Erlendur ferðamaður sem varð strandaglópur á Íslandi vegna falls Play segir peningana vera á þrotum. Hann þurfi jafn vel að sofa í bílnum sínum á meðan hann bíður eftir flugi heim.
Eins og fram hefur komið í fréttum hafa þúsundir farþegar orðið strandaglópar vegna falls flugfélagsins Play þann 29. september síðastliðinn. Bæði Íslendingar sem festust erlendis og erlendir ferðamenn hérna á Íslandi.
Auk þess að missa farið sitt heim þá sáu þeir flugferðir margfaldast í verði á nokkrum klukkutímum og auk þess gat verið erfitt að finna flug heim. Ásóknin hefur verið mikil og strandaglópar hafa oft þurft að lengja ferðir sínar með tilheyrandi kostnaði fyrir gistingu, mat og fleira.
Ferðamaðurinn greinir frá raunum sínum í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit. En þó að nærri tvær vikur séu liðnar frá falli Play þá hafði hann ekki frétt af því fyrr en í morgun.
„Ég er einn af þeim fjölmörgu ferðamönnum sem hafa orðið fyrir áhrifum þess að flugfélagið Play varð gjaldþrota. Enginn tölvupóstur eða tilkynning frá þeim og ég var fastur á flugvellinum í morgun,“ segir ferðamaðurinn.
Leigði hann bíl og gat notað síðustu klukkutímana í gistingunni sinni. En svo eru góð ráð dýr.
„Peningarnir mínir eru á þrotum,“ segir hann. „Svo ég er að hugsa um að sofa í bílnum mínum fram á mánudag þegar ég gat fengið flugmiða heim.“
Segist hann hafa séð að það séu tjaldstæði í boði en bílaleigubíllinn sem hann hafði efni á sé mjög lélegur og hann sé ekki viss um að hann komist á þau. Þá eigi hann ekki fyrir miklu.
„Ég er mjög þunglyndur núna og þigg öll ráð segir hann.“ Hvort það sé í lagi að leggja einhvers staðar og sofa í bílnum.
Hefur færslan fengið mikil viðbrögð. Er honum meðal annars ráðlagt að hægt sé að sofa á bílastæði við tjaldstæði en að það geti orðið mjög kalt á þessum árstíma. Eða þá að sofa á flugvellinum.
„Ég hata að Play hafi gert fólki þetta,“ segir einn. „Ef þú ætlar að skilja farþegana þína eftir sem strandaglópa þá skaltu alla vega í fjandanum láta þá vita.“