

Símon Sigvaldason, oft nefndur Símon Grimmi vildi dæma Albert Guðmundsson í fangelsi í 30 mánuði og dæma hann sekan. Þetta kemur fram í sératkvæði Símons í Landsrétti í dag.
Símon hefur gengist undir þessu nafni vegna hás sakfellingarhlutfalls hans í gegnum tíðina. Albert Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, var í landsrétti í dag sýknaður af ákæru um nauðgun.
Albert var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra af ákæru fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis. Var þeirri niðurstöðu áfrýjað til Landsréttar sem staðfesti sýknu Alberts..
Símon, eins og fyrr segir, skilaði sératkvæði í málinu og vildi dæma Albert sekan en tveir aðrir dómarar í málinu töldu ekki hægt að sakfella hann. Ragnheiður Bragadóttir, dómsformaður í máli Alberts, samdi dóminn og Ásmundur Helgason myndaði meirihluta með henni en skilaði þó sjálfur sératkvæði þar sem hann taldi ekki rétt að fallast að öllu leyti á forsendur héraðsdóms.
Meira:
Albert segir eina glæpinn þessa nótt hafa verið að þau héldu framhjá mökum sínum
Sératkvæði Símons hljóðaði svona:
Símon skrifar í löngu máli um niðurstöðu sína og segir meðal annars. „Rannsókn málsins hefur að miklu leyti snúist um að afla nákvæmra framburða um röð atvika á þessu tímabili. Fyrir utan ákærða og brotaþola gáfu fjölmörg vitni skýrslu. Fram kom við meðferð málsins hjá lögreglu að allir voru undir töluverðum áhrifum áfengis þessa nótt. Það var staðfest við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Til viðbótar var komið fram undir morgun er ákærði og vitni fóru af heimili brotaþola eftir að hafa verið þar í samkvæmi eftir lokun skemmtistaðarins. Ég tel að gæta verði varhug við að meta trúverðugleika framburða við aðstæður sem þessar. Vitni voru þráspurð um mismunandi atriði í atburðarásinni, sem flestum reyndist erfitt að muna. Var það ekki óeðlilegt í ljósi allra aðstæðna. Að öllu virtu var það mat héraðsdóms að framburður brotaþola hefði verið ýmsum annmörkum háður og hann ekki metinn trúverðugur, andspænis trúverðugum framburði ákærða. Á þeim grundvelli var ákærði sýknaður af sakargiftum með hinum áfrýjaða dómi,“ segir Símon.
Símon kveðst ekki ekki sammála dómnum. „Ég er ekki sammála þessari nálgun í niðurstöðu um sök ákærða. Sem fyrr greinir tel ég erfiðleikum bundið að leggja mat á trúverðugleika framburða við þessar aðstæður. Ég tel hnökra vera á framburðum ákærða og brotaþola sem og lykilvitna. Ég sé ekki ástæðu til að rekja sérstaklega hér í hverju þetta misræmi er fólgið. Ég vil þó nefna eitt vitni í þessu sambandi. Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Var upptaka af framburði þessa vitnis spiluð fyrir Landsrétti. Stuðst hefur verið við framburð þessa vitnis við mat á sök ákærða og hefur hann verið talinn lykilvitni og styðja við framburð ákærða í málinu. Fram kom við meðferð málsins fyrir héraðsdómi að vitnið er æskuvinur ákærða. Jafnframt kom fram að vitnið hafði aldrei hitt brotaþola áður en atvik gerðust. Vitnið staðhæfði að það hefði verið eftir í stofu á heimili brotaþola ásamt ákærða er aðrir gestir höfðu yfirgefið samkvæmið. Framburður þessa vitnis var í héraðsdómi talinn staðfesta þá frásögn ákærða að brotaþoli hafi borið sig að eins og hún vildi stofna til náinna kynna við ákærða um nóttina eftir að gestir voru farnir. Vitnið lýsti því fyrir héraðsdómi að það hefði farið áður en nokkuð hafi gerst en eigi að síður tryði vitnið því sem ákærði hafi síðar sagt um að samskipti ákærða og brotaþola hafi verið á þann veg að kynferðislegar athafnir þeirra hafi verið með samþykki brotaþola. Það gat þetta vitni á engan máta staðhæft þar sem það þekkti ekki alla þætti málsins. Var vitni þetta ótrúverðugt og að mínu mati vilhallt og er ég þeirrar skoðunar að virða beri framburð þess að vettugi.“
Símon telur framburð Alberts ekki hnökralausan og segir. „Þrátt fyrir að framburður ákærða sé ekki hnökralaus er hann samt sem áður ekki ótrúverðugur í sjálfu sér, svo langt sem hann nær. Hann sækir hins vegar ekki mikla stoð í þau gögn málsins er ég tel máli skipta. Ég tel að leggja beri framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu, en hann hefur að mínu mati verið trúverðugri en framburður ákærða um meginatriði málsins og fær mikinn stuðning af rannsóknargögnum málsins. Að teknu tilliti til meginreglna sakamálaréttarfars sem ég reifaði áður tel ég að fram sé komin nægjanleg sönnun um sekt ákærða til að telja hana sannaða. Ég tel því að sakfella beri ákærða fyrir nauðgun samkvæmt ákæru og dæma hann í fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Miðað við þá niðurstöðu tel ég að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm að því er einkaréttarkröfu brotaþola varðar og þeim hluta verði vísað heim hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Ég vil að lokum taka undir athugasemdir meiri hluta dómenda í efnisgrein 32 í atkvæði þeirra,“ sagði Símon.
Ásmundur Helgason skilaði einnig sératkvæði og sagði ekki hægt að dæma Albert sekan. „Í málinu liggja fyrir ýmis sönnunargögn, þeirra á meðal gögn frá neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis og framburður kærasta brotaþola, móður hennar og vinkvenna, sem gefa til kynna að brotaþoli hafi glímt við mikla vanlíðan sem hún rekur til brota ákærða gegn sér. Þessi sönnunargögn benda til þess að brotaþoli hafi sannanlega álitið að ákærði hafi virt að vettugi vilja hennar í þeim kynferðisathöfnum sem áttu sér stað. Þegar sönnunargögn málsins eru metin í heild, einkum framangreind atriði er lúta að mati á sönnunargildi framburða ákærða og brotaþola, leikur eftir sem áður slíkur vafi á því hvernig samskiptum þeirra var nánar háttað, að ekki verður slegið föstu með nægjanlegri vissu að skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga séu uppfyllt. Með þessum rökstuðningi tel ég rétt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða og frávísun einkaréttarkröfu brotaþola, sem og um sakarkostnað,“ sagði Ásmundur.