
Fyrrverandi eigandi Newcastle United, Mike Ashley, er sagður áhugasamur um að kaupa Sheffield Wednesday, sem er í miklum fjárhagserfiðleikum.
Félagið fór í gjaldþrotaskipti fyrir tíu dögum og fékk í kjölfarið 12 stiga refsingu, sem þýðir að liðið er nú neðst í ensku B-deildinni, 13 stigum frá öruggu sæti.
Samkvæmt The Guardian er Ashley, sem er metinn á um 3,25 milljarða punda, orðinn líklegastur til að kaupa félagið. Hann hefur þegar sýnt fram á fjármagn upp á 50 milljónir punda og er sagður undirbúa boð upp á 10 milljónir punda.
Sheffield Wednesday vonast til að finna nýjan eiganda fyrir félagaskiptagluggann í janúar.
Ashley, sem seldi Newcastle til sádiarabíska ríkisins 2021, hefur áður sýnt áhuga á að kaupa félög í fjárhagserfiðleikum, þar á meðal Derby og Reading.