Jónas vandar kórnum ekki kveðjurnar í gagnrýni á Vísi og segist helst vilja gleyma flutningnum.
Hann byrjar á því að gagnrýna íslenska kórmenningu.
„Kórinn er eini staðurinn þar sem miðaldra einstaklingar stíga fram og láta eins og þeir séu listamenn, án þess að fá greitt eða hljóta nokkra viðurkenningu. Þetta er líka eini staðurinn þar sem fólk getur tamið sér sektarkennd yfir því að hafa misst af æfingu vegna þess að það stakk af frá sjúkum ættingja. „Ég komst ekki á síðustu æfingu því pabbi fékk hjartaáfall.“ – „Já, en við æfðum nýja útsetningu á miðhlutanum í Á Sprengisandi. Forgangsröðun! Guðrún.“
Svo eru það kórferðalögin. Ódauðleg hefð þar sem hópur fullorðins fólks sefur á svefnpokadýnum í íþróttahúsum, drekkur vín í plastglösum og fær sér „einn lítinn“ sem verður að djúpum persónulegum harmleik um þrjúleytið. Alltaf hendir einhver í afsökunar-ræðu daginn eftir. Og ávallt verður einhver hrókur alls fagnaðar sem aðrir kórfélagar forðast næstu fjögur árin.“
Jónas segir að sönggleðin hafi verið áberandi á tónleikum, en einhver kórfélagi hefði mátt þegja og annar hefði mátt mæta oftar á æfingu. „Tæknilega séð var söngurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ segir hann.
„Almennt talað var kórinn, sem samanstóð af Söngfjelaginu og Kór Akraneskirkju, dálítið drafandi. Hið svokallaða staccato, þ.e. stuttar, slitnar nótur, var fremur loðið. Hin einkennandi snerpa í frægasta hluta verksins, O Fortuna, þar sem sungið er um fallvaltleika gæfunnar, var bara ekki til staðar. Það er ekki nóg að þruma eins hátt og mögulegt er, og vona að ærandi slagverk dugi til að lappa upp á það sem á vantar.
Ég set líka spurningamerki við kórstjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Hún var býsna ónákvæm. Bendingarnar hans minntu á geimfara sem er í mesta basli við að ráða við þyngdarleysi úti í geimi. Fyrir vikið var samspil píanistanna tveggja ekki alltaf nákvæmt. Og samspil kórs og hljómsveitar hefði mátt vera meitlaðra.
Af einhverjum ástæðum tók Kári Þormar við stjórninni í litlum hluta verksins. Hann var miklu hnitmiðaðri, sló taktinn af öryggi og fyrir vikið varð söngurinn flottari, en bara á þeim tímapunkti.“
Jónas segir að metnaðurinn sem var lagður í sviðsetningu hafi ekki dugað til. „Mér fannst þó dansinn, sem var saminn af Ásrúnu Magnúsdóttur, full hversdagslegur, eins og einkaflipp vinkvenna í næturklúbbi. Það má ekki gleyma því að textinn er úr gömlum handritum, og það vantaði einhverja tilvísun í forna tíma – annað en að vera um stund í munkakuflum. Í það heila virkuðu konurnar full meðvitaðar, og maður hafði á tilfinningunni að þær væru uppteknari af sjálfum sér fremur en að þær reyndu að láta dansinn lyfta undir stemninguna í tónlistinni. Þær virtust a.m.k. aldrei týna sér í verkinu,“ segir hann.
Gagnrýnandinn fór einnig hörðum orðum um einsönginn.
„Og þá loksins að einsöngvaranum sem var eins og gamalt gufuskip. Hrólfur Sæmundsson baritón var í veigamesta einsöngshlutverkinu, og hann var óttalega þunglamalegur. Það sem vakti þó mesta furðu var að hann var í óhrjálegum bol og einhverju sem maður gat ekki betur séð en að þetta væru náttbuxur úr Joe Boxer. Hvað var það eiginlega? Svo hélt hann á nótnabók, um leið og hann söng – og lék líka. Fyrir vikið var frammistaða hans alls ekki sannfærandi. Gat hann ekki lært rulluna sína utan að?“
Jónas segir að hinir einsöngvararnir hafi verið ágætir. „Benedikt Kristjánsson tenór og Herdís Anna Jónasdóttir voru bæði með sitt á hreinu, en þau voru í afar smáum hlutverkum og höfðu lítil áhrif á heildarmyndina,“ segir hann.
Að lokum segir gagnrýnandinn að „þrátt fyrir sýnilegan metnað og smitandi sönggleði, var fluntingur á Carmina Burana í þetta sinn fremur máttlaus.“