
Líf Paradísu snerist á hvolf þegar hún hryggbrotnaði árið 2022. Það hafði gríðarleg áhrif á hana, ekki bara líkamleg heldur einnig andleg en Paradísu fannst fótunum kippt undan henni. Hún gat ekki lengur sinnt starfi sínu né stundað áhugamál sín, hún var týnd þar til hún fann nýjan tilgang; að semja tónlist. Hún tók upp listamannanafnið Paradísa og hefur gefið út þrjú lög og er plata væntanleg þann 8. nóvember næstkomandi.
Paradísa ræðir einnig um þátttöku sína í fegurðarsamkeppnum í þættinum – og er nánar fjallað um hér að neðan – en hún segist hafa bæði góða og slæma reynslu af slíkum keppnum, hún hafi til dæmis séð og upplifað alls konar óviðeigandi hegðun gagnvart saklausum ungum keppendum.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Paradísa gaf út lagið ICON í september en eins og öll hennar lög þá er lagið innblásið af hennar lífi og reynslu. Hún segir lagið vera fyrir „öll þau sem hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi eða líða eins og þau séu ekki nóg, eins og þau séu öðruvísi og það sé neikvætt.“
Í laginu segir Paradísa: „Take off that silly crown, cause you look like a clown.“
„Þetta er myndlíking fyrir alla sem að telja sig vera á hærri hesti en aðrir. Og þetta tíðkast mjög inni í þessum fegurðarsamkeppnaheimi,“ segir hún.
Paradísa hefur tekið þátt í sex fegurðarsamkeppnum, þremur hér heima og þremur erlendis.
„Í mörgum keppnum er þetta voðalega uppbyggjandi ferli og mjög skemmtilegt, en á sama tíma hef ég – í fleiri en færri skipti – upplifað og séð mikið af skuggalegum hlutum,“ segir hún og heldur áfram:
„Það sem þetta snýst um er samkeppni, en þeir vilja náttúrulega reyna að mála þetta upp sem uppbyggingu. Ég byrjaði frekar seint til dæmis að taka þátt, ég held ég hafi verið 26 ára þegar ég byrjaði og ég hefði ekki viljað byrja fyrr því mér fannst ég varla vera með þroska til að ganga í gegnum allt sem ég hef gengið í gegnum núna. Maður þarf að vera tilbúin að láta dæma sig og þú ert að berskjalda þig fyrir alls konar gagnrýni.
Þetta lítur rosalega glamorous og flott út að utan. En ég hef orðið vitni að alls konar ofbeldi af hálfu stjórnenda og af hálfu keppenda líka, en aðallega stjórnenda, þar sem þú í rauninni gengur bara um á glerbrotum því þú þorir ekki að gera neitt eða valda þeim einhverri reiði.“

Paradísa segir að hún hafi séð og upplifað alls konar „óviðeigandi hegðun gagnvart saklausum, ungum keppendum sem kannski hafa aldrei tekið þátt í svona áður.“
„Ég hef séð þær vera niðurlægðar fyrir framan allan hópinn eða fjölskyldu sína af hálfu stjórnenda, bara fyrir að vita ekki einhver smáatriði sem þær hefðu engan veginn getað vitað. Það sýnir manni bara hvað maður er mikil strengjabrúða í kringum þetta kerfi og ef þú gerir eitthvað sem er ekki vel liðið þá áttu bara ekki séns lengur.“
Paradísa ákvað að slíta sig frá þessum bransa í fyrra og einbeita sér að tónlistinni. Hún hefur gefið út þrjú lög, sem má hlusta á Spotify, en platan hennar STARGAZER kemur út þann 8. nóvember næstkomandi.
Fylgdu Paradísu á Instagram og hlustaðu á lögin hennar á Spotify og YouTube.
Hún ræðir nánar um fegurðarsamkeppnir og sína reynslu í þættinum sem má hlusta á hér. Hún ræðir einnig um tónlistina og hvernig líf hennar tók stakkaskiptum árið 2022 þegar hún hryggbrotnaði.
Sjá einnig: Lífið snerist á hvolf þegar hún hryggbrotnaði – „Mér var sagt að englar hefðu vakað yfir mér og ég trúi því“