

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hann taki ekki gagnrýni frá Sean Dyche persónulega, en nýr stjóri Nottingham Forest hafi aðeins verið að vinna sína vinnu sem knattspyrnusérfræðingur þegar hann gerði athugasemdir um leikstíl Portúgalans síðasta sumar.
Dyche, sem tók nýverið við Forest, hélt því þá fram í tveimur hlaðvörpum að hann myndi vinna fleiri leiki með United með hefðbundnu 4-4-2 kerfi, fremur en 3-4-2-1 kerfi Amorims. Liðin mætast á morgun í ensku úrvalsdeildinni.
„Kannski hefur hann rétt fyrir sér, ef við myndum spila 4-4-2 gætum við unnið fleiri leiki,“ sagði Amorim.
„En ég hef alltaf sagt að minn leikstíll taki tíma, og í framtíðinni verður hann betri. Við vitum það ekki.“
Hann bætti við að hann skilji vel muninn á því að vera þjálfari og sérfræðingur. „Ef þú ert í sjónvarpinu og segir ekki sterkar skoðanir, þá er enginn að fara að hlusta á þig. Ég skil það vel. Sean Dyche er mjög klár maður og veit hvernig leikurinn virkar.“
„Það er annað að tala um leikinn, og annað að stýra liði. Ég tek því ekki illa, ég vil bara vinna næsta leik,“ sagði Amorim að lokum.