
Enska landsliðsstjarnan Phil Foden hefur fengið lögfræðinga til liðs við sig eftir að sjúkar og alrangar sögur um fjölskyldu hans dreifðust á samfélagsmiðlum.
Í nokkrum færslum var ranglega haldið fram að elsti sonur hans, Ronnie, sex ára, væri látinn og að dóttir hans True, fjögurra ára, væri með krabbamein. Þessum sögum fylgdu falsaðar gervigreindarmyndir sem sýndu Foden og unnustu hans Rebeccu Cooke grátandi.
Rebecca fordæmdi sögurnar. „Við vitum af síðunum og aðilunum sem dreifa þessum lygum. Þær eru algjörlega rangar og ógeðslegar. Ég skil ekki hvernig fólk getur búið svona til, sérstaklega um börn. Þetta er sjúkt.“
Hún bætti við að fjölskyldan væri heil á húfi og þakkaði fólki fyrir stuðninginn.
„Við erum öll alveg í lagi, guði sé lof. Við gerum allt sem við getum til að stöðva þetta. Vinsamlegast tilkynnið færslur eða síður sem deila þessum ósannindum.“