
Enska lögreglan hefur staðfest að Destiny Udogie, varnarmaður Tottenham, sé leikmaðurinn sem varð fyrir hótunum af hálfu knattspyrnuumboðsmanns, þar sem byssa kom við sögu.
Atvikið átti sér stað í Barnet í norðurhluta Lundúna þann 6. september þegar umboðsmaður sem Udogie hafði nýverið sagt skilið við veittist að honum og fjölskyludmeðlim. Á hann að vera ósáttur við að leikmaðurinn hafi slitið samstarfi þeirra.

Samkvæmt BBC og Telegraph var umboðsmaðurinn síðar handtekinn í Hertfordshire og yfirheyrður vegna gruns um vopnaburð, fjárkúgun og akstur án ökuskírteinis. Hann var síðar látinn laus gegn tryggingu en málið er enn til rannsóknar.
Í yfirlýsingu lögreglunnar kom fram að engin meiðsli hefðu orðið í tengslum við málið.
Udogie, sem er landsliðsmaður Ítalíu, gekk til liðs við Tottenham frá Udinese árið 2022 fyrir 15 milljónir punda og hefur spilað 76 leiki fyrir félagið.