

Á þessari mynd má sjá þróun fylgis ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri grænna og svo Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eins og það birtist í skoðanakönnunum. Myndin kemur frá DataMarket, en Guðmundur Hörður birtir hana á Facebook og hefur strikað í til að leggja áherslu á fylgishrunið. Í báðum tilvikum er farið úr meira en 60 prósenta fylgi langleiðina niður í 30 prósent – stjórn Jóhönnu og Steingríms datt reyndar aðeins niður fyrir það um tíma.

Hér er svo önnur mynd sem nær lengra aftur í tímann. Við sjáum að fylgi ríkisstjórna minnkaði, en aldrei svona skart. Þarna er fremst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem Davíð Oddsson veitti forystu. Hún fór ekki niður fyrir 50 prósent, síðan er það ríkisstjórnin sem Halldór Ásgrímsson leiddi með sömu flokkum og undir lokin Geir Haarde. Hún fór niður fyrir 50 prósent.
Varla hefur nein stjórn mælst vinsælli í upphafi en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007. Við hana voru bundnar miklar vonir. Hún byrjaði í meira en 80 prósentum, eins og sjá má á myndinni, en fór langt niður fyrir 30 prósent í hruninu, svo langt að henni var ekki sætt lengur. Og svo eru það tvær síðustu ríkisstjórnir – eins og áður segir er liggur línan bratt niðurávið, alveg frá því strax eftir kosningar.
Er ástæða til að ætla að þetta verði öðruvísi með næstu ríkisstjórn? Hvað þarf til að ríkisstjórnir tapi ekki fylgi með þessum hætti?
