor var hluti af því að ná í aukið eiginfjárframlag til þess að við gætum stækkað fyrirtækið enn frekar og náð góðri hagkvæmni í rekstrinum á eignasafni þess. Við unnum hana í samstarfi við Íslandsbanka og það var farið í valda fjárfesta. Markmiðið var að stækka og breikka hluthafahópinn og við fengum til dæmis nokkra lífeyrissjóði sem lögðu inn fjármuni, tvö tryggingafélög, VÍS og Vörð, sem höfðu ekki verið áður. Við erum með 52 hluthafa í fyrirtækinu í dag og það er einungis einn aðili sem á meira en 10%,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla.

Á 900 íbúðir

Leigufélagið var stofnað í júní 2014 og á nú um 900 íbúðir. Fyrsti hluthafahópur þess varð til með sameiningu smærri fasteignafélaga og aukningu hlutafjár. Félagið á íbúðir í öllum landshlutum og heilu fjölbýlishúsin í bæjum eins og Selfossi, Þorlákshöfn, Akranesi og Borgarnesi.

„Við höfum keypt nokkur leigufélög og stakar fasteignir að undanförnu. Til dæmis leigufélagið Gránufélagið á Akureyri, blokk í Grindavík sem var lengi kölluð „Blokkin eina“, sem var fyrsta eignin okkar á Suðurnesjum, og svo 108 eignir af fyrirtæki í Reykjanesbæ sem heitir Tjarnarverk sem við tókum við í júlí,“ segir Guðbrandur.

„Við erum núna með 900 íbúðir en stefnum að 1.500 til 2.000 íbúðum. Við höfum sagt það opinberlega að við teljum að stærðarhagkvæmnin fari að skila sér í 1.300 íbúðum. Við erum að reyna að byggja upp fasteignafélag að norrænni fyrirmynd þar sem við gefum fólki kost á langtímaleigu. Markmið okkar er að fara með þetta félag á markað og við stefnum að því að koma því í kauphöll á síðari hluta næsta árs. Við erum að reyna að gera góða hluti sem eru fólkinu og samfélaginu til góða.“

Gaf út skuldabréf

Hluthafar Heimavalla eru nú að sögn Guðbrands 52 talsins en uppfærðum hluthafalista hefur ekki verið skilað inn til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra. Aðspurður svarar hann að Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífsverk (Lífeyrissjóður verkfræðinga) og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, hafi farið inn í eigendahópinn í síðustu hlutafjáraukningu. Stálskip ehf., sem er í eigu Guðrúnar Lárusdóttur, fyrrverandi útgerðarkonu, og fjölskyldu hennar, á 14,3%. Aðrir hluthafar, þar á meðal Sjóvá og Brimgarðar ehf., sem maltverska félagið Coldrock Investments Limited á meirihluta í, eiga minna en 10% hvort.

„Með þessari aukningu minnkuðu hlutir þeirra hluthafa sem voru áður aðeins en þeir fóru ekki inn í þá aukningu í sömu hlutföllum og aðrir. Síðan höfum við haft heimild fyrir því að greiða fyrir eignir sem við erum að kaupa með því að gefa út hlutafé. Við höfum notað það í nokkrum tilfellum og núna til dæmis síðast þegar við keyptum eignir Tjarnarverks. Þá var smá hluti greiðslunnar greiddur með hlutafé í Heimavöllum.“

Heimavellir réðust í 600 milljóna króna skuldabréfaútgáfu í júní. Guðbrandur segir stjórn félagsins hafa heimilað hana til að ná niður þeim vöxtum sem félaginu býðst á markaði.

„Það sem liggur fyrir er að vextir eru háir á Íslandi og okkur hafa staðið til boða lán með um 4,20% vöxtum en skuldabréfaútgáfan var okkar tilraun til að lækka þá vexti sem við erum að borga því það eru tveir afgerandi þættir sem ráða leiguverði. Annars vegar vaxtastigið og hins vegar fasteignaverðið eins og það er á hverjum tíma þegar við erum að bæta við okkur fasteignum. Þetta var svo sem ekki stór upphæð eða um 600 milljónir,“ segir Guðbrandur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Nuddstofa Mariu býður upp á eistnanudd – „Þetta er alveg eðlilegt, ég þurrka þetta bara og spyr hvort allt sé í lagi“

Nuddstofa Mariu býður upp á eistnanudd – „Þetta er alveg eðlilegt, ég þurrka þetta bara og spyr hvort allt sé í lagi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur og Hildur tókust á um bensínstöðvalóðirnar – „Fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi“

Dagur og Hildur tókust á um bensínstöðvalóðirnar – „Fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi“