fbpx
Laugardagur 15.nóvember 2025
Fókus

Huldukonan, Fröken Dúlla og Frumbyrjur meðal annars á lista Benedikt

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 15. nóvember 2025 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í haustútgáfu Benedikts er fjölbreytt úrval skáldsagna, ljóðabóka, ævisögu og bóka fyrir þá sem hafa íslensku sem annað mál. 

Allt sem við hefðum getað orðið eftir Sif Sigmarsdóttur

Nýlendugata 22, kjallari. Þrjár konur. Ein íbúð. Áratugir skilja þær að. Leyndarmál leiðir þær saman.

Lilja Kristjánsdóttir, blaðamaður á Dagblaðinu, starfar með fólki sem er svo ungt að það heldur að Helmut Kohl sé nýjasti rakspírinn frá Prada og Nirvana sé hugarástand sem fólk öðlast eftir jóga tíma yfir súrdeigsbrauði með avocado.

Þegar Lilja fær veður af því að hún sé líklegt fórnarlamb niðurskurðar tekur við upplausn í lífi hennar. Hver er hún ef hún er ekki Lilja Kristjánsdóttir, blaðamaður hjá Dagblaðinu?

Þegar henni er falið að fjalla um nýútkomna bók um þýska gyðingakonu sem fluttist til Íslands eftir heimsstyrjöldina síðari vakna með henni grunsemdir um að ekki sé allt sem sýnist.

Lilja telur sig í þann veginn að svipta hulunni af stærsta bókmenntahneyksli Íslandssögunnar. En getur verið að mislyndi skjalavörðurinn á Landsbókasafninu sé að spila með hana?

Allt sem við hefðum getað orðið er að hluta byggð á lífshlaupi Anniear Leifs, fyrstu eiginkonu tónskáldsins Jóns Leifs. Annie lagði allt í sölurnar svo að fremsta tónskáld Íslendinga mætti blómstra. Hún komst hins vegar að því að maður uppsker ekki alltaf eins og maður sáir.

Frumbyrjur eftir Dag Hjartarson

Það er aðfangadagur og hjónin á Kölduhömrum búa sig undir jólahaldið. Handan áramóta eiga þau von á sínu fyrsta barni og spennan í kviðnum smitar andrúmsloftið. Snjórinn hleðst upp og vegurinn út úr firðinum hefur ekki enn verið ruddur. Þegar kýrin á bænum tekur sótt hrökkva dyr upp á gátt sem ekki verður lokað.

Frumbyrjur er margbrotin og nístandi saga um hversdagsleg kraftaverk og ástir sem rata ekki svo auðveldlega í orð.

Huldukonan eftir Fríðu Ísberg

Konurnar í Lohr fjölskyldunni skilja ekki að Sigvaldi þeirra, með alla sína augljósu mannkosti, hafi aldrei gengið út. Ennfremur fá þær ekki skilið þá fráleitu ákvörðun hans að gerast einsetumaður í eyðivík. Þær eru raunar hættar að hnýsast í hagi Sigvalda, því í hvert skipti verður augnaráð hans átakanlega tregafullt.

Dag einn birtist Sigvaldi á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku í fanginu og neitar að svara því hver sé móðir barnsins. Konurnar í fjölskyldunni hefja sína eigin rannsókn á málinu og smám saman hrannast sönnunargögnin upp: saga Lohr ættarinnar, þjóðsögurnar í Dýrleifarvík, leyndardómur um týnt barn og móður sem hvarf, undarlegir draumar, óvenjuleg hegðun Sigvalda og dulmagn hamranna í hlíðinni.

Vegur allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur

Haustið 1479 kemur kona norður yfir Kjöl og teymir hest undir gömlum manni. Skáldið Sveinn döggskór Þórðarson er kominn í Reynistaðarklaustur til að deyja. Þó ekki fyrr en hann hefur skrásett sannleikann um atburðina í Rifi, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson, hirðstjóra konungs á Íslandi. Vígið kveikti ófriðarbál innanlands og utan, og kona Björns, Ólöf ríka Loftsdóttir, hefndi bónda síns svo grimmilega að sögur hafa gengið um það allar götur síðan.

En hvað af því er satt og hvað er logið, og hverjum leyfist að segja söguna? Löngu síðar, á tímum samfélagsmiðla og örbylgjupizza, reynir sagnfræðingurinn Eyjólfur Úlfsson að endurheimta akademískan orðstír sinn eftir að hafa óvart eyðilagt ómetanlegt fornrit. Þær hrakfarir leiða hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann rekur sig eftir ólíkindalegri slóð handrita og miðaldaklæða í átt að sannleikanum um atburðina í Rifi.

Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram: riddarar og sjóræningjar, konungar, hirðstjórar og höfðingjar, en líka fólkið sem þjónaði þeim og reyndi að ávinna sér frelsi og frið á vægðarlausum upplausnartímum. Vegur allrar veraldar – skálkasaga – er sjálfstætt framhald Hamingju þessa heims – riddarasögu, sem kom út 2022 og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fröken Dúlla – Ævisaga Jóhönnu Knudsen eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Hún ólst upp á Akureyri, kaupmannsdóttir af ástríkri og samheldinni fjölskyldu. Um fermingu flutti hún til Reykjavíkur og fór að vinna á skrifstofu, eins og allar ungar stúlkur dreymdi um. Seinna lærði hún hjúkrun, því hún þráði að líkna hinum sjúku og vinna þjóð sinni gagn. Enn síðar gaf hún út tímarit og bjó til minjagripi með þurrkuðum blómum. Meðal ástvina sinna var hún alltaf kölluð Dúlla.

