Joseph Maldonado -Passage, sem er betur þekktur sem Joe Exotic eða „Tígrisdýrakonungurinn“, hefur grátbeðið Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að náða sig. Joe afplánar nú 21 árs fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir að eyna að ráða leigumorðingja til að myrða fjandamann sinn, Carole Baskin. Ástæðan sé sú að Joe segista vera að glíma við krabbamein og geti ekki tórað lengi á bak við lás og slá. „Ég þrauka ekki fimm ár í viðbót hérna,“ segir Joe í viðtali við New York Post.
Saga Joe, sem er 62 ára gamall, var sögð í heimildarmyndaþáttunum Tiger King sem slógu í gegn um alla heimsbyggðina á Netflix árið 2020. Hélt hann úti litlum dýragarði þar sem, eins og nafn þáttarins gefur til kynna, mátti finna tígrisdýr sem og fjölmargar aðrar dýrategundir. Áðurnefnd Carole Baskin rak skýli fyrir stór kattardýr og hafði gagnrýnt Joe harðlega fyrir meinta illa meðferð hans á tígrisdýrunum sem hann hélt. Ákvað Joe í kjölfarið að freista þess að koma Baskin fyrir kattarnef.
Eins og áður segir vöktu þættirnir gríðarlega athygli og sakamálið gegn Joe ekki síður. Hóf hann afplánun dómsins árið 2021 og á því strangt til tekið 17 ár eftir. Hegði Joe sér hins vegar vel innan veggja fangelsisins getur hann óskað eftir reynslulausn í fyrsta lagi eftir 5 ár, það er að segja í október árið 2030.
„Og það er þess vegna sem ég grátbið Trump forseta um miskunn. Með krabbameinið sem ég glími við, leyfið mér frekar að reyna að finna einhverja læknismeðferð í staðinn fyrir að skattborgar séu að borga fyrir einhverja draslmeðferð. Ég er ekki að fara að þrauka svo lengi, ég er að fara að deyja.“
Ýmislegt hefur á daga Joe drifið innan veggja fangelsisins. Þegar hann hlaut dóminn þunga slitnaði upp úr hjónabandi hans en hann fann síðan ástina aftur með samfanga sínum, Jorge Flores Maldonado. Eftir hálfs árs sambandinu gengu þeir svo í hjónaband í apríl á þessu ári.