fbpx
Laugardagur 11.október 2025
Fókus

„Ímyndunarafl hans og sköpunargleði var mér mikil hvatning“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 11. október 2025 11:00

Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðdáendur glæpasagnahöfundarins Stefáns Mána geta farið að láta sig hlakka til, því nýjasta bók hans, Hin helga kvöl, kemur út 23. október. Bókin er tuttugasta og níunda bók Stefáns Mána, sem gaf út sína fyrstu bók árið 1996, en hann hefur sent frá sér barnabók og ungmennabækur, auk annarra bóka.

Stefán Máni hefur fjórum sinnum hlotið íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, fyrir Skipið (2007), Húsið (2013), Grimmd (2014) og Dauðinn einn var vitni (2025). Horfnar (2022), Hungur (2023) og Borg hinna dauðu (2024) hlutu einnig allar tilnefningu til Blóðdropans.

Svartur á leik var tilnefnd til Glerlykilsins árið 2005 og sjö árum síðar kom samnefnd kvikmynd út, byggð á bókinni, í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Árið 2006 var Skipið tilnefnd til sömu verðlauna. Bækur Stefáns Mána hafa verið þýddar á mörg tungumál.

Bækur Stefáns Mána fjalla jafnan um skuggahliðar mannlífsins og undirheimanna, sem fæst okkar upplifa, með karakterinn Hörð Grímsson fremstan í flokki, en um hann eru 13 bækur Stefáns Mána.

Stefán Máni er einnig ötull lesandi, og er lesandi DV.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Ég er með tvær bækur í gangi um þessar mundir. Á morgnana glugga ég í ljóðabókina You get so alone at times that it just makes sense eftir Charles Bukowski. Ein af hans allra bestu og dýpstu ljóðabókum. Hann átti langan og skrautlegan feril en ég er einmitt hrifnastur af seinni tíma ljóðunum hans. Á kvöldin er ég síðan að lesa skáldsöguna Hvíta tígurinn eftir Aravind Adiga. Ég er stórhrifinn af þessari indversku samtímasögu sem ég er að lesa í þriðja sinn. Vel stíluð, vel skrifuð og mjög fræðandi og áhrifamikil.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

Ég er tiltölulega nýbúinn að lesa Innstu myrkur eftir Joseph Conrad og Útlendinginn eftir Camus. Ég hafði lesið báðar þessar bækur oftar en einu sinni áður og Innstu myrkur hef ég einnig lesið á frummálinu, ensku. Innstu myrkur/Heart of Darkness er ein allra besta bók sem hefur verið skrifuð. Tungumálið er kynngimagnað og sagan virkilega áhugaverð og algjörlega tímalaus.

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Ég gefst oft upp á bókum en ég hreinlega man ekki hvaða bók það var síðast; eitthvað á Kyndlinum, eflaust. Hugsanlega gömul noir glæpasaga. Bókin sem ég man eftir að hafa gefist upp á fyrir ekki svo margt löngu var Indriði miðill eftir Þórberg Þórðarson. Upptalningarþráhyggjan í ÞÞ var alveg að gera mig gráhærðan.

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Í stólnum mínum í stofunni heima, og besti tíminn er einhver rólegur tími eins og morgunn ef ég er einn á fótum eða á kvöldin þegar ég er einmitt líka einn eftir á fótum. Ég þarf frið og ró til þess að geta einbeitt mér að lestri. Og að vera einbeittur að lesa góða bók er besta hugleiðsla sem ég veit. Ekkert toppar það.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálfur sem barn?

Það var hann Stúfur sem vildi ekki borða grautinn sinn. Ég kunni þá bók utan að og kann eflaust enn. Nokkuð góð bók. Tunglið kemur til dæmis við sögu.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Ég er ekki að bíða eftir neinni bók einmitt núna en ég hlakka til að lesa uppáhalds barnabækurnar mínar fyrir dóttur mína sem er á öðru ári og ekki byrjuð að tala. Ég á tvö eldri börn og fyrir þau las ég bækurnar um Einar Áskel og Lúlla, sem er einnig sænskur. Greppikló var líka vinsæl. Ég er alveg til í að lesa þessar bækur milljón sinnum í viðbót. Sérstaklega Góða nótt, Einar Áskell, sem er meistaraverk. Ég les hana líka fjandi vel.

