

Ljósmyndin af Alyan litla drukknuðum í fjöru við Eyjahaf er ótrúlega áhrifarík. Sjálfur játa ég að ég felldi tár yfir myndinni og líka túlkunum á henni sem birtust í gær. Sumt af því snertir mann djúpt. Myndin er orðin tákn fyrir hræðilegt hlutskipti flóttamanna, dauða og hörmungar og hún er farin að hafa áhrif – líka á æðstu stöðum. David Cameron – sem hefur verið kallaður flatasta og yfirborðslegasta persóna til að sitja á stóli forsætisráðherra í Bretlandi – neyðist til að láta undan og taka við flóttamönnum. Líklega þarf Stephen Harper í Kanada líka að gefa eftir.

Það voru engir samskiptamiðlar í þá daga, en við getum rifjað upp ljósmyndir sem máski höfðu ekki ekki jafnmikil og skyndileg áhrif, en urðu á sinn hátt tákn fyrir atburðina sem þær lýsa, stríð og ofbeldi.
Stúlkan sem hleypur nakin á myndinni hér að neðan undan napalmsprengju heitir Phan Thị Kim Phúc. Myndin er tekin 1972 í þorpinu Trang Bang í Vietnam. Stúlkan lifði af, og mun búa í Bandaríkjunum. Myndin var tekin af ljósmyndaranum Nick Ut.

Það er ekki vitað hvað drengurinn á myndinni hér að neðan hét, þótt menn hafi mikið reynt að leita svara við því. Myndin er tekin í gettóinu í Varsjá vorið 1943, stuttu áður en gettóinu var gereytt. Myndin er tekin af liðsmanni nasistasveitanna sem sendu þetta fólk áleiðis til útrýmingar. Á myndinni eru hermenn gráir fyrir járnum, en svo aðallega konur og börn. Líklega er þetta frægasta myndin frá Helförinni.
