

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir að margir leikir í ensku úrvalsdeildinni í dag minni á það þegar Stoke City var undir stjórn Tony Pulis þar sem föst leikatriði skiptu öllu máli.
Samkvæmt tölfræði hafa nær 19 prósent allra marka í úrvalsdeildinni á þessu tímabili komið eftir hornspyrnur, sem er um fimm prósentustigum meira en nokkru sinni áður.
Guardiola viðurkennir að slíkt skipti miklu máli í nútímafótbolta, en hann ætlar þó ekki að breyta sínum leikstíl.
„Það er satt nú eru mörg lið farin að nýta hvert innkast eins og horn,“ sagði Guardiola.
„Við fundum fyrir því gegn Brentford, og sáum sama dæmi þegar Brentford mætti Liverpool, þeir settu tíu menn í teiginn við hvert innkast. Nú eru föst leikatriði raunveruleg ógn.“
Guardiola sagði að þetta væri þó ekkert nýtt. „Ég man þegar Sean Dyche stýrði Burnley, þeir voru frábærir í löngum boltum og seinni boltum. Sama með Sam Allardyce. Og áður en ég kom hingað, var það Stoke City þið munið þegar þeir köstuðu innköstum eins og hornspyrnum. Þá voru þeir undantekningin, en nú gera það flest lið.“
City hefur hingað til skorað öll sín mörk úr opnum leik, og Guardiola segir liðið halda áfram að leggja áherslu á sköpun og spil ekki einvörðungu föst leikatriði.