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Ég er einmitt núna að lesa uppáhaldsbækur enn og aftur. Fyrir utan þær sem ég hef þegar nefnt rata bækur eins og Pan eftir Knut Hamsun og Kristnihald undir jökli eftir Laxness reglulega á „náttborðið. Ég hef náttborð innan sviga vegna þess að ég les ekki í rúminu. Bækurnar sem ég er að lesa eru því ekki á náttborði heldur á gamalli kistu sem ég keypti í Fríðu frænku á síðustu öld.  Bækur eftir Gyrði Elíasson hafa oft ratað oftar en einu sinni á kistulokið. Sama má segja um verk Charles Bukowski; ljóð, smásögur og skáldsögur. 

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Knut Hamsun, Bukowski og Gyrðir Elíasson eru menn sem ég les fleiri en eina bók eftir, og oftar en einu sinni. Jafnvel margoft. Ég var að tala um barnabækur áðan og þess vegna kemur Astrid Lindgren núna upp í hugann. Hún er alveg mögnuð, bæði í persónusköpun og að búa til sögur sem lifa að eilífu.

Hvaðabók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Charles Bukowski hafði gríðarleg áhrif á mig sem stílisti, þegar ég var að lesa hann fyrst rúmlega tvítugur og að byrja að skrifa. Hann skrifar mjög hreint og beint og segir það sem hann hugsar og meinar. Engar dúllur eða stælar. Þetta reyndi ég að temja mér. Og reyni eflaust enn. Ég las líka mikið eftir Stephen King sem barn og unglingur, ímyndunarafl hans og sköpunargleði var mér mikil hvatning og gerði kannski það að verkum að mig langaði að skrifa. En í seinni tíð hafa bækur hans valdið mér vonbrigðum.

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

Ætli ég nefni ekki tvær, Innstu myrkur og svo Hvíta tígurinn sem ég er að lesa núna. Innstu myrkur er algjör veisla fyrir hugann og sálina; dimm og hættuleg bók, mjög hressandi og einnig hrollvekjandi. Hvíti tígurinn er mun auðveldari lesning en er einnig dimm og hættuleg. Ég vil ekki segja of mikið en það verður enginn svikinn af því að dýfa sér aðeins í það mengaða Ganges-fljót sem Hvíti tígurinn er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjaðrafok og fordæmingar út af umdeildri grínhátíð – „Hvernig dirfist þú að fara á þennan stað?“

Fjaðrafok og fordæmingar út af umdeildri grínhátíð – „Hvernig dirfist þú að fara á þennan stað?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eiríkur Hauks endurgerir Borgarinn

Eiríkur Hauks endurgerir Borgarinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nóg að gera í svefnherberginu eftir Ozempic en hvimleið aukaverkun eyðileggur fjörið

Nóg að gera í svefnherberginu eftir Ozempic en hvimleið aukaverkun eyðileggur fjörið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Dan segir líklegt að geimverur séu að koma bráðum til jarðar – Birtir grunsamleg svör ChatGPT

Gunnar Dan segir líklegt að geimverur séu að koma bráðum til jarðar – Birtir grunsamleg svör ChatGPT
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýja kærasta Keith Urban sögð vera ungi gítarleikarinn – Faðir hennar gat ekki neitað orðrómnum

Nýja kærasta Keith Urban sögð vera ungi gítarleikarinn – Faðir hennar gat ekki neitað orðrómnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stórleikarinn óþekkjanlegur á tökustað nýrrar kvikmyndar

Stórleikarinn óþekkjanlegur á tökustað nýrrar kvikmyndar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leikkonan brotnaði niður í dómsal – „Hann komst oft helvíti nálægt því að drepa mig“

Leikkonan brotnaði niður í dómsal – „Hann komst oft helvíti nálægt því að drepa mig“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum.“

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum.“