Hjörvar Hafliðason stjórnandi Dr. Football segir það segja mikið um hugarfar Gylfa Þórs Sigurðssonar að hann hafi viljað gera allt til að fara í Víking, læti voru í kringum félagaskipti hans frá Val til Víkings í febrúar.
Gylfi varð Íslandsmeistari með Víkingi í gær en þetta var fyrsti titill hans á ferlinum. Gylfi lék í eitt ár með Val en vildi burt frá félaginu í febrúar og fékk það í gegn eftir mikil læti.
„Það var þessi ákvörðun Gylfa að gera allt vitlaust á Hlíðarenda í febrúar, það má sanni segja að hann hafi valið rétt Hann er búinn að vera langbesti leikmaður deildarinnar síðasta mánuðinn þar sem þeir vinna deildina, langbestur gegn FH,“ sagði Hjörvar Hafliðason um Gylfa í þætti sínum í gær.
„Gylfi að eiga frábært tímabil.“
Gylfi vildi fara frá Val, hann gat farið í Breiðablik og Víkings og valdi það síðarnefnda. „Þegar hann og hans teymi völdu á milli Vals, Breiðabliks og Víkings. Þá völdu þeir rétt.“
Ljóst er að Gylfi hefur þénað vel á mögnuðum ferli sínum og segir Hjörvar hugarfar hans samt aldrei breytast. „Pældu í biluninni að eiga 6 eða 7 milljarða, og vilja ekkert meira en að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Hann hættir aldrei.“