Ný rannsókn gefur til kynna nokkuð óvænt tíðindi af eiginleika tungunnar í mannfólki. Niðurstöður hennar benda til að við skynjum lyktina fyrst í gegnum tunguna en ekki heilann eins og áður var talið. Það virðist því sem að í tungunni sé ekki einungis bragðskyn heldur líka lyktarskyn.
Fjallað er um málið í vefmiðlinum All that´s Interesting.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að lyktar- og bragðskyn séu nátengd á yfirborði tungunnar en ekki eingöngu í heilanum. Það þýðir í raun að hægt sé að finna lykt með tungunni eins og bragð.
Niðurstöðurnar þýða einnig að mögulega sé það fyrst með tungunni sem líkami okkar skynjar og greinir lykt nánar.
Fyrir rannsókninni fór líffræðingurinn Mehmet Hakan Ozdener sem starfar við rannsóknarstofnunina Monell Chemical Senses Center í Philadelphia í Bandaríkjunum. Hann segist hafa fengið hugmyndina að þessu rannsóknarefni eftir að 12 ára sonur hans spurði hvort snákar rækju út úr sér tunguna til að finna lykt.
Stutta svarið við spurningu drengsins er já. Snákar nota tunguna til að finna lykt og því virðumst við mannfólkið vera líkari snákum en við höfum hingað til haldið.
Ozdener segir að hann sé þó alls ekki að fullyrða að með því að opna munninn finni maður lykt. Rannsóknin geti aftur á móti skýrt hvernig lyktarsameindir hafa áhrif á bragðskyn og geti mögulega stuðlað að þróun bragðbætandi efna, sem byggjast á lykt, sem komið geti í staðinn fyrir salt, sykur, fitu og önnur óheilsusamleg efni sem ekki hafa síst verið notuð vegna bragðsins sem er af þeim.
Rannsóknin fór þannig fram að vísindamennirnir ræktuðu bragðfrumur líkt og þær sem er að finna í tungum manna og könnuðu hvernig þær brugðust við lykt. Í þessum bragðfrumum voru sameindir sem venjulega er að finna í þeim taugafrumum sem eru í nefgöngum fólks en hlutverk umræddra taugafruma er að finna lykt.
Í rannsókninni kom í ljós að bragðfrumurnar brugðust við lyktarsameindum á sama hátt og taugafrumurnar í nefgöngum fólks gera. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna samvirkni milli þessara fruma sem stuðli að því að lyktarskynið hafi áhrif á hvernig við skynjum bragð.
Aðrar rannsóknir vísindamanna hjá stofnuninni renna frekari stoðum undir þetta en þær hafa sýnt fram á að dæmi séu um að ein bragðfruma hafi viðtaka sem geti skynjað bæði bragð og lykt. Ozdener segir þá niðurstöðu hvata að frekari rannsóknum á því hvernig bragðskyn og lyktarskyn virka saman á tungum okkar mannfólksins.