Marcus Rashford virðist kenna óstöðugu umhverfi Manchester United um að hann hafi ekki náð að spila af stöðugleika á ferlinum hingað til.
Framherjinn gekk í sumar til liðs við Barcelona á árs láni sem hægt er að gera að varanlegum samningi, og hefur hann byrjað vel á Spáni. Rashford, sem er 27 ára, hefur skorað þrjú mörk og lagt upp fimm í fyrstu tíu leikjunum sínum með Katalóníuliðinu.
Frammistaða hans hefur tryggt honum áframhaldandi sæti í enska landsliðshópi Thomas Tuchels í aðdraganda HM á næsta ári. Fyrir leik Englands gegn Lettlandi á þriðjudag var Rashford spurður út í orð Tuchels, sem sagði að stöðugleiki væri það eina sem vantaði upp á til að hann yrði leikmaður í heimsklassa.
„Ég er sammála honum,“ sagði Rashford í viðtali við ITV.
„Stöðugleiki er gríðarlega mikilvægur þáttur. Ég hef verið í óstöðugu umhverfi mjög lengi og það gerir það erfiðara að sýna stöðugleika. En það er eitthvað sem ég vil bæta í leik mínum.“
Rashford bætti við að hann vilji ná sínu besta ekki stundum, heldur eins oft og hægt er. „Til að vera stöðugur, ekki bara í íþróttum heldur í lífinu almennt, þarftu stöðugleika í kringum þig í æfingum og vinnubrögðum. Á mínum ferli hafa orðið mjög miklar breytingar, en ég lít fram á veginn og vil bæta þetta. Þegar ég er á toppnum nýt ég fótboltans mest.“