Héraðssaksóknari hefur ákært mann um fimmtugt fyrir brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum með því að hafa miðvikudaginn 17. janúar 2024 ekið bíl suður Suðurlandsveg, á leið niður Kambana, sviptur ökurétti og án nægjanlegrar tillitssemi og varúðar og án þess að hafa nægilegt hliðarbil á milli bíla.
Í ákærunni er hann sagður hafa keyrt vísvitandi utan í hlið bíls sem hafnaði utan vegar en ökumaður hans náði að aka aftur inn á akbrautina. Í kjölfarið sinnti ákærði ekki skyldum sínum við umferðaróhapp heldur keyrði á brott. Er hann sakaður um að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu hins ökumannsins í hættu.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands þann 8. maí síðastliðinn.