

Dagens Nyheter, virtasta dagblað Norðurlanda, setur í gang herferð gegn hatri og rasisma. Blaðið fær eitt hundrað þekkta Svía til liðs við sig. Þetta er athyglisvert. Fólkið segist ætla að standa með mannúð og grunngildum sem nú sé ógnað.
Mörg þekkt nöfn eru á listanum. Fótboltamaðurinn Zlatan Ibahimovic, rithöfundurinn Jonas Gardell, tónlistarmennirnir Benny Anderson og Björn Ulvaeus úr Abba, Marcus Wallenberg, stjórnarformaður Scandinaviska Enskildabanken, Lena Endre leikkona, Karl-Johan Persson, forstjóri H&M, leikarinn Mikael Persbrandt, forsætisráðherrarnir Carl Bildt, Ingvar Carlsson, Göran Persson, Thorbjörn Fälldin, Frederik Reinfeldt og Stefan Löfven, tölfræðingurinn og læknirinn Hans Rosling, Daniel Ek, stofnandi Spotify, leikarinn Sverrir Gudnason, Pernille August leikkona, Noomi Rapace leikkona, söngkonan Laleh og rithöfundurinn Kerstin Ekman – svo nokkrir séu nefndir.
Jonas Gardell varar við því hvernig útlendingahatur smýgur inn í samfélagið og tungumálið svo slík viðhorf fara brátt að þykja góð og gild. Hann segir að við því verður að bregðast, en Kerstin Ekman óttast líka hvað orðræðan gegn innflytjendum er orðin fjandsamleg, en segir að í Svíþjóð sé að finna gullæð mannúðarstefnu sem þurfi að koma fram í dagsljósið.
