fbpx
Mánudagur 27.október 2025
Fókus

Þórdís Dröfn hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 27. október 2025 16:54

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Þórdís Dröfn. Mynd: Reykjavíkurborg.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Dröfn Andrésdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2025. Hún hlýtur verðlaunin fyrir ljóðahandritið Síðasta sumar lífsins. Benedikt útgáfa gefur út. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri athenti Þórdísi Dröfn verðlaunin í dag, mánudaginn 27. október 2025, við hátíðlega athöfn í Höfða. 

Alls bárust 103 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár. Aldrei hafa borist fleiri handrit en í ár var fyrirkomulag með þeim hætti í fyrsta sinn að handrit voru send inn rafrænt á vef Reykjavíkurborgar og nafn höfundar dulkóðað. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum sem hafa verið veitt frá árinu 1994 en árið 2004 var tekin upp sú nýbreytni að veita eingöngu verðlaun fyrir ljóðahandrit. Upphæð verðlaunafjár nemur einni milljón króna. Bókin kemur út hjá bókaútgáfunni Benedikt.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir er fædd árið 1997. Hún lauk BA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands og MA prófi í málvísindum frá Háskólanum í Árósum. Þórdís Dröfn starfar nú sem aðjúnkt við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, en hún gegndi áður stöðu forseta Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Síðasta sumar lífsins er hennar fyrsta ljóðabók.

Í dómnefnd sátu Þorvaldur Sigurbjörn Helgason formaður, Soffía Bjarnadóttir og Brynhildur Björnsdóttir.

Umsögn dómnefndar:

Sigurhandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2025, Síðasta sumar lífsins, er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar, allt frá þekktu minni þar sem fiskur verður táknmynd Guðs, yfir til kirsuberjasteina í öskubakka.

Umfjöllunarefni ljóðanna í Síðasta sumar lífsins eru þau sömu og skáld hafa fengist við frá örófi alda; ástin, dauðinn, náttúran, svo eitthvað sé nefnt, en höfundur tekst á við þessi þemu af tilfinningalegri dýpt, næmni og frumleika. Um ljóðin blása tregafullir vindar sem vekja upp hugrenningatengsl við nostalgíu, endalok ástar og þá sorg sem fylgir því að fullorðnast og skilja við heim bernskunnar. Einnig finnur lesandinn fyrir mýkt og fegurð í hinu smáa sem opnar á stærri spurningar um tímann sem bæði sleikir og sýkir sárin, eins og segir í textanum. Þótt söguheimur verksins sé afmarkaður þá vísa ljóðin út fyrir sig í átt að stærri veruleika með tilvísunum í náttúruhamfarir, átök og loftslagsbreytingar. Þrátt fyrir að frásögn verksins sé ívið kyrrlát þá liggur í gegnum ljóðin undiralda sorgar og við sjóndeildarhringinn vofir óútskýrð hætta sem ógnar hinu eilífa sumri eyjunnar. Þannig verður verkið að eins konar myndlíkingu fyrir líf nútímamannsins á Vesturlöndum, líf sem þrátt fyrir að hafa aldrei verið þægilegra og friðsælla er á sama tíma markerað af djúpstæðum ótta og óveðursskýjum sem hrannast upp á himni. „Heima er hvar sem er“, segir í ljóðtextanum og hér hvílir söknuður eftir því sem er að líða, ekki því sem var, heldur því sem er að renna okkur úr greipum hér og nú og spurningar vakna um það hvað og hvar er heima. Síðasta sumar lífsins er þannig eins og friðsæl og ljúfsár landslagsmynd af logninu á undan storminum, rétt áður en allt breytist fyrir fullt og allt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Paradísa gefur út fyrstu plötuna sína: „Það er enginn að fara að sitja úti í horni þegar þetta er í gangi“

Paradísa gefur út fyrstu plötuna sína: „Það er enginn að fara að sitja úti í horni þegar þetta er í gangi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum kokkur í Buckingham-höll opinberar helsta vandamálið við Andrés

Fyrrum kokkur í Buckingham-höll opinberar helsta vandamálið við Andrés
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rýnt í skjáinn: Er Felix og Klara íslenskasta sjónvarpsþáttaröð allra tíma?

Rýnt í skjáinn: Er Felix og Klara íslenskasta sjónvarpsþáttaröð allra tíma?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Play pop-up markaður í Mosfellsbæ í dag

Play pop-up markaður í Mosfellsbæ í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Ásu Steinars kominn með nafn – „Þetta fór ekki eins og við höfðum planað“

Sonur Ásu Steinars kominn með nafn – „Þetta fór ekki eins og við höfðum planað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lífið snerist á hvolf þegar hún hryggbrotnaði – „Mér var sagt að englar hefðu vakað yfir mér og ég trúi því“

Lífið snerist á hvolf þegar hún hryggbrotnaði – „Mér var sagt að englar hefðu vakað yfir mér og ég trúi því“