Í dag er nafn Jóhönnu Knudsen þó einkum þekkt vegna starfa hennar fyrir lögregluna á árum seinni heimsstyrjaldar – jafnvel alræmt. Rannsókn hennar á siðferðisástandinu í Reykjavík hefur verið kölluð umfangsmestu persónunjósnir Íslandssögunnar. Nærgöngular yfirheyrslur hennar yfir stúlkum sem grunaðar voru um samneyti við erlenda hermenn varpa dökkum skugga yfir minningu hennar.

Þessi bók segir sögu Jóhönnu frá því hún fæddist á Papósi í Lóni árið 1897 og þar til hún lést fyrir aldur fram árið 1950. Hver var Dúlla Knudsen og úr hvaða umhverfi spratt hún? Hvernig varð hún sú manneskja – og sú sögupersóna – sem hún varð?

Þyngsta frumefnið eftir Jón Kalman Stefánsson

Einn ástsælasti höfundur þjóðarinnar, Jón Kalman Stefánsson, sendir frá sér sína fimmtu ljóðabók. Umfjöllunarefnin eru víðfeðm: vísindin og guðdómurinn, ferðalög og hið djöfullega, samtíminn og sorgin; sem er þyngsta frumefnið ásamt söknuðinum.

Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur

Anna Rós kveður sér hljóðs með vísindalegri nákvæmni í sinni fyrstu ljóðabók. Árið 2025 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör.

Vísindakonan tekur vinnuna aldrei með sér heim / getur ekkert að því gert að sum hús / eru í eðli sínu tilraunastofur / þakrenna dropamælir / þröskuldur loftvog / gluggi smásjá / glerskápur jarðskjálftamælir.

Mara kemur í heimsókn eftir Natöshu S.

Hér er lýst heimkomu til Rússlands eftir langa fjarveru, en um leið á sér stað uppgjör við pólitískt og menningarlegt ástand. Natasha S. er íslenskur rithöfundur af rússneskum uppruna sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir ljóð sín og greinar. Fyrsta bók hennar, Máltaka á stríðstímum, færði henni Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Síðasta sumar lífsins eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur

Síðasta sumar lífsins er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Bókin hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2025.

Eat Frozen Sh*t eftir Brynju Hjálmsdóttur, myndlýsir Elín Elísabet Einarsdóttir

Frasabók með blótsyrðum fyrir fólk af erlendum uppruna sem vill læra að tala kjarnyrta íslensku. Þessi handbók er uppfull af dónalegum blótsyrðum, fyndnum klúryrðum, töff slangri, minna töff slangri, helling af óþarfa upplýsingum og heilmörgum hljóðdæmum.

Vikuspá: Sögur á einföldu máli eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur

Vikuspá geymir áttatíu og sex sögur á einföldu máli. Í stuttum og aðgengilegum frásögnum eru ólíkar atvinnugreinar kynntar. Hér er leikið með þá íslensku þjóðtrú að það geti haft áhrif á hvað barn taki sér fyrir hendur í framtíðinni á hvaða vikudegi það fæðist Sögupersónur takast á við þrautir og sigra í leit að hinum gullna meðalveg, milli frama og lukku. Sögurnar varpa ljósi á fegurð mannflórunnar og mikilvægi þess að þroskast og þróast í takt við tímann.

Vikuspá er sjálfstætt framhald af Árstíðum og Dagatali sem hafa notið mikilla vinsælda og verið kenndar víða á Íslandi sem og erlendis. Textarnir eru fjölbreyttir hvað varðar efnistök, form og stíl og flokkaðir eftir getustigi í samráði við sérfræðinga. Þar að auki fylgir viðauki með margskonar fróðleik um land og þjóð. Bókin nýtist jafnt við kennslu sem og til yndislestrar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kim Kardashian fjarlægði myndir af Harry og Meghan

Kim Kardashian fjarlægði myndir af Harry og Meghan
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stórleikari óþekkjanlegur á setti – Umdeildur sökum ásakana um framhjáhald, einelti og áreitni

Stórleikari óþekkjanlegur á setti – Umdeildur sökum ásakana um framhjáhald, einelti og áreitni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar hvernig henni tókst að léttast um 13,6 kíló á tæpum tveimur mánuðum

Afhjúpar hvernig henni tókst að léttast um 13,6 kíló á tæpum tveimur mánuðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Brjáluð breyting á klámdrottningunni – Sjáðu myndbandið

Brjáluð breyting á klámdrottningunni – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Söngkonan nær óþekkjanleg eftir dramatískt þyngdartap á Mounjaro

Söngkonan nær óþekkjanleg eftir dramatískt þyngdartap á Mounjaro
Fókus
Fyrir 4 dögum

Allt breyttist hjá Dagbjörtu þann 2. desember – „Líf mitt hefur aldrei verið eins“

Allt breyttist hjá Dagbjörtu þann 2. desember – „Líf mitt hefur aldrei verið eins“