Landsamband eldri borgara fagnar framkominni þingsályktunartillögu Kolbrúnar Baldursdóttur og sex annarra stjórnarþingmanna um endurskoðun ökuskírteina eftir 60 ára aldurs. Ekki sé ásættanlegt að fólk á sjötugsaldri sé með skertan gildistíma.
Samkvæmt tillögunni er innviðaráðherra falið að endurskoða ákvæði umferðarlaga um endurnýjun ökuskírteina fólks sem er orðið 60 ára með það að markmiði að færa þau nær því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.
Í dag er almennur gildistími fullnaðarskírteinis 15 ár. Fyrir 60 ára fer gildistíminn niður í 10 ár, fyrir 65 ára niður í 5 ár, 70 ára niður í fjögur ár, 71 í þrjú ár, 72 ára í tvö ár og 80 niður í eitt ár.
Þetta þýðir að eldra fólk þarf reglulega að sækja um nýtt ökuskírteini og standa straum af kostnaði við læknisvottorði og öðru sem krafist er í ferlinu.
„Þessar reglur vekja spurningar um sanngirni og nauðsyn. Staðreyndin er sú að aldur einn og sér segir lítið til um aksturshæfni. Margir einstaklingar á sjötugs- og áttræðisaldri eru fullkomlega hæfir ökumenn, á hinn bóginn getur yngra fólk átt við heilsufarsvandamál að stríða sem hafa áhrif á aksturshæfni þess,“ segir í greinargerð með tillögunni sem Kolbrún leggur fram ásamt sex þingmönnum Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar.
Undir þetta tekur Landsamband eldri borgara (LEB) og segir löngu tímabært að breyta lögum til samræmis við nágrannalöndin. Í umsögn eru þingmenn hvattir til þess að samþykkja tillöguna á yfirstandandi þingi.
„LEB gerir athugasemd við að 60 ára fólk sé með skertan gildistíma og leggur til að miðað verði við 70 ára aldur,“ segir í umsögninni.