

Óhætt virðist að segja að Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður sé afkastamikill þegar kemur að lestri og lesi hratt en á Instagram birtir hann mynd af bókastafla sem hann segist hafa lesið á jólanótt en í honum eru 12 bækur. Það verður að teljast töluvert mikill lestur á ekki lengri tíma. Fær Hallgrímur nokkurt hrós fyrir þetta í athugasemdum.
Bækurnar eru þó mislangar en Hallgrímur lætur þess ekki getið hvort hann hafi gefið sér mikinn tíma til að ígrunda verkin meðan hann var að lesa þau.
Í bunkanum eru skáldsögurnar Ósmann eftir Joachim B. Schmidt, Vegur allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Allt sem við hefðum getað orðið eftir Sif Sigmarsdóttur, Frumbyrjur eftir Dag Hjartarson, Hringur Fiskimannsins eftir Helgu Maríu Bragadóttur, Emilía eftir Ragnar Jónasson og Mzungu eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora. Síðan voru í bunkanum smásagnasafnið Andrými eftir Eirík Jónsson, ljóðabókin Þyngsta frumefnið eftir Jón Kalman Stefánsson og myndasagan Njála hin skamma eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttir, sem byggir á Brennu-njálssögu, og loks fræðiritið Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson og ein erlend bók skáldsagan Flesh eftir ungversk-breska rithöfundinn David Szalay.
Þótt sumar þessara bóka séu ekki með miklum texta verður samt að teljast nokkuð vel af sér vikið að lesa svo margar bækur á ekki lengri tíma. Í athugasemdum er Hallgrími hrósað fyrir hraðann og afköstin, meðal annars af öðrum rithöfundi Sverri Norland en í annarri athugasemd er einfaldlega skrifað:
„Þetta kallast lestrarhestur.“
Í svari við þeirri athugasemd viðurkennir Hallgrímur þó að hafa ekki klárað Andrými og Emilíu þar sem hann hafi gefist upp á þeim en annars hafi þetta allt verið fínar bækur. Að lesa 10 bækur til enda á einni nóttu eru svo sem ekki mikið síðri afköst en að lesa 12.
View this post on Instagram