

Benjamin Sesko, framherji Manchester United, hefur sloppið við alvarleg meiðsli og verður frá í mestalagi mánuð, samkvæmt Sky Sports News.
Sesko missti af landsleikjum Slóveníu eftir að hafa fengið hnémeiðsli í leiknum gegn Tottenham fyrir landsleikjahlé.
Nánari myndgreiningar hafa staðfest að 22 ára leikmaðurinn er ekki með nein alvarleg vandamál og mun nú fara í endurhæfingu sem stendur fram í desember.
Sesko kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í 2-2 jafntefli gegn Tottenham og þurfti að fara af velli á 82. mínútu vegna meiðslanna. Þetta var hans 12. leikur á tímabilinu eftir að hann gekk til liðs við United frá RB Leipzig í sumar fyrir rúmlega 73 milljónir punda.
Manchester United mætir aftur til leikja eftir landsleikjahléið 24. nóvember þegar liðið tekur á móti Everton á Old Trafford.