fbpx
Föstudagur 19.september 2025
Fréttir

Dívurnar Linda Pé og Margrét Jónasar tókust á fyrir dómi – „Bið þig um að fjarlægja strax“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 19. september 2025 10:14

Margrét R. Jónasdóttir og Linda Pé. Myndir/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 16. september síðastliðinn var kveðinn upp dómur við Héraðsdóm Reykjaness í máli sem förðunarfræðingurinn Margrét Ragna Jónasardóttir höfðaði gegn Lindu Pé, lífsþjálfa og fyrrverandi fegurðardrottningu, fyrir meinta óheimila notkun Lindu á myndskeiði af Margréti. Krafðist Margrét 679.148 króna af Lindu fyrir notkun á efninu inni á vef Lindu, Podcastið með Lindu Pé

Eins og nafnið ber með sér hefur Linda þar sent út hlaðvarpsþætti og aðgangur að þeim er seldur í gegnum vefsíðuna. Margrét hefur oft sminkað Lindu fyrir útsendingu, meðal annars fyrir einn af þeim þáttum sem hér er tilefni dómsmálsins, en þátturinn var tekinn upp í lok júní árið 2023. Er ekki ágreiningur um að þarna hafi konurnar átt samtal um að gert yrði myndband þar sem Margrét kæmi fram og var sú upptaka gerð. Átti myndbandið að sýna störf Margrétar sem sminku og jafnframt vera auglýsing fyrir starfsemi hennar.

Margrét fullyrðir hins vegar að myndskeiðið hefði aðeins átt að nota til útsendingar í eitt skipti. Sendi Margrét tölvupóst til Lindu í desember 2023 þar sem segir:

„Ég sá að þú settir myndskeið af okkur inn í prógrammið þitt. Þetta var eingöngu ætlað til í útsendingar í eitt skipti. Þetta á ekki að lifa áfram. Bið þig um að fjarlægja strax.“

Linda svaraði því til að Margrét hafi vitað að þetta væri einn tími í námskeiði hjá henni um sjálfsmynd og fegurð og hafi alltaf átt að fara inn í prógrammið:

„Útsending í eitt skipti? Veit ekki alveg hvað þú átt við með því, þetta er upptaka sem fer á innri vef prógrammsins hjá mér, og þú samþykktir að taka þátt í þessu með mér, fórst meira að segja yfir textann um þig, sem er fyrir neðan myndbandið ásamt upplýsingum um þig ef konurnar vildu bóka tíma hjá þér.“

Margrét sagðist hafa „sjokkerast“ er hún varð vör við myndbandið á vef Lindu. Eðlilegra hefði eða semja um að setja myndbandið inn og hversu lengi það ætti að lifa í prógramminu.

Í málatilbúnaði sínum segir Margrét að upptakan hafi átt að birtast í „Story“ á samfélagsmiðlum og aðeins að vera aðgengileg í 24 klukkustundir. Ekki hafi verið samið um að efnið yrði hluti af námskeiðum Lindu.

Gaf út feitan reikning

Myndbandið sem deilt er um liggur ekki fyrir í gögnum málsins, né liggur fyrir staðfesting þess hvort eða hvenær upptakan hafi verið tekin út. Margrét bar fyrir dómi að hefði upptakan verið tekin út hefði málið ekki komið fyrir dóm. Linda bar fyrir dómi að upptakan hefði verið fjarlægð í byrjun apríl 2024.

En í byrjun júlí árið 2024 gaf Margrét út reikning á Lindu upp á 679.148 kr. með virðisaukaskatti. Í lýsingu með reikningum segir að rukkað sé fyrir notkun á myndefni í 12 mánuði, 1.500 kr. á dag. Linda neitaði að borga reikninginn og Margrét stefndi henni þá fyrir dóm.

Fullyrðingar hafi ekki stoð í gögnum málsins

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að Margrét hafi sett það skilyrði fyrir upptökunni að efnið mætti ekki nota í prógrammi Lindu. Einnig kom fram í málatilbúnaði Margrétar að upptakan hefði aðeins átt að vera aðgengileg í sólarhring. Segir dómari að gögn málsins leiði þetta ekki í ljós. Í niðurstöðunni segir:

„Að því leyti sem ágreiningur stendur um það munnlega samkomulag sem komst á samkvæmt framangreindu á milli Margrétar og Lindu eru þær tvær til frásagnar. Ekki
liggja fyrir nein samtímagögn í málinu og eingöngu er við tölvupósta að styðjast á milli þeirra frá desember 2023. Af þeim samskiptum verður ekki ráðið að upptakan hafi átt að birtast á öðrum vettvangi en í „prógrammi Lindu“, s.s. á einhverjum samfélagsmiðli eða í „streymi“ eins og borið var við af hálfu stefnanda við aðalmeðferð málsins.

Um framangreint er sérstaklega til þess að líta að Margrét getur þess í tölvupóstunum að hafa séð upptökuna á prógrammi Lindu sem hafi eingöngu átt að vera til
útsendingar í eitt skipti. „Eðlilegt að semja um að setja inn hversu lengi þetta á að lifa inni í prógramminu.“ Verður því að hafna því sem byggt er á, að Margrét hafi með
skýrum hætti tekið fram að myndefnið mætti ekki nota í þætti Lindu. Þá er ekki hægt að fallast á það sem fram kom af hálfu stefnanda við aðalmeðferð málsins að upptakan hafi aðeins átt að vera aðgengileg í 24 klst., þ.e. sólarhring. Fær sú fullyrðing enga stoð í gögnum málsins og er í mótsögn við þá málsástæðu stefnanda að ekkert munnlegt
samþykki hafi verið gefið til notkunar á myndefninu í þætti Lindu.“

Slettist upp á vinskapinn

Í dómnum kemur fram að Margrét og Linda hafi deilt um fleiri atriði sem ekki koma málinu við og eru þau samskipti ekki rakin. En það segir að fjárkrafan virðist sett fram eftir að snurða hljóp á þráðinn í vinskap kvennanna.

Einnig segir að fjárkrafan sé mjög seint komin fram, þ.e. í júlí árið 2024. Eðlilegra hefði verið að leggja fram kröfuna um það leyti sem Margrét varð vör við myndbandið af sér í efni Lindu, en það var í desember 2023. „Stefnandi getur ekki látið hjá líða að bíða fram til júlí 2024 að setja fram fjárkröfu í nafni atvinnurekstrar hafi stefnda ekki áður mátt vera fjárkrafan ljós eins og hér stendur á.“

Niðurstaðan er sú að Linda Pé er sýknuð af þessari fjárkröfu Margrétar R. Jónasar. Margrét þarf auk þess að greiða henni rúmlega 1,1 milljón króna í málskostnað.

Dóminn má lesa hér.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt