Það er enn óljóst hvort Srdjan Tufegdzic, Túfa, verði áfram þjálfari Vals á næstu leiktíð eður ei. Tómas Þór Þórðarson telur að félagið eigi að ráða Eið Smára Guðjohnsen.
Valur missti af Íslandsmeistaratitlinum undanfarnar vikur í Bestu deildinni eftir að hafa verið á toppnum lengi vel. Framtíð Túfa hefur verið í umræðunni og einhverjir vilja skipta um mann í brúnni.
„Það hafa allir undir hans stjórn varla verið betri en á æfingum hjá Eiði. Hann er víst líka geggjaður í klefanum, klefaræður eru upp á 15.5. Við skulum vera heiðarlegir með það að hann er fjórtán sinnum stærri en leikmenn Vals til samans, þannig að það er ekkert mál að laga klefann,“ sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolti.net.
„Ef að hann er í lagi þá er þetta maðurinn sem Valur á að keyra á. Hann er með djúpar tengingar þarna, væntanlega hungraður og sagði í Dr. Football að hann væri klár í slaginn. Ef að hann er klár þá ætla ég að fara það langt að segja að það væri skrítið ef þeir myndu ekki ráða hann. Miðað við það sem þeir þurfa væri annað kjánalegt.“
Eiður hefur áður þjálfað FH og verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, sem og U-21 árs landsliðsins.
Eiður ræddi einmitt framtíð sína í þjálfun í umræddum þætti af Dr. Football. Má lesa nánar um það hér.