

Íslenskar konur en einnig sumir karlar kvarta reglulega yfir hversu léleg stefnumótamenningin á Íslandi sé og varla sé hægt að segja að til sé einhver slík menning hér á landi. Eins og DV greindi nýlega frá ræddu konur sín á milli í umræðuhópi á Facebook hvað stefnumótamenningin á Íslandi væri á lágu plani og þær gagnkynhneigðu í hópnum sögðu flesta karlmenn sem þær hittu á stefnumótum eða væru í slíkum samskiptum við hefðu lítinn áhuga á einhverjum skuldbindingum og nánd. Pistlahöfundur sem var eitt sinn í þessari stöðu leggur hins vegar til leið til að bæta stefnumótamenninguna sem fyrir hina oft á tíðum agalausu íslensku þjóð er vel hægt að kalla róttæka, að gera aðgerðaráætlun.
Íslenskar konur lýsa ömurlegri reynslu: „Á MEÐAN ÉG LÁ NAKIN VIÐ HLIÐINA Á HONUM“
Íris Guðmundsdóttir skrifar reglulega pistla á Facebook undir heitinu Sálarhornið. Í nýjasta pistlinum fjallar hún um stefnumótamenninguna á Íslandi. Hún segist í pistlinum hafa upplifað ýmislegt þegar hún var einhleyp og í fyrri samnböndum þar til hún hitti núverandi eiginmann sinn:
„Í byrjun árs 2007 náði ég vissum botni í sambandssögu minni. Ég hafði ratað í nokkur erfið og eitruð sambönd. Þau höfðu yfirleitt orðið til allt of fljótt (eins og er oft raunin hér á Íslandi) og algjört markaleysi var alltaf á báða bóga. Svo voru það þessi skyndi stefnumót sem voru bara óþægileg og markalaus. Í lok árs 2007 hitti ég svo núverandi eiginmann minn.“
Írís segir að hún hafi verið búin að fá nóg af stefnumótum og í kjölfarið unnið í meðvirkni sinni og markaleysi annarra gagnvart henni. Í kjölfar sjálfsvinnunnar ákvað hún að gera breytingar á því hvernig hún nálgaðist stefnumót við karlmenn:
„Í kjölfarið setti ég upp aðgerðaráætlun fyrir stefnumótamál mín, sem ég hrinti strax í framkvæmd vorið 2007. Þegar menn gáfu mér undir fótinn og vildu stefnumót og ef mér leist vel á viðkomandi, þá sagði ég einfaldlega: „Ég er tilbúin að hitta þig þrisvar í viku á stefnumótum utan heimilis beggja til að kynnast þér betur.“
Íris segir að viðbrögð margra hafi verið að hlæja og segja henni að láta ekki svona, hún væri prímadonna og fleira í þeim dúr:
„Það sem ég áttaði mig á þarna, var að þeir einstaklingar sem þetta sögðu höfðu í raun engan raunverulegan áhuga á að kynnast mér eða tengjast. Ég áttaði mig líka á að fyrst þeir virtu ekki þessi mörk þá myndu þeir ekki heldur virða önnur mörk sem ég myndi setja í framtíðinni. Þeir voru á eftir einhverju öðru en að mynda raunveruleg tengsl.“
Hún segist þá hafa farið að átta sig á vandanum, markaleysi á báða bóga og áður hefði hún sjálf snarlega bakkað með þessa áætlun í kjölfar slíkra andmæla, en ekki í þetta sinn.
Íris segir suma þá karlmenn sem í fyrstu hafi virt áætlunina hafa fljótlega hætt að virða þau mörk sem hún setti með henni:
„Aftur sá ég að þeir einstaklingar myndu ekki virða mörk og höfðu ekki raunverulegan áhuga á raunverulegum tengslum.“
Í nokkra mánuði rak engan karlmann á fjörur Írísar sem virti áætlunina og hennar mörk en haustið 2007 breyttist það þegar hún kynntist eiginmanni sínum:
„Hann sagði: „Frábært, er til í þetta“ og hann raunverulega stóð við það! Eftir fyrstu þrjú stefnumótin utan heimilis beggja spurði hann hvort hann mætti hringja í mig einu sinni á dag, bara stutt, í hádeginu og ég samþykkti það. Hann hringir ennþá í mig í hádeginu, núna 18 árum seinna.“
Þau hjónin byrjuðu á því að fylgja áætluninni, að hittast á stefnumótum utan heimils beggja þrisvar í viku, hófu síðan með tímanum sambúð og giftu sig svo á endanum.
Íris segir að með því að virða mörk hennar hafi eiginmaðurinn sýnt áhuga á að mynda raunveruleg tengsl og með þessu hafi þau bæði búið sér til nýja stefnumótamenningu sem þau búi enn að. Eiginmaðurinn hafi fyrst orðið hissa þegar hún lagði áætlunina til en svo orðið spenntur.
Íris segir að með slíkri aðgerðaáætlun eða annarri sem báðir aðilar séu sáttir við sé góð leið til að athuga hvort hinn aðilinn virði mörk, kynnast áður en farið sé lengra með sambandið og slík áætlun gagnist vel áfram þegar lengra sé komið inn í sambandið:
„Þið sem þetta lesið, konur og karlar, sem viljið búa til alvöru stefnumóta menningu, og í alvöru kynnast þeim sem áhugi ykkar snýr að, búið til ykkar eigin aðgerðaráætlun. Áætlun sem hentar ykkur báðum varðandi fjölda stefnumóta á viku t.d. Aðal atriðið er að virða þá áætlun sem báðir samþykkja og hafa stefnumótin fyrir utan heimili beggja, semsé alvöru stefnumót!“
Færslu Írisar í heild má sjá hér fyrir neðan en hún ræddi einnig stefnumótamenninguna á Íslandi, eða réttara sagt skort á henni, við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.